Náðu í appið
Gagnrýni eftir:A Mighty Wind
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég hef ekki skrifað gagnrýni í háa herrans tíð en ég get ekki setið hjá og leyft fólki að tala illa um þessa stórkostlegu mynd. A Mighty Wind kemur úr hugarheimi þeirra Christopher Guest og Eugene Levy, snillinganna á bak við This is Spinal Tap, Best in Show og Waiting for Guffman. Ég veit að þessi húmor er ekki fyrir alla, en það er leitt að sjá að fólk er orðið svo vant prumpubröndurum og hallærislegum neðanbeltishúmor að svona bíókonfekt fær ekki séns. Eins og í þeirra fyrri myndum nota Guest og Levy heimildamynda-þemað til að gera bráðfyndna gamanmynd. Nú snúa þeir sér að útjöskuðum þjóðlagasöngvurum sem ákveða að snúa aftur 30 árum eftir hátind vinsældanna til að kveðja þekktan mann úr bransanum. Það eru þrjár hljómsveitir sem koma fram: The New Main Street Singers (með Parker Posey, John Michael Higgins og Jane Lynch í fararbroddi), The Folksmen (Christopher Guest, Michael McKean og Harry Shearer), og Mitch & Mickey (Eugene Levy og Catherine O'Hara). Í aukahlutverkum eru t.a.m. Bob Balaban, Ed Begley, og hin óborganlega Jennifer Coolidge. Þeir sem höfðu gaman að Best in Show eiga hreinlega eftir að dýrka þessa mynd. Eins og ég sagði þá er A Mighty Wind alls ekki mynd sem höfðar til allra, en þeir sem gefa henni séns eiga ekki eftir að sjá eftir því. Ég er búinn að sjá þessa mynd tvisvar, og sá allt leikaraliðið á tónleikum sem karakterarnir úr myndinni, og það er ekki annað hægt en að dást að hæfileikunum sem þetta fólk hefur. Frábær mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hulk
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ef Sigmund Freud væri enn á lífi og fengi tækifæri til þess að leikstýra kvikmynd, þá væri The Hulk eflaust myndin sem hann myndi gera. Ég hef sjaldan séð jafnmargar sálarflækjur í einni kvikmynd, og jafnvel græni risinn hefur ekki kraftana til að standa undir þeim öllum án þess að misstíga sig talsvert oft. Flestir þekkja söguna af vísindamanninum Bruce Banner, sem varð óvart fyrir gammageislun og breyttist eftir það í risann Hulk í hvert sinn sem hann varð reiður. Flestir leikstjórar hefðu sagt þá sögu á einfaldan hátt og haft gaman að því sem Hulk getur gert þegar hann er í ham. En Universal ákvað að Ang Lee væri rétti maðurinn fyrir þessa mynd, og þá varð ljóst að Hulk yrði ekki venjuleg ofurhetjumynd. Ég er ekki alveg viss um hvort það var rétta ákvörðunin, því í höndum Lee er myndin allt of löng, oft óáhugaverð, stundum hlægileg þegar hún á að vera alvarleg, og yfirfull af sálfræðibulli sem verður fáránlegt í lokaatriðinu. Persónulega hefði ég frekar viljað fá mynd í anda X-Men eða Batman, því lífskrafturinn í þessari myndur lekur stöðugt út og ég var langt frá því að vera sáttur í lokin. Það er samt öruggt að Eric Bana á góða daga framundan, því hann kemst vel frá sínu sem Bruce Banner. Jennifer Connelly skiptir varla um svip alla myndina og tekst engan veginn að gera Betty Ross að brjóstumkennanlegum karakter. Josh Lucas og Sam Elliott leika vondu kallana, og þeir verða aldrei neitt annað en stereótýpur. Nick Nolte leikur föður Banners, og ég læt vera að segja mikið um hann. Það eina sem gladdi mig var að sjá Hulk sjálfan vakna til lífsins. Hann var alltaf áhugaverður myndasögukarakter, og ég gat ekki annað en brosað þegar ég sá hann staulast um á hvíta tjaldinu. En að mestu leyti olli The Hulk mér miklum vonbrigðum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Charlie's Angels: Full Throttle
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég var mikill aðdáandi fyrstu myndarinnar, og beið þessarar með mikilli óþreyju enda var trailerinn á meðal þeirra bestu sem ég hef séð. Sem betur fer var ákveðið að halda áfram með sama tóninn, þ.e.a.s. fáránleg og ótrúleg áhættuatriði, kaldhæðinn og óvenjulegan húmor, frábæra tónlist, og óbeislaðað fjör. Þær Cameron Diaz, Drew Barrymore og Lucy Liu skemmtu sér augljóslega konunglega við gerð myndarinnar, og það skín mjög vel í gegn. Leikstjórinn McG á sér sinn eigin stíl, sem hann sækir greinilega úr reynslu sinni við gerð tónlistarmyndbanda, en þessi stíll passar mjög vel við mynd á borð við Charlie's Angels. Hugmyndin er svo bjánaleg í sjálfu sér að það er ekki annað hægt en að nota yfirdrifinn stíl til að koma henni til skila. Það er söguþráður þarna einhvers staðar inn á milli, en fer virkilega einhver að sjá þessa mynd til að fá heilsteypt handrit og fullskapaða karaktera? Myndin er einungis til þess að hægt sé að sýna stjörnurnar þrjár í mörgum efnislitlum búningum, og til viðbótar er boðið upp á frábæran húmor frá Bernie Mac og John Cleese, rómantískar aukasögur með Luke Wilson og Matt LeBlanc, glæsilegt illmenni í líkama Demi Moore, og endalaus áhættuatriði sem eru jafn fyndin og þau eru flott. Ég mæli sterklega með Charlie's Angels: Full Throttle, og legg jafnframt til að slökkt sé á heilanum áður en miðinn er keyptur. Þeir sem geta ekki haft gaman af þessari mynd á einhvern hátt eru einfaldlega fúlir á móti, og það er þeirra missir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
2 Fast 2 Furious
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Keppninni um lélegasta bíómyndatitil ársins er opinberlega lokið, og 2 Fast 2 Furious er ótvíræður sigurvegari. Það verður eiginlega að hrósa Universal fyrir að hafa ekki skipt um nafn fyrir langa löngu. Myndin sjálf er eins og titillinn: Asnaleg og tilgangslaus. 2 Fast 2 Furious er eins og lélegt ljósrit af fyrri myndinni, því það er ekki vottur af frumleika út í gegn. Meira að segja Vin Diesel hafði vit á því að sleppa henni þessari. Það þýðir að við fáum einungis Paul Walker úr fyrri myndinni, og þó drengurinn sé snoppufríður mjög verður seint hægt að kalla hann leikara. Hann er eins og búðargína sem hefur vaknað til lífsins; hann talar m.a.s. eins og hann sé illa gefinn. En jæja, hann er í hlutverki Brian O'Connor sem hefur nú flutt til Miami og er ekki lengur í löggunni. Svo koma vondir kallar og flottar píur, og eina lausnin á öllu saman virðist vera að keyra glæsilega bíla mjög hratt um götur sem eru merkilega lausar við alla umferð. Fyrri myndin var ágætis sumarskemmtun, og ég var alveg til í að gefa þessari séns. Því miður var ekki reynt að betrumbæta eða fá nýjar hugmyndir, og því er boðið upp á meira af því sama. Svoleiðis gengur ekki; framhaldsmyndir verða að bjóða upp á eitthvað nýtt. Það er sárast til þess að hugsa að það er John Singleton, sem leikstýrði Boyz N the Hood og er yngsti leikstjórinn til að hljóta Óskarsverðlaunatilnefningu, sem er við stjórnvölinn. Vesalings maðurinn. Það eru Tyrese, Eva Mendes, Cole Hauser og rapparinn Ludacris sem fylla upp í leikarahópinn og það er tvennt merkilegt við þetta fólk: Þau gátu lesið, munað og flutt handritið, og einungis eitt þeirra fer úr að ofan. Vonandi er hægt að afskrifa 3 Fast 3 Furious eða eitthvað þvíumlíkt, því ég held að aðstandendur kunni ekki telja upp að hærra en 2. En bílarnir eru flottir, tónlistin traust, og fyrirsætan Devon Aoki fyllir ágætlega í skarð Michelle Rodriguez.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Italian Job
