Seth Rogen leitar að Valla

valliHollywood vefsíðan The Tracking Board segir frá því að Seth Rogen og Evan Goldberg muni framleiða kvikmyndagerð barnabókanna Hvar er Valli, eða Where´s Waldo, eins og bækurnar heita á frummálinu, í gegnum fyrirtæki sitt Point Grey.

 

Bækurnar fjalla um Valla sem er klæddur hvít- og rauðröndóttri rúllukragapeysu, með húfu og staf. Valli er jafnan staddur í fjölmenni, og markmiðið er að reyna að finna hann á síðum bókanna, mitt í allri mannmergðinni.

Þessi mynd hefur verið á teikniborðinu í þónokkur ár núna, og ýmis kvikmyndaver hafa sýnt áhuga, en myndin er sem stendur á borði MGM.

Rogen og Goldberg eru eingöngu nefndir sem framleiðendur, en óvíst er hvort þeir koma að handritsskrifum eða leikstjórn.

Point Grey hefur gert myndir eins og Neighbours: Sorority Rising, The Night Before, Neighbors og This is the End.