Hross í oss keppir ekki um Óskar

JAGTEN045048Valnefndin sem velur þær myndir sem tilnefndar eru til Óskarsverðlaunanna á næsta ári hefur nú stytt lista sinn yfir mögulegar myndir niður í níu myndir. Íslenska framlagið, Hross í oss eftir Benedikt Erlingsson, hlýtur ekki náð fyrir augum nefndarinnar.

Á meðal mynda eru hinsvegar myndir sem flestir bjuggust við að yrðu á listanum, og hafa verið sýndar hér á landi við góðar undirtektir.  Myndir eins og ítalska kvikmyndin The Great Beauty eftir Paolo Sorrentino og danska myndin Jagten, eða The Hunt, eftir Thomas Vinterberg.

Það sem kemur kannski helst á óvart er að The Past, mynd Asghar Farhadi,  sem vann Óskarsverðlaunin árið 2011 fyrir bestu erlendu mynd, hafi ekki náð inn á níu mynda stuttlistann, en myndin er tilnefnd, eins og þær tvær fyrrnefndu, til tveggja Golden Globe verðlauna, auk þess sem leikkonan Bérénice Bejo var valin besta leikkonan á kvikmyndahátíðinni í Cannes í vor.

Sumir höfðu búist við að sjá  fyrstu kvikmyndina frá Saudi Arabíu, Wadjda, sem sýnd var hér á landi fyrr á árinu, á 9 mynda listanum, en ekkert varð úr því.

Þá bjuggust margir við sílesku myndinni Gloria eftir Sebastien Lelio á listanum, en hún komst ekki á listann þrátt fyrir lof gagnrýnenda.

Á upphaflega listanum voru 76 myndir. Nú mun 30 manna dómnefnd velja þær fimm myndir sem tilnefndar verða til Óskarsverðlaunanna. Valið verður tilkynnt þann 16. janúar nk.

Hér er listi yfir þær níu myndir sem koma til greina:

Belgía, The Broken Circle Breakdown, Felix van Groeningen
Bosnia og Herzegovina, An Episode in the Life of an Iron Picker, Danis Tanovic
Kambódía, The Missing Picture, Rithy Panh
Danmörk, The Hunt, Thomas Vinterberg
Þýskaland, Two Lives, Georg Maas
Hong Kong, The Grandmaster, Wong Kar-wai
Ungverjaland, The Notebook, Janos Szasz
Ítalía, The Great Beauty, Paolo Sorrentino
Palestína, Omar, Hany Abu-Assad