Nýjasta kvikmynd Ben Stiller, The Secret Life of Walter Mitty verður frumsýnd næstu jól. Fyrsta sýnishornið úr myndinni hefur litið dagsins ljós og má þar sjá íslenska náttúru í allri sinni dýrð. Stykkishólmur, eskimóar og skrifstofulífið í New York koma einnig við sögu. Íslenska hljómsveitin Of Monsters And Men sér um tónlistina og má þar heyra lagið þeirra „Dirty Paws“.
The Secret Life of Walter Mitty er leikstýrt af Ben Stiller sem einnig skrifar handritið og leikur aðalhlutverkið. Myndin er endurgerð á samnefndri mynd frá árinu 1947 með Danny Kaye í aðalhlutverkinu.
Walter í túlkun Stiller er uppburðarlítil og hikandi manngerð, sem starfar sem myndstjóri hjá tímaritinu Life í New York. Hann lifir lífi sínu í gegnum dagdrauma. Þegar ein af myndunum sem hann er að vinna með týnist, þá þarf hann að fara í alvöru ævintýraferð og kemst að því úr hverju hann er í raun gerður, og hverju hann getur áorkað.