Hart grínast með fötlun Cranston í Intouchables endurgerðinni

Margir muna eftir hinni geysivinsælu frönsku verðlaunagamanmynd The Intouchables sem sló í gegn hér á landi og víða annars staðar. Nú er von á bandarískri endurgerð myndarinnar, og var fyrsta stiklan úr myndinni, sem heitir  nú The Upside,  frumsýnd í dag.

Með hlutverk aðstoðarmannsins, sem Omar Sy lék í upprunalegu myndinni, fer gamanleikarinn Kevin Hart en með hlutverk franska auðmannsins, fer Bryan Cranston, sem hvað þekktastur er fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Breaking Bad. Þá fer ástralska leikkonan Nicole Kidman með aðal kvenhlutverkið.

Eins og segir í söguþræði upprunalegu myndarinnar þá er hún byggð á sannri sögu. Philippe er franskur auðmaður sem slasast illa í fallhlífarsvifi og lamast við það fyrir neðan háls. Þetta verður honum að sjálfsögðu mikið áfall ekki síst vegna þess hversu lífsglaður útivistarmaður hann var fyrir slysið. Þegar Philippe er ásamt aðstoðarkonu sinni að ráða einhvern til að annast sig sækir um starfið ungur maður, Driss, en hann er með heldur vafasaman feril að baki. Driss sjálfum til mestu furðu ræður Philippe hann þrátt fyrir að ljóst sé að fagleg þekking hans á umönnun fatlaðra er engin. En Philippe hefur sínar ástæður fyrir því að honum leist best á þann sem engan séns átti í starfið. Það á síðan eftir að koma í ljós að innsæi hans var rétt og smám saman myndast á milli þessara ólíku manna einstök vinátta sem smitar alla sem á horfa.

Í stiklunni er ljóst að auðmaðurinn er einstaklega loðinn um lófana og segir m.a. : „Ég á meiri peninga en Jay – Z.“

Hart svarar: „Þú getur fengið hvaða stelpu sem þú vilt. Hvað með þessa með allt Botoxið framan í sér? Þið mynduð verða fullkomin fyrir hvort annað – þú getur ekki hreyft líkamann, en hún getur ekki hreyft á sér andlitið.“

Myndin var upphaflega frumsýnd á Toronto kvikmyndahátíðinni árið 2017, en lenti í limbói vegna Harvey Weinstein hneykslismálsins, en fyrirtæki hans framleiddi myndina.

The Intouchables er önnur tekjuhæsta kvikmynd í Frakklandi frá upphafi, og var í fyrsta sæti aðsóknarlistans þar í landi í tíu vikur samfleytt.

Myndin er væntanleg í bíó í Bandaríkjunum í janúar nk. en óvíst er hvort hún rati í bíó hér á landi.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: