Gordon-Levitt og Rogen í jólamynd

50-50Movie_Review_2Joseph Gordon-Levitt og Seth Rogen munu fara með aðalhlutverkin í nýrri jólamynd frá leikstjóra 50/50, Jonathan Levine, en leikararnir fóru einnig með aðalhlutverkin í þeirri mynd.

Myndin mun fjalla um þrjá æskuvini sem hafa gert það að sið að hittast ár hvert á jóladagskvöld. Með önnur hlutverk í myndinni fara m.a. Anthony Mackie sem margir kannast við úr ofurhetjumyndunum Captain America. Masters of Sex-stjarnan Lizzy Caplan fer svo með hlutverk kærustu eins úr vinahópnum.

Myndin hefur ekki fengið opinberan titil en er hinsvegar áætluð til sýninga í kringum jólin 2015.

Eins og fyrr segir þá hafa aðalleikararnir og leikstjórarnir áður unnið saman við gerð myndarinnar 50/50, en hún fjallar um mann sem fær krabbamein og vin hans sem stendur með honum í gegnum veikindin.

Seth Rogen mun næst sjást í gamanmyndinni The Interview, en þar leika hann og James Franco fræga blaðamenn sem fá viðtal við hinn stórkostlega leiðtoga Norður Kóreu, Kim Jong-Un. Joseph Gordon-Levitt fer hinsvegar með hlutverk í framhaldsmyndinni Sin City: A Dame To Kill For sem verður frumsýnd í þessum mánuði.