Harley Quinn er hvergi hætt

Þótt að ofurhetjumyndin Suicide Squad hafi ekki fengið góðar viðtökur þá eru margir spenntir fyrir hinni snarklikkuðu Harley Quinn og hvort hún muni fá sína eigin mynd. Það er alveg klárt að Quinn mun birtast í Suicide Squad 2 ef sú mynd verður gerð og mögulega Gotham City Sirens. Það hefur líka verið rætt um mynd þar sem verður einblínt einungis á Quinn og Jókerinn.

Í nýju viðtali við Margot Robbie, sem lék persónuna eftirminnilegu, tekur hún fram að hún sé einnig að vinna að annarri mynd um Quinn og hefur sú mynd verið í bígerð í tvö ár. Myndin mun að öllum líkindum fjalla um Quinn og vinkonur hennar úr söguheimi DC Comics.

,,Mig langar að sjá hana [Quinn] með öðrum konum.“ sagði Robbie m.a. við MTV-sjónvarpsstöðina og uppljóstraði þar með lauslegu sögusviði myndarinnar. Hún bætti einnig við að á meðan tökum stóð á Suicide Squad þá hafi hún oft nefnt það við samstarfsfólkið sitt að henni fannst vanta fleiri konur í kringum Quinn.

Sjá má viðtalið hér að neðan.