Hlátrasköll á forsýningu Fullra vasa

Ný íslensk gaman-glæpakvikmynd, Fullir vasar, eftir Anton Sigurðsson var forsýnd í gærkvöldi í Smárabíói við góðar undirtektir, og smekkfullan sal af fólki. Að öðrum ólöstuðum er Hjálmar Örn Jóhannsson snappari og skemmtikraftur, senuþjófur myndarinnar, en hann fer með langstærsta hlutverkið, athafnamann með allt niður um sig. Einnig er Aron Mola góður, og Áttu-menn, þeir Nökkvi Fjalar Orrason og Egill Ploder standa fyrir sínu.

Reyndir leikarar eins og Laddi og Hilmir Snær Guðnason eru einnig skemmtilega ruddalegir sem bílasalar og glæpamenn.

Þá áttu Einar Ágúst og Kalli Bjarni kostulega innkomu, en þeir léku sjálfa sig. Atriðið með Ólafíu Hrönn í sjoppunni var einnig frábært.

Kvikmyndir.is var á sýningunni og tók upp stutt myndband þegar leikarar og leikstjóri ávörpuðu áhorfendur áður en kvikmyndin hófst. Meðal þess sem leikstjórinn sagði í ávarpi sínu var að myndin hefði ekki klárast endanlega fyrr en nóttina áður, sem væri líklega einhversskonar met.

Kíktu á myndbandið hér fyrir neðan, og stiklu úr myndinni þar fyrir neðan: