Gibson úti, Tyson inni

Ekkert verður af því að Mel Gibson leiki í Hangover 2, eins og sagt var frá fyrr í vikunni.

Samkvæmt fréttum, eða sögusögnum frá Hollywood, þá gaf ein aðalstjarna myndarinnar, æringinn Zach Galifianakis, í skyn í Comedy Death-ray Podcasti, að allt væri upp í loft á tökustað Hangover ll, en nefndi þó engin nöfn. Spekúlantar voru þó fljótir að geta í eyðurnar og tengja ráðningu Gibsons við orð Galifianakis, en Gibson er mjög umdeildur vegna ýmissa vafasamra ummæla og persónulegra vandamála. Nú síðast hafa verið í hámæli deilur hans og unnustu hans og barnsmóður Oksana Grigorieva, um að hún hafi óttast um líf sitt í janúar sl. þegar þau rifust heiftarlega á heimili sínu.

Þó að Gibson sé horfinn á braut frá Hangover, er annar vandræðagepill enn inni í handritinu, en það er sjálfur hnefaleikameistarinn Mike Tyson, sem átti eftirminnilegan leik í síðustu mynd, þar sem hann lék sjálfan sig.
Ekki er þó vitað um hvort að hann á að endurtaka hlutverk sitt frá því í fyrri myndinni.

Tyson er umdeildur eins og Gibson, en lengra er um liðið síðan hann var upp á sitt „versta“ í þeim efnum, en hann var meðal annars dæmdur í fangelsi árið 1992 fyrir kynferðisbrot, og sat í fangelsi í þrjú ár.

Hangover var alþjóðlegur smellur, og þénaði 467,5 milljónir Bandaríkjadala á heimsvísu.