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Italian Job fer ekki í felur með ástæðu tilvistar sinnar: Hún er sumarskemmtun og ekkert annað. Það er myndinni til hróss, og ekki skemmir fyrir að skemmtanagildið er mikið og maður gengur út úr salnum með bros á vör. Leikstjórinn F. Gary Gray (A Man Apart) byggir myndina á samnefndri mynd frá 1969 þar sem Michael Caine fór með aðahlutverkið, en hér er það Mark Wahlberg sem fer fremstur í flokki. Hann leikur krimma að nafni Charlie Croker, sem leiðir hóp hátækniþjófa í gullráni í Feneyjum. Það kemur í ljós að einn úr hópnum svíkur lit og myndin segir frá því þegar hinir sviknu reyna að hefna sín á fyrrum félaga sínum. The Italian Job er full af flottum spennuatriðum, til dæmis bátaeltingaleik á Ítalíu og bílaeltingaleik í Los Angeles. Maður getur ekki annað en haft gaman að öllum hasarnum, og í þokkabót er myndin full af góðum húmor. Wahlberg er ágætur, og Charlize Theron og Edward Norton (sem skuldaði Paramount mynd undir gömlum samningi og er greinilega ekkert að reyna of mikið á sig) eru skítsæmileg. Það eru aukaleikararnir sem gefa myndinni mestan lit, og þeir fá oft bestu línurnar og fyndnustu atriðin. Jason Statham (The Transporter) sannar það enn og aftur að enginn leikur svala breska krimma betur. Fyrrum rapparinn Mos Def leikur sprengjusérfræðing hópsins, og síðast en ekki síst fer Seth Green á kostum sem tölvunörd með góða ástæðu til að vera fúll á móti. Tónlistarvalið er fyrsta flokks, og hasarinn er engu slakari en í stærri og dýrari myndum. Ekta sumarskemmtun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Wrong Turn
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stundum verður maður að súpa seyðið af því að vera forfallinn aðdáandi hryllingsmynda. Það á svo sannarlega við hér, því Wrong Turn er einhver alversta kvikmynd sem ég hef á ævi minni séð. Sagan er algjörlega stolin úr The X-Files, nánar tiltekið þættinum Home sem sagði frá stökkbreyttri sveitafjölskyldu með talsverðar ofbeldistilhneigingar. Wrong Turn tekur þessa hugmynd og bætir svo við smá Deliverance og I Know What You Did Last Summer, og útkoman er skammarleg fyrir alla þá sem að myndinni koma. Það er ekki nóg með að myndin móðgi áhorfendur heldur ættu allir íbúar Vestur-Virginíufylkis að fara í mál vegna meiðyrða, þar sem myndin notar allar neikvæðar stereótýpur um það fólk á hinn versta hátt. Eina ástæðan fyrir því að Wrong Turn fær ekki eitt stórt núll er Eliza Dushku. Það er alltaf gaman að fylgjast með henni. Vonandi verður þessi kvikmynd annar nagli í líkkistu kvikmyndaferils hennar svo hún neyðist til að gefast upp og samþykkja að taka við þar sem blóðsugubaninn Buffy hætti og leika í þætti um blóðsugubanann Faith. Forðist þessa eins heitan eldinn!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Down with Love
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Down with Love er byggð á því sem Bandaríkjamann kalla gimmick. Það þýðir að maður verður að taka myndinni eins og er þó svo raunveruleikatengslin séu nánast engin. Gimmickið hérna er að myndin er gerð í nákvæmlega sama stíl og kynlífsgamanmyndir sjöunda áratugarins þar sem fólk eins og Doris Day og Rock Hudson léku aðalhlutverkin. Down with Love er m.a.s. byggð á sömu sögu og myndin Pillow Talk með þeim Hudson og Day. Það er ekki nóg að söguþráðurinn sé gamaldags, heldur er allt annað í sama stíl. Sviðsmyndir eru í sterkum litum, bakgrunnurinn er alltaf málaður, og búningar og tónlist eru sömuleiðis í gamaldags stíl. Renée Zellweger og Ewan McGregor leika aðalhlutverkin. Hún er í hlutverki Barböru Novak, ungrar konu sem hefur skrifað bók um að konur þurfi ekki ást og geti notið kynlífs án skilmála eins og karlmenn. Hann leikur kvennabósann Catcher Block, sem ákveður að heilla dömuna upp úr skónum til að afsanna bókina. Mér fannst hugmyndin að baki Down with Love mjög sérstæð, og margt við myndina er mjög smellið. Þegar á leið fannst mér aðstandendur hins vegar ganga of langt með stílfæringuna, og oft á tíðum varð ég svolítið pirraður á öllum þessum látum. Úrlausn ástarsögunnar er líka gjörsamlega út í hött. Samt má hafa gaman að allri þessari vitleysu. Sérlega fannst mér þau David Hyde Pierce og Sarah Paulson í hlutverki bestu vina söguhetjanna vera frábær, og það geislar óneitanlega af Zellweger og McGregor. Leikstjórinn Peyton Reed (Bring It On) festir sig jafnframt í sessi sem frumlegur og ferskur kvikmyndagerðarmaður. Fínasta skemmtun, bara aðeins of langt gengið.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Bruce Almighty
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég er kannski of strangur að gefa Bruce Almighty ekki hærri einkunn, en þegar Jim Carrey og Tom Shadyac sameina krafta sína finnst mér ekki óeðlilegt að búast við fyrsta flokks gamanmynd, líkt og Liar Liar var. Þessi mynd hefði getað orðið klassísk gamanmynd nær samstundis ef betur hefði tekist til. Það þýðir ekki að Bruce Almighty sé ekki fyndin, því það er hún sannarlega. Carrey leikur fréttamanninn Bruce Nolan, sem kennir Guði um allt sem fer úrskeiðis í lífi sínu. Sá almáttugi (Morgan Freeman) fær nóg af nöldrinu og veitir Bruce almættið og skorar á hann að gera betur. Það er hægt að hafa lúmskt gaman að því hvernig Bruce nýtir sér kraftana í upphafi, en það var pirrandi að komast að því að maður sá alla bestu brandarana í trailernum, sem er dauðadómur fyrir gamanmyndir að mínu mati. Fyndnasta atriðið skrifast ekki á Carrey heldur grínistann Steve Carrell, sem gerir það gott daglega í The Daily Show. Jennifer Aniston er í hlutverki kærustunnar, sem lofar aldrei góðu og henni er sóað þar. Sömuleiðis er Morgan Freeman sóað, og það er miður því hann er stórkostlegur leikari. Látalætin í Carrey ná aldrei sömu hæðum og maður man eftir í Liar Liar og Ace Ventura, og einhvern veginn fannst manni það vanta. Þar sem myndin snýst að miklu leyti um Guð verða aðstandendur að passa sig á að mógða ekki hina skinheilugu Ameríkana sem bíða eflaust ólmir eftir að geta gagnrýnt myndina, og í kjölfarið breytist síðasti hálftíminn í væmna helgislepju með 100% bandarískum siðferðisboðskap (ojbara). Bruce Almighty er fyndin mynd, og sér fyrir ágætis kvöldstund í bíó. Ég bjóst bara við meiru.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Finding Nemo
