Tvær íslenskar kvikmyndir voru, eins og við höfum sagt frá áður hér á kvikmyndir.is, valdar til þátttöku á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto í Kanada sem nú stendur yfir, Málmhaus, sem heitir Metalhead á ensku, og This is Sanlitun, eða Svona er Sanlitun, eins og hún heitir á íslensku.
Málmhaus hefur þar að auki verið valin til þátttöku á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Busan í Suður Kóreu.
Tvær „hálf-íslenskar“ myndir hafa líka verið valdar til þátttöku á þessum hátíðum, önnur í Toronto en hin í Busan, sömu hátíð og Málmhaus var valin á, eins og fram kemur í frétt frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Myndin sem tekur þátt í Toronto hátíðinni er suður-afrísk/íslensk meðframleiðsla, og heitir Of Good Report í leikstjórn Jahmil X. T. Qubeka. Myndin mun taka þátt í „Discovery Programme“ hátíðarinnar.
Of Good Report segir frá hæglátum kennara í afskekktu sveitaþorpi í Suður-Afríku sem hefur ólöglegt ástarsamband við nemanda sinn, sem mun hafa hörmulegar afleiðingar fyrir þau.
Jahmil X. T. Qubeka leikstýrir Of Good Report og er einnig handritshöfundur myndarinnar. Framleiðendur eru Michael Auret og Luzuko Dilima og íslenskir meðframleiðendur eru Heather Millard og Þórður Bragi Jónsson. Þar að auki fór eftirvinnsla myndarinnar fram hér á landi.
Hálf-íslenska myndin sem fer til Busan er hin sænsk/íslenska meðframleiðsla Hemma í leikstjórn Maximilian Hult.
Hemma segir frá einfaranum Lou, sem er vel gefin ung kona sem býr með móður sinni í stórborginni. Lou veit ekki betur en að þær eigi ekki aðra ættingja á lífi og er það því mikið áfall þegar hún fær fregnir af því að móðuramma hennar sé enn á lífi og að afi hennar sé nýlátinn. Gegn vilja móður sinnar ákveður Lou að fara í jarðarför afa síns og flytur til ömmu sinnar.
Tökur á myndinni fóru fram á Eyrarbakka síðastliðið sumar.
Maximilian Hult leikstýrir myndinni og er einnig handritshöfundur hennar. Myndin er klippt af Valdísi Óskarsdóttur. Framleiðendur eru Anna G. Magnúsdóttir og Anders Granström. Meðframleiðendur eru Guðrún Edda Þórhannesdóttir og Friðrik Þór Friðriksson.