Christian Bale hefur sagt skilið við Enzo Ferrari kvikmyndina sem leikstjórinn Michael Mann er að gera, vegna spurninga um áhrif myndarinnar á heilsu leikarans, samkvæmt heimildum Variety kvikmyndaritsins.
Heimildir þess herma að mikið þyngdartap sem Bale hefði þurft að undirgangast, hefði þótt hættulegt heilsu Bale. Bale hefur ítrekað megrað sig og þyngt gagngert fyrir hlutverk í kvikmyndum, en frægasta dæmið þar um er myndin The Machinist, en þá horaði Bale sig niður um 27 kíló fyrir hlutverkið.
Mann þarf nú að finna sér nýjan leikara í skyndi þar sem tökur á myndinni eiga að hefjast í vor.
Enzo Ferrari gerist árið 1957 og segir sögu ástríðufulls manns, sem var kappakstursökumaður og frumkvöðull.