Kvikmyndaleikarinn Ryan Gosling segist hafa verið rekinn úr mynd Peters Jackson, The Lovely Bones, vegna þess að hann var of feitur, eftir að hafa bætt á sig rúmum 27 kg. Gosling segir að þyngdaraukningin hafi ekki slegið í gegn, hvorki hjá leikstjóranum né framleiðendum myndarinnar.
Gosling segir að þyngdaraukningin, sem náðist fram með ótæpilegri drykkju á bráðnuðum Haagen Daz ís, hafi verið þaulskipulögð af honum sjálfum, þar sem hann sá persónuna sem hann átti að leika í myndinni, hinn syrgjandi faðir Jack Salmon, svona fyrir sér. Það gerðu aðstandendur myndarinnar hins vegar ekki, og ráku Gosling nokkrum dögum áður en tökur áttu að hefjast, og réðu Mark Wahlberg í hlutverkið í staðinn.
„Við ræddum ekki mikið saman í aðdraganda myndarinnar, sem var kannski rót vandans,“ sagði Gosling. „Þetta var stór mynd, og það er í mörg horn að líta, og leikstjórinn gat ekki fylgst með hverjum og einum leikara á undirbúningstímabilinu. Ég bara birtist á tökustað, og ég hafði einfaldlega séð þetta vitlaust fyrir mér.“
„Þá sat ég uppi, feitur og atvinnulaus.“
Jackson og eiginkona hans og meðframleiðandi, Fran Walsh lýstu þessu með öðrum hætti í viðtali við Hollywood Reporter fyrir ári síðan.
„Ryan kom til okkar tvisvar eða þrisvar sinnum og sagði; „Ég er ekki rétti maðurinn í þetta hlutverk. Ég er of ungur,“ segir Walsh að Gosling hafi sagt. „Við sögðum, nei, nei, nei. Við getum gert þig eldri, og reddað þessu.“
„Það var ekki fyrr en þegar leið að tökum að þetta varð ljóst að honum leið ekki nógu vel með þetta, og við fórum að fá á tilfinninguna að hann væri ekki rétti maðurinn í hlutverkið. Þetta var okkar yfirsjón, að reyna að láta þetta ganga hvað sem það kostaði.“