Hardy líklegastur sem Bond

tom hardyBoyleSports, írsk veðmálasíða á netinu segir að Tom Hardy, sem leikur Kray glæpatvíbura í Legend, sé líklegastur eins og staðan er í dag til að taka við hlutverki James Bond af Daniel Craig.

Líkurnar á að Hardy hreppi hlutverkið eru núna 2/1, á meðan líkurnar á að Idris Elba verði næsti Bond eru 3/1, Damien Lewis 7/2 og Henry Cavill, þekktastur sem Superman og njósnari í The Man from U.N.C.L.E., er með líkurnar 4/1.

Hardy gaf það út á dögunum í samtali við Sky fréttastofuna að hann væri alveg til í að leika njósnara hennar hátignar, 007, en það hefur gefið veðmálum á BoyleSports byr undir báða vængi samkvæmt talsmanni síðunnar Liam Glynn.

Aðrir sem eru með í umræðunni eru Orlando Bloom (25/1), Michael Fassbender (6/1), Dominic West (40/1) og meira að segja fótboltakappinn David Beckham, þó líkurnar séu ekki honum í hag ennþá amk., eða 250/1.

Nýja James Bond myndin Spectre kemur í bíó 6. nóvember nk.