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er núorðið hægt að ganga út frá því sem sjálfsögum hlut að þegar maður borgar sig inn á teiknimynd frá Pixar og Disney þá er frábær skemmtun framundan. Eftir snilldarmyndirnar Toy Story 1 og 2 og Monsters Inc. er nú komin Finding Nemo, og hún stendur fyrirrennurum sínum síður en svo að baki. Sagan er hin hefðbundna föður-sonar barátta um sjálfstæði og ábyrgð, og sem leikin mynd væri hún sennilega óþolandi væmin og klisjukennd. Í teiknuðu formi er útkoman hins vegar óborganleg. Faðirinn Marlin ofverndar soninn Nemo, sem ákveður að sanna sig með dirfskulegri hegðun, en hann lendir því miður í fiskabúri ástralsks tannlæknis í kjölfarið. Marlin verður því að leggja á sig erfiða ferð til þess að endurheimta einkasoninn. Ferðalagið er grundvöllur myndarinnar, og Marlin hittir þar fyrir marga furðufiska (bókstaflega) eins og hina gleymnu Dory, þrjá hákarla í afvötnun, skjaldbökuhóp og versta og heimskasta óvininn - máva. Að venju tekst Pixar að höfða til allra aldurshópa. Börnin sjá fiskana og litina og skemmta sér vel. Hinir eldri kunna að meta frábærlega hnyttið handrit og alls kyns tilvísanir sem fá mann til að brosa út í annað. Það er Albert Brooks sem talar fyrir Marlin, og hann er fyndinn í sínu hlutverki. Sjálfum fannst mér Ellen DeGeneres í hlutverki Dory stela myndinni. Manneskjan er óborganleg út í gegn. Finding Nemo er enn ein fjöðurinn í hatt Pixar og maður er strax farinn að hlakka til næstu myndar þeirra, The Invincibles.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Identity
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi mynd var auglýst sem hrollvekja hins hugsandi manns. Ég ætla nú ekki að dæma um sannleika þeirrar staðhæfingar, en ég get hins vegar sagt að Identity er vel traustur þriller sem stendur undir nafni. Það er jafnvel enn merkilegra að ég gat ekki giskað á hver morðinginn var fyrr en u.þ.b. 20 mínútur voru eftir af myndinni, og þá þykir mér ráðgátan snjöll. Söguþráðurinn er fenginn að láni úr Agöthu Christie-sögunni Ten Little Indians. Hér gerist það að 10 manns sem þekkjast ekkert lenda öll á afskekktu móteli í Nevada um miðja nótt í drungalegum stormi. Af sjálfsögðu byrjar fólk að týna tölunni og leitin hefst að morðingjanum. Identity græðir mikið á góðum leikarahóp. John Cusack er þar fremstur í flokki og fær góða aðstoð frá Ray Liotta, Amöndu Peet, hinum frábæra John C. McGinley og fleirum. Handritið er líka traust og sér áhorfendum fyrir hryllingi og spennu yfir því hvað gerist næst. Leikstjórinn James Mangold (Copland) heldur vel utan um leikhópinn og sér til þess að flétturnar gangi ekki of langt. Identity er með betri þrillerum sem ég hef séð lengi vel, og lokaatriðið er með þeim óhuggulegri sem maður getur ímyndað sér.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Bulletproof Monk
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Í upphafi skal taka fram að Bulletproof Monk er bull og vitleysa frá upphafi til enda, en þar sem ég hef nákvæmlega ekkert á móti svoleiðis myndum endrum og sinnum kemur það ekki niður á heildarmyndinni. Chow-Yun Fat leikur hér tíbetskan munk sem fær það verkefni að gæta pappírsræmu nokkurar sem inniheldur einhvers konar uppskrift að heimsyfirráðum. Illskeyttir nasistar (í Tíbet?) reyna að komast yfir hana en munkurinn knái snýr á þá. Sextíu árum seinna er munkurinn í Ameríku í leit að næsta gæslumanni, og viti menn ef sá er ekki vasaþjófurinn Kar (Seann William Scott). Að sjálfsögðu mæta nasistarnir aftur á staðinn (árið 2003?) til að reyna að góma munkinn og þjófinn, og upp úr þessu hefst eltingaleikur þar sem félagarnir tveir berjast við illmennin með hjálp tæknibrella og ósýnilegra víra. Því verður ekki neitað að Bulletproof Monk sér manni fyrir mörgum fyndnum atriðum, og ég brosti út í annað mestalla myndina. Samleikur aðalleikaranna er góður, og þeir búa báðir yfir talsverðum sjarma sem er til góðs fyrir myndina. Scott kemur sérstaklega vel út, og svei mér ef honum á ekki eftir að takast að losna við Stifler-ímyndina einn góðan veðurdag. Leikstjórinn Paul Hunter, sem hingað til hefur haldið sig við tónlistarmyndbönd, hefur gert ágætis mynd sem ætti að skemmta áhorfendum. Tónlistin er hörmuleg, en að öðru leyti er hægt að mæla með Bulletproof Monk sem meinlausri kvöldskemmtun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Phone Booth
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hugmyndin á bak við Phone Booth er án efa á meðal þeirra frumlegri sem hafa komið frá Hollywood. Hún gerist á einum stað, við sjáum ekki einn aðalkarakterinn, og hetjan okkar er algjört skítseiði. Samt gengur myndin upp... svona nokkurn veginn. Joel Schumacher er síðasti leikstjórinn sem maður býst við að stjórni svona tilraunakvikmyndagerð, en hann hefur hemil á óþolandi stílfæringunum sínum (Batman & Robin einhver?) og Phone Booth er þar af leiðandi einfaldlega sett upp og laus við allt sem er yfirdrifið. Colin Farrell stendur sig mjög vel, þótt ótrúlegt sé. Honum tekst að sýna mann sem breytist úr hrokagikk í niðurbrotinn, sorglegan vesaling. Samt verð ég að hrósa Kiefer Sutherland mest; hann er ósýnilegur alla myndina en röddin ein er nóg til að maður gleymir honum ekki í bráð. Aðrir leikarar fylla út í myndina, og Forest Whitaker, Radha Mitchell og Katie Holmes (sem er óhuggulega mjóslegin) gera það sem er ætlast til af þeim. Ég var mjög spenntur að sjá hvernig þessi mynd hefði tekist, og ég er yfir höfuð frekar sáttur við útkomuna. Hún er áhugaverð og óvenjuleg, sem er alltaf góðs viti. Ég get bara ekki sætt mig við hvernig myndin endar. Það vantar einhvern veginn botninn í hana, og það pirraði mig verulega. Phone Booth væri hiklaust betri mynd ef traustari endir hefði verið bundinn á söguna.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Monsoon Wedding
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ótrúlega sjarmerandi kvikmynd eftir Miru Nair, best þekkta kvenkyns leikstjóra Indverja. Myndin segir frá fjölskyldu sem er í miðjum brúðkaupsundirbúningi, þar sem dóttirin er að fara að giftast manni sem hún hefur aldrei séð áður eins og jafnan gerist í Indlandi. Nair tekur þessar aðstæður, sem virðast frekar órómantískar, og tekst að sýna það að ástin getur blómstrað hvar sem er og hvenær sem er. Þrátt fyrir að fjalla um þennan gamla sið á frekar jákvæðan hátt notar Nair tækifærið og gagnrýnir margt í indverskri menningu, þ.á m. lítið jafnrétti á milli kynjanna, stéttaskiptingu, og kynferðislegt ofbeldi. Hún sýnir jafnframt fram á það að Indverjar eru ótrúlega vestrænir og hafa oft á tíðum sömu gildi og við hin. Leikhópurinn skilar frábærum leik og tónlistin er sér kapítuli út af fyrir sig. Monsoon Wedding er lítil perla sem flestir láta eflaust fram hjá sér fara, en hún er sannarlega þess virði að sjá. Allir út á leigu!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dreamcatcher
