Í nýlegu viðtali við Toronto Sun tímaritið talaði gamanleikarinn Seth Rogen um fund sem hann hafði átt með leikstjórunum George Lucas og Steven Spielberg. Það sem hefur vakið hvað mesta athygli er að Rogen segir Lucas hafa talað lengi um að heimurinn myndi enda á næsta ári.
„George Lucas sest niður og byrjar í alvöru að tala um hvernig heimurinn mun enda árið 2012, ég er ekki að grínast.“ sagði Rogen. „Hann heldur ræðu í 25 mínútur um jarðskorpuna og gróðurhúsaáhrifin og hann meinar hvert orð. Fyrst hélt ég að hann væri að grínast en svo gerði ég mér grein fyrir því að hann trúði þessu öllu. Á meðan situr Steven Spielberg við hliðina á honum og hvolfir augunum.“
Seth Rogen sá sér þá gott til glóðarinnar, „Ég byrjaði svo að hugsa, ef George Lucas telur að heimurinn muni enda eftir ár þá á hann pottþétt geimskip. Hann neitaði því þegar ég spurði hvort ég mætti fá far, en það er án efa Millenium Falcon-geimskip í bílskúrnum hans með flugmanni sem bíður eftir deginum. En þá munu hann og Steven Spielberg sleppa og ég mun springa í loft upp með ykkur hinum.“
Seth Rogen má næst sjá í grín- og hasarmyndinni The Green Hornet en í henni fer hann með hlutverk ofurhetju í fyrsta sinn. Myndin verður frumsýnd hérlendis nú um helgina, en með önnur hlutverk fara Christoph Waltz, Cameron Diaz og Jay Chou.
– Bjarki Dagur