Leikaraparið Brad Pitt og Angelina Jolie munu á nýjan leik leiða saman hesta sína á hvíta tjaldinu, í fyrsta skipti síðan þau léku saman í Mr. and Mrs. Smith árið 2005, í myndinni By the Sea, eða Við hafið, sem Jolie mun einnig leikstýra og skrifa handrit að.
Pitt mun framleiða í gegnum fyrirtæki sitt Plan B, sem framleiddi til dæmis Óskarsverðlaunamyndina 12 Years a Slave.
„Ég er mjög glöð með að halda áfram að vinna með [ yfirmanni Universal Pictures Donna Langley ] og öllu góða fólkinu hjá Universal, nú þegar ég er að klára Unbroken og hefja vinnu við By The Sea,“ sagði Jolie í yfirlýsingu til fjölmiðla.
„Angelina heldur áfram að sýna okkur hvað hún er frábær sögumaður, bæði fyrir framan og aftan myndavélina, og við erum mjög spennt að halda áfram samstarfinu við hana við myndina By the Sea,“ segir Langley í sömu yfirlýsingu.
Jolie vinnur nú sem stendur að eftirvinnslu Unbroken sem er ævisöguleg mynd um keppanda á Ólympíuleikum og stríðshetju úr seinni heimsstyrjöldinni, Louis Zamperini, en frumýning hennar er áætluð á Jóladag.
Leikstjóraferill Jolie hófst með sjálfsæðri bosnískri stríðsmynd, In the Land of Blood and Honey, frá árinu 2011.