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Dreamcatcher leit vel út frá byrjun. Byggð á einni af betri sögum Stephen King, sem er í miklu uppáhaldi hjá mér, full af áhugaverðum leikurum sem maður býst ekki við í svona mynd, handrit eftir gamla snillinginn William Goldman, og leikstjórinn enginn annar en Lawrence Kasdan, sem tekst alltaf að skapa fullmyndaða karaktera og trausta heildarmynd. Ég átta mig ekki alveg á hvað fór úrskeiðis, en myndin er alls ekki það sem ég bjóst við. Hún er mjög undarleg, svo ekki sé meira sagt. King er farinn að stela aðeins frá sjálfum sér, því sagan minnir talsvert mikið á bæði Stand By Me og It: Fjórir æskuvinir eiga sameiginlegt leyndarmál sem kemur aftur upp á yfirborðið u.þ.b. 30 árum síðar. Inn í þetta blandast geimverur, blóðrauður myglusveppur, og geðbilaður herforingi, sem Morgan Freeman ofleikur í tætlur. Af einhverjum ástæðum virðist sagan ekki vera jafn fjarstæðukennd í bókinni og hún er á tjaldinu; eins og er gat ég ekki annað en hlegið að öllu saman annað slagið, og ég var ekki einn um það. Leikhópurinn stendur sig vel. Þeir Thomas Jane, Damian Lewis, Timothy Olyphant og Jason Lee leika vinina fjóra og að venju stendur Lee upp úr. Tom Sizemore er í aukahlutverki og er ekki jafn geðveikislegur og venjulega, og fyrrverandi meðlimur New Kids on the Block, Donnie Wahlberg, leikur vangefinn félaga þeirra sem leynir verulega á sér. Kvikmyndatakan og tónlistin skapa óhuggulegt og viðeigandi andrúmsloft, en allt kemur fyrir ekki. Í heildina séð er Dreamcatcher frekar brösótt samsuða af hryllingsmynd, nostalgíudrama, og spennuþriller. Aðstandendur hefðu átt að velja eitt þema og halda sig við það. Eins og er fer Dreamcatcher í hóp meðalgóðra Stephen King-mynda, langt frá gæðamyndum eins og The Shawshank Redemption og Stand By Me.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Confessions of a Dangerous Mind
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Chuck Barris er sér kapítuli í sögu bandarískrar sjónvarpsmenningar. Hann er í raun faðir raunveruleikasjónvarps þar sem hann er ábyrgur fyrir þáttum á borð við The Dating Game og The Gong Show, sem nutu gífurlegra vinsælda á 8. áratugnum. Barris sjálfur var sérkennilegur karakter, og árið 1982 gaf hann út ævisögu sem gaf í skyn að hann hafi í raun verið leigumorðingi fyrir CIA og notað sjónvarpsstarfið sem yfirskin. Enginn trúir þessari sögu, en George Clooney hefur ákveðið að taka hana trúanlega og hann leikstýrir myndinni með þessa lygi sem aðalsöguþráðinn. Útkoman er gráglettin gamanmynd sem er á meðal óvenjulegri mynda síðari ára. Sam Rockwell á stjörnuleik í aðalhlutverkinu og gerir Barris að djúpum karakter sem er bæði aðdáunarverður og brjóstumkennanlegur. Clooney, sem leikstýrir hér í fyrsta sinn, er sjálfur í hlutverki CIA-mannsins sem ræður Barris til starfans. Drew Barrymore leikur kærustu Barris, og Julia Roberts skemmtir sér stórvel í hlutverki banvæns njósnakvendis sem sekkur klónum í Barris í Helsinki, af öllum stöðum. Clooney hefur greinilega lært eitthvað af samtarfinu við Steven Soderbergh, því það eru nokkrir taktar sem minna verulega á hann. Stíllinn er ansi sérkennilegur; t.d. er notkun sviðsmynda og kvikmyndatöku oft mjög fyndin. Heilt ár líður í einu skoti þar sem Barris er fyrst gestur í túr hjá NBC-stöðinni en 2 mínútum síðar í sama skoti er hann farinn að vinna þar. Clooney hefur sérstæðan húmor sem endurspeglast vel í þessari mynd. Tónlist og lýsing er vel heppnuð, og Rutger gamli Hauer stelur tveimur atriðum algjörlega. Confessions of a Dangerous Mind er síður en svo mynd fyrir alla, en því verður ekki neitað að hún er stórfyndin og vel þess virði að sjá.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Final Destination 2
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég viðurkenni fúslega að ég er veikur fyrir B-hrollvekjum og borga mig allt of oft inn í bíó til að sjá svoleiðis myndir. Final Destination kom mér á óvart fyrir tveimur árum og ég var þ.a.l. alveg til í að sjá framhaldið. Söguþráðurinn er að miklu leyti til sá sami. Ári eftir atburði fyrri myndarinnar gerist það að ung kona sér fyrir hræðilegt slys á hraðbraut og kemur í veg fyrir að hópur fólks bíði bana. Hún tengir þetta við það sem gerðist ári áður, og veit að samkvæmt því munu allir sem hún bjargaði deyja innan skamms. Hún leitar uppi einu manneskjuna sem lifði hina myndina af og með hennar hjálp reyna þau að snúa á dauðann. Final Destination 2 er þeim kosti gædd að hún er mjög vel úthugsuð. Við vitum að það eiga allir eftir að deyja, en hvernig dauðaatriðin eru sett upp er aðstandendum til hróss. Það hefði verið auðvelt að velja augljósustu leiðina, en það hefur greinilega verið sett talsvert vinna í að finna smá frumleika, og það gengur vel upp. Því miður gerir myndin þau mistök að vera of ógeðsleg. Fyrri myndin þurfti ekki blóð og viðbjóð til að vera áhrifarík, en hérna er allt á kafi í rauðum slettum og ógeðfelldum hljóðbrellum. Þetta dregur frá góðri grunnhugmynd. Leikararnir eru allir af C-og D-listanum og gera það sem ætlast er til af þeim. FD2 er sæmilegasta skemmtun fyrir ákveðinn markhóp, en aðrir ættu að forðast hana eins og heitan eldinn. Vonandi stendur þessi fyrir nafni og verður final.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Shanghai Knights
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jackie Chan og Owen Wilson náðu vel saman í Shanghai Noon, og það var ekkert því til fyrirstöðu að gera framhald, sem nú er komið á markaðinn. Og viti menn, þessi er betri en fyrri myndin, sem gerist mjög sjaldan. Þeir Chong Wang (Chan) og Roy O'Bannon (Wilson) halda nú til Lundúna rétt fyrir lok 19. aldar til þess að hefna fyrir morðið á föður Wangs. Að sjálfsögðu berja þeir mann og annan á götum stórborgarinnar, og Chan fær virkilega að sýna hæfileika sína í þessum atriðum. Hann hefur lítið fengið að hanna eigin bardagaatriði síðan hann fór að gera myndir í Hollywood, en nú fékk hann frjálsan taum og það sést. Hann er sérlega góður í slagsmálunum hér, og það nær hápunkti í atriði sem er gert í takt við gamla slagarann Singin' in the Rain. Þar sem Lucy Liu vildi greinilega ekki snúa aftur (greinilega upptekin að leika í Ballistic... ojbara) þarf nýja kvenhetju, og því birtist systir Wongs (Fann Wong) á staðnum. Hún er eins og tvíburi Zhang Zhiyi, gullfalleg og stórhættuleg í slag. Söguþráðurinn er voða götóttur og endar með því að þessi þrjú þurfa að bjarga bæði bresku konungsfjölskyldunni og kínverska keisaraveldinu, sem þau og gera með stæl. Það sem skiptir mestu er að myndin er bráðfyndin og skemmtileg á besta hátt. Ekki skemmir fyrir að Donnie Yen og Jackie Chan eiga frábært slagsmálaatriði saman. Shanghai Knights er eðalskemmtun og mun kitla hláturtaugar flestra sem sjá hana. Númer þrjú er víst væntanleg, og persónulega finnst mér það vera góðar fréttir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Daredevil
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég er greinilega ennþá það mikið barn í mér að ég hlakka alltaf ofboðslega til að sjá myndir byggðar á teiknimyndablöðunum sem ég las þegar ég var lítill. X-Men og Spiderman voru alltaf í mestu uppáhaldi en Daredevil var líka ofarlega á blaði þrátt fyrir að vera minna þekktur karakter. Ég fékk vægt áfall þegar Ben Affleck var valinn í aðahlutverkið (ég þoli manninn ekki) og fékk áhyggjur af myndinni. Úr rættist þegar Jennifer Garner, Colin Farrell og Michael Clarke Duncan voru sett í hlutverk Elektru, Bullseye og Kingpin, og handritshöfundurinn og leikstjórinn Mark Steven Johnson er yfirlýstur aðdáandi myndasögunnar. Því miður kemur allt fyrir ekki, og Daredevil er engan veginn nógu góð kvikmynd. Sagan er svona la-la, og á margan hátt óvenjuleg fyrir svona kvikmynd. Blindi lögfræðingurinn Matt Murdock er mun dekkri hetja en jafnvel Batman, og á köflum verður maður næstum því þunglyndur. Affleck er alls ekki rétti maðurinn í þetta hlutverk; honum er fyrirmunað að leika annan en sjálfan sig. Ég held að Colin Farrell hefði passað mun betur. Hann er a.m.k. frábær sem Bullseye, illkvittinn írskur leigumorðingi sem drepur með hverju sem hann kemst yfir. Garner er í miklu uppáhaldi hjá mér, enda leikur hún í hinum frábæra sjónvarpsþætti Alias. Því miður er hlutverk Elektru illa uppsett og hún fær lítið að gera annað en slást. Duncan er flottur sem Kingpin en fær sömuleiðis lítið að gera. Tæknibrellurnar eru oft gervilegar og tónlistarvalið er slappt. Verst er hljóðrásin sjálf, sem er næstum því óþolandi. Ég veit ekki hvað þessi bergmálseffekt á að þýða en hann fór rosalega í taugarnar á mér. Daredevil er meðalgóð skemmtun, betri fyrir aðdáendur myndasögunnar en aðra, en þrátt fyrir það eru of margir vankantar á henni. Því miður.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Chicago
