Nú þegar Bruce Willis er að gera góða hluti í bíó í Death Wish er gaman að segja frá því að Willis í félagi við Len Wiseman og framleiðandann Lorenzo di Bonaventura, eru að þróa nýja kvikmynd sem einblína mun á hina goðsagnakenndu Die Hard – persónu Willis, lögreglumanninn John McClane, á yngri árum.
Aðrir meistarar, handritshöfundar hrollvekjunnar Conjuring, bræðurnir Chad og Carey Hayes, hafa einnig verið fengnir með í teymið til að skrifa handritið.
Myndin á að fjalla um líf og störf McClane sem lögreglumanns í New York á áttunda áratug síðustu aldar, mörgum árum áður en atburðirnir áttu sér stað í jólapartýinu í Nakatomi Plaza í Die Hard.
Wiseman er bæði hluti af framleiðsluteyminu auk þess sem hann mun halda um leikstjórnartauma.
Þetta verður í annað sinn sem hann vinnur í Die Hard heimum, en hann leikstýrði Live Free Or Die Hard, sem kom í bíó árið 2007.
Hayes bræðurnir hafa í gegnum tíðina skrifað aðallega hrollvekjur, en einstaka spennumyndir. Nú er bara að bíða og sjá hvort að þessi hugmynd er jafn góð og hún hljómar!