Stórleikarinn Tom Hanks mun fara með hlutverk prófessorsins Robert Langdon á ný í kvikmyndinni Inferno. Hanks hefur áður leikið Langdon í myndunum The Da Vinci Code og Angels & Demons og eru þær, líkt og Inferno, byggðar á bókum eftir höfundinn Dan Brown.
Tökur á myndinni munu hefjast í apríl á næsta ári og fara þær fram á Ítalíu. Ron Howard hefur einnig verið staðfestur sem leikstjóri myndarinnar, en hann leikstýrði síðustu tveim myndum um prófessorinn.
Inferno er fjórða bókin um Langdon og ævintýri hans. Í bókinni vaknar Langdon á spítala í Flórens og hefur hvorki hugmynd um hvar hann er staddur í veröldinni né hvernig hann lenti þarna. Því síður getur hann útskýrt dularfullan hlut sem finnst í fórum hans. Áður en hann veit af er Langdon kominn á æðisgenginn flótta um Flórens ásamt ungum lækni, Siennu Brooks, þar sem aðeins þekking hans á afkimum borgarinnar og fornum leyndardómum hennar getur bjargað þeim.
Síðasta myndin um Robert Langdon, Angels & Demons, var frumsýnd árið 2009 og halaði inn 468 milljónum USD á heimsvísu.