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Chicago er það sem maður kallar almennileg kvikmynd. Gamaldags stjörnufans með frábærri tónlist, seiðandi sviðsmyndum, draumkenndum atriðum og fyrsta flokks leik. Maður hefur eiginlega ekki séð svona síðan í... Moulin Rouge. Já, sú mynd hefur aldeilis opnað flóðgáttirnar hvað varðar kvikmyndaða söngleiki. Chicago er einn best þekkti söngleikur síðari ára og hefur gengið á Broadway áratugum saman, enda var Bob Fosse snillingur á sínu sviði. Frá fyrstu senu myndarinnar, þar sem Velma Kelly (Catherine Zeta-Jones) syngur All That Jazz á meðan Roxie Hart (Renée Zellweger) horfir á með stjörnurnar í augunum, er maður gjörsamlega forfallinn sem áhorfandi. Sagan er líka glettilega meinfýsin: Tvær söngkonur eru báðar handteknar fyrir morð og sendar í fangelsi en keppast svo um hylli almennings fyrir tilstilli hins útsmogna Billy Flynn (Richard Gere), besta lögfræðings Chicago-borgar. Það er óneitanlega gaman að horfa á svona vel gerðar bíómyndir, þar sem öll smáatriði eru úthugsuð. Leikstjórinn Rob Marshall á lof skilið fyrir frammistöðu sína, og leikaravalið er sömuleiðis fyrsta flokks. Zeta-Jones kemur mikið á óvart hér; manneskjan getur aldeilis sungið og dansað. Gere er líka flottur, þó söngurinn sé kannski ekki fullkominn. Einna helst er það Zellweger sem passar verst, en hún gerir sitt besta samt sem áður. Ég hafði nú eiginlega mest gaman að þeim Queen Latifah og John C. Reilly, sem bæði fá eitt frábært söngatriði og standa sig frábærlega. Minni hlutverk eru líka vel skipuð, þ.á m. Christine Baranski, Lucy Liu og Taye Diggs. Chicago er gamaldags bíómynd á margan hátt. Mikið er lagt upp úr útliti og yfirbragði, þó innihaldið sé síður en svo vanrækt. Myndin er vel komin að Golden Globe-tilnefningunum sem hún hlaut, og Óskarstilnefningar hljóta eiginlega að fylgja í kjölfarið. Yfirmenn Miramax hafa sagt að ef Chicago gengur vel muni þeir óhikað framleiða fleiri söngleikjamyndir. Næst á dagskrá hjá þeim: Rent. Ég hvet fólk til að sjá Chicago, það ætti engum að leiðast yfir henni þessari.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Two Weeks Notice
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þegar maður leyfir kvenkyns vini sínum að ráða kvikmynd kvöldsins á það ekki að koma á óvart þó formúlukennd rómantísk gamanmynd verði fyrir valinu. Two Weeks Notice er svosem ekkert það slæm en ég hefði helst kosið að sjá eitthvað annað. Sandra Bullock og Hugh Grant eru draumapar þessara mynda, og það hlaut að koma að því að bæði yrðu sett í sömu myndina til að tryggja góða aðsókn. Bullock leikur umhverfissinnaðan lögfræðing sem lendir óvart í vinnu hjá forríkum viðskiptajöfur sem er yfirleitt sama um smámál eins og umhverfið og svoleiðis. Þau hatast, þau elskast, þau verða óvinir, hún hættir, önnur kona blandast í spilið, bæði átta sig á því sanna, ástin blómstrar, allir lifa hamingjusamir til æviloka. En ekki hvað, þetta er rómantísk gamanmynd frá Hollywood! Það er ekki eins og það eigi að koma manni á óvart hérna. Bullock og Grant ná reyndar mjög vel saman og eru temmilega fyndin í hlutverkum sínum. Það er aðallega í þeirra senum sem manni stekkur bros. Að öðru leyti er þetta formúla út í gegn, enda ekki við öðru að búast frá Marc Lawrence (Miss Congeniality, Forces of Nature), sem bæði leikstýrir og skrifar handrit. Fínasta stefnumótamynd en Two Weeks Notice býður ekki upp á neitt sem maður hefur ekki séð mjög oft áður.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Frida
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Kvikmynd um ævi mexíkönsku listakonunnar Frida Kahlo hefur verið á leiðinni í rúm 10 ár, og leikkonur á borð við Madonnu, Jennifer Lopez, og Lili Taylor hafa allar verið orðaðar við hlutverkið. Öllum að óvörum var það Salma Hayek sem loksins tókst að klára dæmið, og það er hið besta mál. Hún sýnir hæfileika í titilhlutverkinu, og það er í fyrsta sinn sem hún gerir það að því mig minnir. Frida var undarleg á margan hátt. Eftir skelfilegt slys á yngri árum var hún hálf fötluð það sem eftir var ævinnar og lifði á verkjalyfjum. Hún var einlægur kommúnisti, tvíkynhneigð, skapmikil, og ein fyrsta konan sem öðlaðist frægð fyrir list sína. Hayek leikur hana listavel og sannar að hún getur meira en maður bjóst við. Hún giftist listamanninum Diego Rivera (Alfred Molina), sem var ófær um að vera henni trúr, en þau enduðu alltaf saman þrátt fyrir öll rifrildi og skilnaði. Molina er stórkostlegur í sínu hlutverki, og Óskarsverðlaunatilnefning fyrir hann kæmi mér ekki á óvart. Aðrir leikarar - þ.á m. Ashley Judd, Antonio Banderas, Geoffrey Rush og Edward Norton - fylla vel upp í myndina, en leikstjórinn Julie Taymor á sérstakt hrós skilið. Hún er einstök í bransanum að mörgu leyti. Hún leikstýrði myndinni Titus fyrir nokkrum árum og listrænt sjónarmið hennar er óborganlegt. Sterkir litir, draumkennd atriði, og óvenjulegar aðferðir hennar lífga upp á myndina og passa mjög vel við mexíkanskt þema hennar. Frida er áhugaverð kvikmynd um vægast sagt áhugaverða manneskju, og það er óneitanlega gaman að sjá svona óvenjulega kvikmynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Solaris
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er ekki oft sem ég get ekki fundið eitthvað jákvætt við kvikmynd, en þegar ég sá Solaris tókst mér það ekki sama hvað ég reyndi. Mig langaði til að geta sagt eitthvað gott um þessa mynd, því Steven Soderbergh hefur gert margar mjög góðar myndir, George Clooney hefur hingað til haft mjög gott nef fyrir áhugaverðum hlutverkum, og ég er mjög hliðhollur kvikmyndum sem skora á bíógesti að hugsa aðeins í stað þess að troða ofan í þá formúlum og öðru bulli. Því miður er Solaris einhver alleiðinlegasta kvikmynd sem ég hef á ævi minni séð. Hún er ekki nema u.þ.b. 90 mínútur en mér fannst eins og ég væri búinn að sitja í bíó tímunum saman, og aldrei gerðist neitt. Það gerist nákvæmlega ekkert í þessari mynd! Djúpþenkjandi heimspekingar geta eflaust spjallað um þessa mynd tímunum saman yfir rauðvínsglasi, en ég get ekki fyrir nokkra muni mælt með þessari skelfingu. Bókin Solaris eftir Stanislaw Lem var þó áhugaverð, og mér skilst að rússneska fyrirmyndin eftir Andrei Tarkovsky hafi verið hin ágætasta mynd. Soderbergh og Clooney misstíga sig illilega hér. Það er engin afsökun fyrir svona peningaeyðslu. Forðist þessa eins og heitan eldinn.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
