Framleiðslufyrirtækið Sony Pictures hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis að Mad Max: Fury Road og Inception leikarinn Tom Hardy hafi verið ráðinn í hlutverk Eddie Brock í ofurhetjumyndina Venom. Leikstjóri verður Zombieland og Gangster Squad leikstjórinn Ruben Fleischer.
Ofurhetjuheimar eru Hardy ekki framandi þar sem hann lék illmennið Bane í Batman myndinni Dark Knight Rises árið 2012, í leikstjórn Christopher Nolan. Hann er væntanlegur á skjáinn innan skamms í nýjustu Nolan myndinni Dunkirk.
Kvikmyndaverið sendi af þessu tilefni frá sér mynd af Hardy í Venom stuttermabol og lét þess getið að hann væri „mikill aðdáandi Venom“:
Tom Hardy is Eddie Brock in #Venom, the upcoming film from Sony’s Marvel Universe releasing October 5, 2018 – production starts this fall. pic.twitter.com/OZQqDEvoum
— Sony Pictures (@SonyPictures) May 19, 2017
Venom verður Sony Marvel mynd, en ekki hluti af núverandi Marvel seríu, þar sem Tom Holland leikur Spider-Man.
Handrit skrifa þeir Scott Rosenberg (Pain & Gain, Jumanji) og Jeff Pinkner (The Amazing Spider-Man 2) .
Tökur hefjast í haust, og frumsýning er áætluð 5. október 2018.
Venom birtist fyrst í teiknimyndasögum sem hálfgert yfirtökusjálf Köngulóarmannsins, þ.e. Venom búningurinn lagðist yfir Spider-Man og yfirtók hann. Þetta gerðist fyrst í 252. hefti The Amazing Spider Man frá árinu 1984.
Nokkrum árum síðar fór þessi vera úr Peter Parker, og yfir í ljósmyndarann Eddie Brock, og úr varð andhetjan Venom.
Síðan þá hefur Venom birst í ýmsum myndum, og tekið sér bústað í ýmsum hýslum.
Við sáum Venom síðast á hvíta tjaldinu í túlkun Topher Grace í Spider-Man 3 eftir Sam Raimi.
Allar götur síðan sú mynd var frumsýnd árið 2007 hafa verið uppi sögusagnir um sérstaka Venom mynd, en allar tilraunir hafa hingað til farið út um þúfur, þar til nú.
Nýja Spider-Man myndin, Spider-Man: Homecoming, kemur í bíó 7. júlí nk.