Íslenskir Bíódagar í Köben

  Sýningin ISLAND::FILM 1904-2008 opnar á Norðurbryggju 1.
nóvember og af því tilefni munu fjórir íslenskir kvikmyndagerðarmenn
sýna og fjalla um kvikmyndir sínar á Bíódögum sem að þessu sinni verða íslenskir.

Flökkusýningin ISLAND::FILM kynnir kvikmyndasögu Íslands frá upphafi
hennar 1904 fram til dagsins í dag. Stærri sem og smærri verk munu
verða sýnileg í röð af úrvals kvikmyndabrotum og einnig verður
möguleiki á að sjá hátt í 100 kvikmyndir í fullri lengd á svokölluðum
”kvikmyndaeyjum” sem verða flokkaðar í leiknar myndir, stuttmyndir,
aðlaganir og heimildamyndir.

Sýningin sem opnaði fyrst í Berlín síðastliðið vor mun opna nú á
laugardaginn á Norðurbryggju og stendur þar til 25. janúar 2009.

Íslenskir kvikmyndaleikstjórar á Bíódögum
Að tilefni sýningarinnar kynna fjórir íslenskir kvikmyndagerðarmenn hver sína kvikmynd á Bíódögum á Norðurbryggju.

Guðný Halldórsdóttir mætir fyrst til leiks þann 4. nóvember með nýjustu kvikmynd sína Veðramót (2007) og að tilefni opnunar Bíódaga mun Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn bjóða gestum uppá hressingu.

Þriðjudaginn þar á eftir mun Friðrik Þór Friðriksson sýna og fjalla um kvikmynd sína Börn náttúrunnar
(1991), sem með tilnefningu til Óskarsverðlauna árið 1992 tókst að
greiða braut leikstjórans og vakti athygli á Íslandi sem kvikmyndaþjóð.

Þriðjudaginn 18. nóvember mætir Baltasar Kormákur og sýnir tímamótamynd sína 101 Reykjavík sem kom honum og hans kynslóð á hið alþjóðalega kvikmyndatjald.

Þriðjudaginn 25. nóvember mun Bíódögunum ljúka með enn einum þekktum íslenskum leikstjóra þegar Ágúst Guðmundsson kemur og sýnir mynd sína Mávahlátur (2001). Eftir sýninguna mun Ágúst ræða við gesti um kvikmyndina og feril sinn, en kvikmynd hans Land og synir hóf hið íslenska kvikmyndavor þegar hún var frumsýnd þann 25. janúar 1980.

Nánari upplýsingar á www.bryggen.dk/biodage  

Miðasala: www.politikenbillet.dk/nordatlanten