I Spy
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi mynd er eitthvert almesta klúður ársins 2002 og Eddie Murphy ætti að fara að passa sig. Að leika í þessu bulli og Pluto Nash á einu ári jafnast á við sjálfsmorð í Hollywood. I Spy er byggð á 40 ára gömlum sjónvarpsþætti þar sem þeir Robert Culp og Bill Cosby léku svala njósnara og brandarinn var að annar var svartur og hinn hvítur. Myndin notast við grunnhugmyndina - tveir njósnarar, einn hvítur, einn svartur. Þar með lýkur samanburðinum og maður verður að spyrja sig hver tilgangurinn hafi verið með að nota I Spy-titilinn. Gætu ekki Lethal Weapon og 48 Hrs. heitið það líka? Murphy og Owen Wilson rembast eins og rjúpan við staurinn við að gera þessa mynd fyndna en þeim mistekst. Það er ekki þeim að kenna, heldur skelli ég skuldinni á handritshöfundana, sem eru hjónin Cormac og Marianne Wibberley. Þau eru án efa á meðal verstu rithöfunda nútímans. Á ferilskránni eru þessi kvikmyndanefna og The Sixth Day, Schwarzenegger-mynd frá 2000 sem er best að gleyma sem fyrst. (Því miður vinna þau líka við Charlie's Angels 2 og Bad Boys 2.) Leikstjórinn Betty Thomas skilar yfirleitt ágætu dagsverki (Dr. Dolittle, Private Parts) en jafnvel henni tekst ekki að bæta fyrir hörmulegt handrit. Famke Janssen skýtur upp kollinum í hlutverki sem gömul rolla hefði getað leikið, og Malcolm McDowell leikur stereótýpískt illmenni í 389. skiptið. Myndin fær stjörnu fyrir tvö fyndin atriði (holræsið og 'Sexual Healing') og gullfallegt austur-evrópskt umhverfi. Allt annað ætti að fara beint í endurvinnsluna. Sleppið þessari.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Harry Potter and the Chamber of Secrets
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég þarf að vera ósammála Erlingi varðandi þessa mynd. Ég held að flestir vilji sjá mjög nákvæma útgáfu af bókinni þegar þeir fara í bíó að sjá Harry Potter-mynd, og ef Chris Columbus og félagar færu að breyta sögunni yrðu flestir áhorfendur mjög reiðir. Harry Potter-bækurnar eru á meðal vinsælustu bóka allra tíma og það er í raun ekki hægt að breyta þeim fyrir hvíta tjaldið. Að því sögðu var ég mjög ánægður með myndina. Öll umgjörðin er gjörsamlega gallalaus og ég er á þeirri skoðun að fáar kvikmyndir noti tæknibrellur eins vel. Maður tekur eiginlega aldrei eftir þeim, og það er ótrúlegt í mynd sem er með brellur í nær hverju skoti. Það er líka algjört bíókonfekt að sjá alla þessa stórkostlegu leikara á tjaldinu og það verður að hrósa aðstandendum fyrir að velja svona vel í hvert einasta hlutverk. Hér ber sérstaklega að nefna Kenneth Branagh sem Gilderoy Lockhart og Jason Isaacs sem Lucius Malfoy. Þeir passa fullkomlega fyrir persónurnar eins og J.K. Rowling skrifaði þær. Að sjálfsögðu er jafnframt gaman að horfa á snillinga á borð við Richard Harris, Maggie Smith og Alan Rickman slappa af og skemmta sér aðeins. Daniel Radcliffe er mun betri hér en í fyrri myndinni, en hann er samt veiki hlekkurinn hvað leikarana varðar. Að mínu mati er það enn Rupert Grint í hlutverki Ron sem er bestur; drengurinn er fæddur gamanleikari. Tónlist John Williams er hnökralaus, hún er eins og töfraduft sem smellpassar við myndina. Það eru nú samt veikir hlekkir. Álfurinn Dobby var alveg hreint óþolandi (lærði enginn af Jar Jar Binks?) og það hlýtur að vera hægt að nota Draco Malfoy til einhvers annars en að spýta út úr sér orðinu 'Potter' aftur og aftur. Nú verður maður að bíða til sumarsins 2004 til að sjá þriðja kaflann um Harry og félaga, og ég hlakka til að sjá hvernig aðstandendur takast á við dekkri hliðar sögunnar. Það verður líka áhugavert að sjá hvernig nýjum leikstjóra, Alfonso Cuarón, tekst að feta í fótspor Columbus, og hver verður fenginn til að taka við hlutverki Dumbledore eftir andlát Richard Harris? Þrátt fyrir örfáa galla er Harry Potter and the Chamber of Secrets eins og snemmbúin jólagjöf fyrir aðdáendur. Njótið vel.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ghost Ship
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hrekkjavökuhrollvekjan frá Warner Bros. er á góðri leið með að verða árleg hefð hér vestanhafs. Fyrst kom House on Haunted Hill, svo kom 13 Ghosts, og nú er það Ghost Ship. Að venju er um að ræða endurgerð gamallar B-myndar úr safni Williams Castle, og þeir Joel Silver og Robert Zemeckis framleiða í gegnum Dark Castle fyrirtækið. Þetta er ágætis hefð, enda hef ég alltaf verið gefinn fyrir lélegar hryllingsmyndir. Samt sem áður varð ég fyrir smá vonbrigðum í þetta skipti. Ghost Ship byrjar vel með kaldhæðnislegu atriði sem ruglar áhorfendur; ég hélt að ég hefði villst inn á hallærislega ástarvellu. En svo byrjar blóðið að renna, og það ansi frjálslega. Því miður slappast allt saman þegar sagan byrjar fyrir alvöru. Leikstjórinn Steve Beck (13 Ghosts) fékk fína leikara á borð við Gabriel Byrne og Julianna Margulies (ER) til að leika meðlimi björgunarhóps sem rekst á eldgamalt skemmtiferðaskip sem hefur ekki sést í 40 ár. Að sjálfsögðu er það fullt af draugum og illum öndum sem vilja engum vel, og hópurinn minnkar smám saman á miður smekklega vegu. Brellurnar eru flottar, en allt annað er temmilega klisjukennt. Myndin stelur frá Cube, Resident Evil, og öllum myndum sem hafa gerst á yfirgefnu skipi eða kafbát. Sum atriðin eru flott, en oft hristir maður hausinn yfir hversu fyrirsjáanlegt þetta er allt saman. Það er aldrei spurning um hver vondi kallinn er, og jafnvel endirinn er algjörlega formúlukenndur. Það er synd og skömm því það er ekki mikið um svona hrollvekjur í bíó. Vonandi verður næsta Dark Castle-mynd skárri.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Jackass: The Movie
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hvernig í ósköpunum á maður að fara að því að gagnrýna Jackass? Það er ekki eins og þetta sé kvikmynd í hefbundinni meiningu þess orðs. Eins og í sjónvarpsþættinum er um að ræða samanklippt atriði þar sem bjálfarnir í Jackass-hópnum ferðast um og slasa sig á sem flesta vegu okkur til skemmtunar. Ef þú borgar þig inn á þessa mynd þá veistu við hverju á að búast, þó myndin sé talsvert grófari (meiri nekt, gubb, piss, kúkur, og blóð) en þættirnir. Aðdáendur þessara félaga eiga eftir að skemmta sér konunglega. Ef þú ferð á þessa mynd með fyrifram neikvætt álit á þessu öllu saman gerir myndin ekkert til að breyta því viðhorfi. Persónulega neyðist ég til að viðurkenna að ég hló svo til allan tímann, og það gerist ekki oft. Ég grenjaði bókstaflega af hlátri. Það segir sennilega meira um mig en myndina, en hvernig er ekki hægt að hlæja að þessum fíflum, hvort sem þeir eru að hræða fólk með krókódíl inni í stofu eða hanga úr trjágrein í nærbrókum? Jackass er vísbending um að heimsendir sé í nánd, það er ekki spurning. Er ekki allt í lagi að hlæja aðeins þangað til?
