Hætt við sýningar á Django Unchained í Kína

Loksins þegar komið var að frumsýningu á fyrstu Quentin Tarantino myndinni sem tekin er til sýningar í Kína, var á síðustu stundu ákveðið að hætta við frumsýninguna, af „tæknilegum ástæðum“.

„Við fengum skipun um þetta frá höfuðstöðvunum í morgun kl. 10, en það var of seint til að stöðva tvær sýningar sem voru komnar af stað,“ sagði aðili úr bíói í Shanghai við Reuters fréttastofuna.

„Okkur var bara sagt að þetta væri útaf tæknilegum vandamálum, og var sagt að hætta við sýningarnar. Þeir sögðu okkur ekki hvenær myndin mætti fara aftur í sýningar.“

Mikil kynningarherferð hefur verið fyrir myndina síðustu vikur í Kína sem átti að ná hámarki með frumsýningu myndarinnar í dag, fimmtudag.

Nokkrir kvikmyndagestir sögðu frá því á bloggsíðu á netinu að þeir hefðu setið í bíósalnum og horft á myndina þegar skyndilega var slökkt á henni.

Kínversk dagblöð hafa haft það eftir nokkrum nafnlausnum heimildarmönnum að ástæðan sé nektarsenur í myndinni.

Kvikmyndayfirvöld í Kína ritskoða allar myndir sem teknar eru til sýninga í landinu, en margir kvikmyndaunnendur höfðu fagnað væntanlegri frumsýningu Django og túlkað sem tákn um aukið umburðarlyndi í þessum efnum.

Sagt er að leikstjórinn, Quentin Tarantino, hafi gert fáeinar breytingar á myndinni svo hún yrði hæf til sýninga í landinu, þar á meðal deyft lit á blóði í ofbeldissenum.