Harold Gould úr The Sting látinn

Harold Gould, leikarinn sem lék meðal annars svikahrappinn Kid Twist í myndinni The Sting, ásamt Robert Redford og Paul Newman, er látinn 86 ára að aldri.
Banamein hans var krabbamein í blöðruhálskirtli.
Gould var afkastamikilll leikari og lék jafnt í sjónvarpi og í bíómyndum. Hann lék í kvikmyndum eins og Harper, Love and Death , Freaky Friday og Patch Adams.
Í sjónvarpi lék hann kærasta Betty White í The Golden Girls, og kom fram sem gestaleikari í Soap ( eða Löðri eins og þættirnir hétu hér á landi ), Perry Mason og síðasta sást til hans í þáttunum Nip/Tuck.
Hann lætur eftir sig eiginkonu sína til 60 ára, Lea, og börnin Deborah Gould Harris, Joshua Gould og Lowell Gould, og fimm barnabörn.