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Ring
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jamm og jæja. Ég er enn ekki alveg með það á hreinu hvað mér finnst um þessa mynd. The Ring er endurgerð samnefndar japanskrar myndar sem á víst að hafa slegið öll met í heimalandinu. Það er yfirleitt svo að endurgerðir komast sjaldan með tærnar þar sem fyrirmyndin hafði hælana, en ég get ekki dæmt um það í þessu tilviki. Þessi útgáfa er vel stílfærð, óneitanlega mjög óhugguleg, og temmilega frumleg miðað við flestar aðrar hryllingsmyndir. Samt fannst mér eitthvað vanta. Naomi Watts er í aðalhlutverkinu og leikur blaðamanninn Rachel sem rannsakar dauða frænku sinnar. Sagan segir að frænkan hafi horft á myndband sem veldur dauða áhorfandans nákvæmlega einni viku síðar. Dauðinn er ekkert sérlega smekklegur heldur. Rachel horfir á myndbandið, og það er nógu ógeðfellt í sjálfu sér til að hræða fólk upp úr skónum. Leikstjórinn Gore Verbinski (Mouse Hunt, The Mexican) er kannski ekki beint maðurinn sem maður býst við að stjórni svona mynd, en hann gerir bara ansi vel. Ég neita því ekki að ég fékk oft gæsahúð og það eru nokkur alvöru bregðuatriði. Krakkinn sem leikur son Rachel er ótrúlega creepy, og tónlistin er vel notuð til að leggja áherslu á skelfinguna. Samt sem áður er ég ekki fullsáttur við útkomuna. Endirinn er einhvern veginn á skjön við allt, og úrlausnin fannst mér frekar ódýr. Góð mynd, en hefði getað verið betri.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Abandon
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Aldrei skyldi maður dæma bók eftir kápunni. Þetta lærði ég enn og aftur eftir að hafa séð Abandon. Ég var eiginlega búinn að afskrifa hana fyrirfram sem enn einn unglingatryllinn með fallegum en hæfileikalitlum sjónvarpsleikurum. Og jújú, Abandon hefur þrjá slíka innanborðs: Katie Holmes (Dawson's Creek), Benjamin Bratt (Law & Order), og Charlie Hunnam (Undeclared). En ég var búinn að gleyma því að handritshöfundur og leikstjóri myndarinnar er Stephen Gaghan, sem fékk Óskarsverðlaun í fyrra fyrir handrit myndarinnar Traffic. Af þeim ástæðum er mun meira kjöt á beinunum hér en annars gæti verið. Katie Burke (Holmes) er fyrirmyndarnemandi á barmi útskriftar með öllu því sem því fylgir (ritgerðaskrif, vinnuleit, o.s.frv.) og er frekar stressuð yfir öllu saman. Það bætir ekki úr skák þegar fyrrverandi kærastinn hennar (Hunnam) skýtur upp kollinum tveimur árum eftir að hann hvarf sporlaust. Lögreglumaður á batavegi eftir drykkjusýki (Bratt) rannsakar málið, og málin flækjast hratt. Gaghan skapar óþægilega en spennandi stemmningu með góðum klippingum, snjallri tónlistarnotkun, og kvikmyndatöku sem notast nær eingöngu við blágráa filmu. Það er óneitanlega óhuggulegur andi sem svífur yfir vötnunum, og manni bregður oft. Ekki er verra að fléttan í lokin er áhugaverð; ég var reyndar búinn að átta mig á öllu saman um miðja mynd, en ég var samt ánægður með lausnina. Holmes er ágæt og sannar að hún þarf ekki endilega að lifa í skugga Dawson's Creek að eilífu. Bratt er lágstemmdur og nær góðum tökum á sínu hlutverki, en Hunnam fær lítið að gera. Persóna hans er leiðinleg og oft pirrandi, og hann nær ekki alveg að kveða niður breska hreiminn sinn. Gaghan fyllir myndina líka af aukaleikurum sem maður grunar um græsku frá byrjun; þeirra best eru Zooey Deschanel, Melanie Lynskey, og Tony Goldwyn. Abandon er sæmilegasta skemmtun, en það væri kannski ekki vitlaust að bíða eftir henni á myndbandi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Sweet Home Alabama
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Reese Witherspoon stefnir ótrauð á að verða næsta Julia Roberts, og Sweet Home Alabama er stórt stökk í þá áttina. Þetta er meinlaus rómantísk gamanmynd sem er hægt að hlæja talsvert mikið að, og er það ekki það eina sem maður getur krafist þegar um svona mynd er að ræða? Reese leikur tískuhönnuð sem er að meika það í New York og er u.þ.b. að fara að giftast syni borgarstjórans. Eitt vandamál: Hún er enn gift æskuástinni úr heimabænum í Alabama (Josh Lucas). Auðvitað verður hún að fara sjálf til að ganga frá skilnaðinum (hefði hún notað lögmenn eins og flestir hefði myndin ekki verið sérlega spennandi) og sveitalubbarnir í Suðurríkjunum reynast vera besta fólk. Myndin er full af frekar leiðigjörnum stereótýpum - borgarbúarnir eru illa innrættir og spilltir, sveitalubbarnir eru saklausir en indælir, og hommar vinna bara í tískuiðnaðinum. Maður sættir sig við svona bull og talsvert marga handritshnökra í viðbót af einni ástæðu: Reese Witherspoon. Ég skora á fólk að nöldra yfir myndinni eftir að þessi litla ljóshærða dama er búin að brosa einu sinni á stóra tjaldinu. Hún heillar mann upp úr skónum, og þess vegna er Sweet Home Alabama jafn ánægjuleg og raun ber vitni. Lucas kemur á óvart í sínu fyrsta stóra hlutverki, og gamlir kunningjar á borð við Candace Bergen, Patrick Dempsey, og Fred Ward standa fyrir sínu. Fullkomin stefnumótamynd fyrir alla, og fjandi fyndin í þokkabót.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ballistic: Ecks vs. Sever
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Af einhverjum ástæðum var ég óvenju spenntur fyrir þessari mynd. Það er sennilega tengt því að ég myndi borga mig inn á hverja þá mynd sem hefur Lucy Liu í aðalhlutverki. Og hérna er hún m.a.s. í geðveikum bardagaatriðum, svo eftirvæntingin var ennþá meiri hjá mér. En Jesús minn góður, þvílík skelfing! Þessi mynd er algjör vonbrigði á allan hátt. Lucy Liu er flott að venju, og það er hrein unun að sjá hana berja mann og annan eins og ekkert sé. En allt annað við myndina er viðvaningslegt og klisjukennt. Það er kannski ekki við meiru að búast þegar tælenskur (!) amatör er við stjórnvölinn. Hugmyndin bakvið myndina er sæmileg og almennilegur leikstjóri hefði eflaust getað reddað málunum. En þessi hortittur, sem kallar sig Kaos, eyðileggur allt sem hægt er að eyðileggja. Ömurleg notkun á slow-motion skotum, klisjukennd lýsing (allir eru baklýstir með bláum lit og gervireyk), og tónlistin er kannski það alömurlegasta af öllu saman. Það er eins og tónlist sem var samin fyrir aðra mynd hafi verið færð yfir á þessa þar sem enginn tímdi að borga fyrir upprunalega tónlist. Hörmung!!! Antonio Banderas lítur skelfilega út, og vondi kallinn (Gregg Henry) á heima í sjónvarpsmynd. Það eru Lucy Liu, Ray Park (sem maður sér í fyrsta sinn án skrímslaförðunar), og fullt af stórum og háværum sprengingum sem ýta Ballistic: Ecks vs. Sever upp í eins og hálfa stjörnu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
My Big Fat Greek Wedding
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Á 21. sýningarviku þessarar myndar lét ég loks undan gífurlegum þrýstingi til að fara í bíó að berja Öskubusku sumarsins augum. Kanarnir halda ekki vatni yfir þessari litlu, ódýru mynd sem hefur heillað alla upp úr skónum og grætt fáránlegar peningaupphæðir frá því hún var frumsýnd í apríl. Ég verð að viðurkenna að My Big Fat Greek Wedding er algjört sjarmatröll sem tryggir breitt bros á andlitum bíógesta allan tímann. Myndin er mikið til byggð á lífi aðalleikkonunnar Niu Vardalos, sem er grísk-amerísk kona á fertugsaldri og var í mesta basli með að finna hinn eina rétta. Fjölskyldan er litskrúðug svo ekki sé meira sagt, og þegar hún verður ástfangin af manni sem er ekki af grískum ættum verður allt vitlaust hjá pabba gamla og öll fjölskyldan fer á annan endann. Vardalos hefur greinilega góðan húmor fyrir sjálfri sér og sérstaklega undarlegum hefðum mismunandi fjölskuldumeðlima. John Corbett, sem er sennilega best þekktur úr nýlegu hlutverki í Sex and the City, leikur verðandi eiginmanninn sem veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið þegar Grikkirnir mæta á svæðið. Atriðin með foreldrum hans eru líka óborganlega fyndin. My Big Fat Greek Wedding er fyrsta flokks rómantísk gamanmynd, sérstaklega þar sem hún leggur meiri áherslu á gamanið en rómantíkina.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Good Girl
