Nýjustu fréttir af Hobbitanum eru þær að myndin verður tekin upp í 48 römmum á sekúndu í stað 24a ramma á sekúndu sem flestar kvikmyndir eru.
Peter Jackson útskýrir í löngu máli hvers vegna á Facebook.
Eru helstu kostir þessa, samkvæmt Jackson, að myndin verður miklu skýrari og er sérstaklega gott að horfa á þrívíddarútgáfur af myndum sem teknar eru upp á þennan máta (en Hobbitinn á einmitt að koma út í þrívídd). Þá bendir Jackson á að nú þegar sé til tækni sem leyfir 60 ramma á sekúndu, en hún sé aðeins notuð í skemmtigörðum í dag, svo sem í Star Tours í Disneylandi og nýju King Kong-tæki í Universal Studios.
Alltsaman hljómar þetta dásamlega, nema það að til þess að skarpari tökur skili sér til áhorfenda þarf að vera hægt að sýna myndina í 48 römmum á sekúndu. Í dag eru aðeins, allavega svo Peter Jackson viti, 10 þúsund sýningarvélar sem ráða við hraðann, en hann vonast til að þær verði fleiri í desember 2012, þegar myndin á að koma út. Það er að segja ef Warner Bros. ákveða að gefa hana út með þessum hraða.
Þá er bara að krossa fingur!
-Kolbrún Björt Sigfúsdóttir