Hafnaði Superman, Spiderman og Batman

Screen Shot 2014-05-01 at 8.55.17 PMBandaríski leikarinn Josh Hartnett sagði frá því í viðtali hjá Details Magazine á dögunum að hann gat valið um hvaða hlutverk í hvaða stórmynd sem er fyrir 10 árum, en núna þarf hann að berjast fyrir hlutverkunum sínum.

Hartnett, sem er 35 ára í dag, á glæsilegan feril að baki þrátt fyrir ungan aldur og hefur leikið í kvikmyndum á borð við Sin City, The Black Dahlia og Black Hawk Down.

Hartnett fékk leið á frægðinni og vildi ekki leika hlutverk sem hann yrði kenndur við allt sitt líf. Leikaranum var m.a. boðið titilhlutverkið í Superman Returns. „Ég vildi ekki vera stimplaður sem Superman það sem eftir var. Ég var 22 ára þegar ég hafnaði hlutverkinu, en ég vissi um hættuna.“ sagði Hartnett og hélt áfram „Mér var líka boðið hlutverk í Spider-Man og Batman, en ég vissi að ég yrði alltaf kenndur við þessi hlutverk og það vildi ég ekki.“

Hartnett fluttist á endanum frá Hollywood til heimabæ síns í Minnesota. „Ég var á forsíðu allra tímarita og gat ekki farið neitt. Mér leið ekki vel í mínu eigin skinni. Ég var einmanna og treysti engum, þannig ég flutti aftur heim.“ sagði Hartnett.

Hartnett hefur lítið leikið á síðustu árum, þann 11. maí næstkomandi mun hann þó snúa aftur í stóru hlutverki í nýjum þáttum frá Showtime, sem bera heitið Penny Dreadful og eru hryllingsþættir sem gerast í London á Viktoríutímabilinu. Auk Hartnett eru þau Eva Green og Timothy Dalton í aðalhlutverkum. Hér að neðan má sjá stiklu úr þáttunum.