James Gunn, sem leikstýrði Guardians of the Galaxy, hefur lokið við handrit framhaldsmyndarinnar Guardians of the Galaxy Vol. 2.
Gunn tilkynnti um áfangann á Facebook og Instagram með því að setja þar mynd af forsíðu handritsins. Þar kemur fram að um fimmta og síðasta uppkastið er að ræða.
„Þetta gerist þegar þú setur heilann á milli handa þinna og kreistir út hvern einasta dropa,“ sagði hann og bætti við að handritið væri á leiðinni í pósti til helstu leikara myndarinnar.
Guardians of the Galaxy kom út 2014 við mjög góðar undirtektir. Tökur á framhaldsmyndinni hefjast í Atlanta í Georgíufylki í febrúar og er hún væntanleg í bíó vorið 2017.
Leikararnir sem snúa aftur í framhaldið eru: Chris Pratt (Star-Lord), Zoe Saldana (Gamora), Dave Bautista (Drax), Bradley Cooper (Rocket), Vin Diesel (Groot), Karen Gillan (Nebulda), Michael Rooker (Yondu) og Sean Gunn (Kraglin). Ný viðbót við leikaraliðið verður Pom Klementieff (Oldboy).