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Miguel Arteta og Mike White gerðu Chuck & Buck. Jennifer Aniston er búin að leika í Friends í 9 ár. Aldrei hefði mér dottið í hug að þessar þrjár manneskjur myndu gera mynd saman, en viti menn, það gerðu þau og myndin er hreint út sagt brilljant. Aniston vinnur hér óneitanlegan leiksigur í hlutverki Justine, þrítugrar konu í ónefndum smábæ í Texas. Hún er gift hasshaus í lélegu starfi og þolir ekki líf sitt. Það tekur vægast sagt óvænta stefnu þegar 22 ára stráklingur byrjar að vinna í sömu búð og hún. Það væri illa gert að segja meira um söguþráðinn, en myndin er sorgleg, fyndin, dramatísk, og raunsönn í senn. Það er ótrúlegt að fylgjast með Aniston. Maður gleymir gjörsamlega að hún hefur verið Rachel Green í tæpan áratug, enda er þetta í fyrsta sinn sem hún velur hlutverk sem er í það minnsta áhættusamt (Picture Perfect og aðrar myndir hennar gerðu lítið annað en að festa Friends-ímyndina í huga manns). Jake Gyllenhaal er frábær að venju í hlutverki Holdens, drengsins sem dýrkar bókina The Catcher in the Rye og fellur gjörsamlega fyrir Justine. Þessi drengur verður betri með hverri mynd. October Sky og Donnie Darko eiga honum mikið að þakka og ég hlakka til að sjá hann í Moonlight Mile, sem er væntanleg. Ég ætla að gerast djarfur og spá því að hann fái Óskarsverðlaun einhvern tíma á ferlinum, svo góður er hann. Myndin er full af vel skrifuðum aukapersónum, sem John C. Reilly, Tim Blake Nelson, Zooey Deschanel, Mike White og Deborah Rush leika mjög vel. The Good Girl er lítil og hæglát mynd sem kemst að öllum líkindum ekki í bíó á Íslandi, en ég hvet alla til að reyna að komast yfir hana á myndbandi þegar þar að kemur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Blood Work
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Blood Work er runnin undan rifjum þriggja hæfileikraríkra manna: Michael Connolly skrifaði bókina, Brian Helgeland skrifaði handritið, og Clint Eastwood leikstýrir og leikur aðalhlutverkið. Eftir að hafa séð myndina spyr maður sig óneitanlega hvað hafi gerst, þar sem myndin er síður en svo eftirminnileg á nokkurn hátt. Eastwood leikur FBI-manninn Terry McCaleb sem hnígur niður með hjartaáfall í eltingaleik við morðingja sem hefur persónulegan áhuga á McCaleb. Tveimur árum síðar er McCaleb búinn að fá nýtt hjarta og morðin hefjast á ný. Voða ráðgáta fyrir alla nema bíógesti, sem eru orðnir vanir svona myndum og fatta hver morðinginn er á fyrstu 15-20 mínútunum. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þessa mynd. Hún er fyrirsjánleg og klisjukennd, og Eastwood, sem er kominn vel yfir sjötugt að ég held, treður ennþá ástaratriðum við mun yngri konur í nær allar myndir sem hann kemur nálægt núorðið. Miður smekklegt, finnst mér. Eastwood er mikill djassáhugamaður og hefur yfirleitt valið góða slíka tónlist fyrir myndir sínar, en að þessu sinni gengur það ekki. Tónlistin hljómar eins og hún hafi komið úr austur-evrópskri klámmynd frá 1983, og fólkið í bíó hló að henni yfir upphafskreditlistanum. Það er gott að sjá að Blood Work sér þremur kynþokkafullum leikkonum yfir fertugu fyrir vinnu: Anjelica Huston, Wanda De Jesus, og Tina Lifford eru allar mjög hæfar og eflaust fegnar að fá vinnu þegar tvítugar ljóskur hirða mesta vinnuna í Hollywood nútímans. Blood Work er ágætis vídeómynd, en ekki mikið meira. Hún fer í debet-dálkinn hjá Eastwood, það er ekki spurning.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
xXx
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

XXX er kvikmyndagerð af lægstu sort, en skemmtanagildið er svo mikið og óumdeilanlegt að ég get ekki fengið mig til að skella öðru en 3 stjörnum á myndina. Vin Diesel hefur verið á uppleið síðustu ár en aldrei verið neitt sérstaklega merkilegur pappír í mínum huga. Mér finnst hans besta verk ennþá vera talsetningin í The Iron Giant, sem er ein besta teiknimynd síðustu ára. Æðri máttarverur Hollywood hafa tekið þá ákvörðun að Diesel (gat maðurinn ekki valið sér aðeins gáfulegra nafn?) skuli verða næsta ofurhetjan, þar sem Stallone, Schwarzenegger og félagar eru að nálgast eftirlaunaaldurinn. Diesel er svosem ekkert verri en fyrirverarnir, og það viðurkennist að hugmyndin á bak við XXX er frekar fersk: James Bond nútímans, maður sem kýs snjóbretti og mótorkross frekar en Aston Martin og martíníkokkteila. Sagan hér er sögð í trailernum: Xander Cage, eða XXX, er dreginn inn í njósnaheiminn til þess að lumbra á nafnlausum austur-evrópskum illmennum. Samuel L. Jackson skýtur upp hausnum nokkrum sinnum og hefur greinilega gaman að, og Asia Argento (dóttir ítalska meistarans Dario Argento) leikur kvenmanninn sem - formúlunni samkvæmt - þarf alltaf að vera til staðar í svona myndum. Myndin fær hrós fyrir góðan húmor, ótrúleg áhættuatriði, góða notkun á umhverfinu (Prag), og síðast en ekki síst upphafsatriðið. Hver sú mynd sem byrjar á tónleikum með Rammstein getur ekki verið alslæm. XXX 2 er væntanleg, og af hverju ekki? Ef Bond getur birst í 20 myndum getur Xander Cage mjólkað a.m.k. 2-3 myndir til viðbótar úr stundarfrægðinni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Spy Kids 2: Island of Lost Dreams
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er hressandi að sjá myndir sem eru gerðar af sköpunargleði, lífsorku, og óbeisluðu ímyndunarafli. Miramax er náttúrulega bara að hugsa um gróðann sem á eftir að skila sér í kassann, en leikstjórinn Robert Rodriguez hefur skapað sér sinn eigin stíl með því að útfæra í myndum sínum hugmyndir og minningar sem hann eignaðist með því að horfa á Hollywood-myndir þegar hann var yngri. El Mariachi og Desperado, From Dusk Till Dawn, The Faculty (ein af mínum uppáhaldsmyndum), og Spy Kids eru allar sprottnar úr hugarheimi Rodriguez og það er óhætt að segja að þær skipi sér allar sess í ákveðnum flokki mynda sem eiga rætur sínar að rekja til gullaldar bíómyndanna. Spy Kids sló óvænt og allhressilega í gegn í fyrra og framhaldið heldur áfram þar sem frá var horfið með njósnurunum í Cortez-fjölskyldunni, þeim Carmen, Juni, Gregorio, og Ingrid. Í þetta skiptið bætast við amma og afi, litlir njósnaraandstæðingar, klikkaður prófessor (Steve Buscemi, einn af félögum Rodriguez), og nýr illa innrættur óvinur (Mike Judge, maðurinn á bak við Beavis & Butt-head, King of the Hill og Office Space), auk þess sem Cheech Marin og Alan Cumming úr fyrri myndinni skjóta upp kollinum. Rodriguez er ekki að skemmta sjálfum sér minna en áhorfendum með þessu myndum, og hann notar viljandi hálfkjánalegar tæknibrellur sem minna á klassískar brellur Ray Harryhausen (sem sjást í gömlum snilldarmyndum eins og Krull, Jason and the Argonauts, og Clash of the Titans). Spy Kids 2 er hreinræktuð skemmtun frá skemmtilegum leikstjóra sem er væntanlegur með tvær nýjar myndir (Spy Kids 3 og Once Upon a Time in Mexico) sem ég mun ekki hika við að sjá.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Signs
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

M. Night Shyamalan er án nokkurs efa besti kvikmyndagerðarmaður nýju kynslóðarinnar, og það er fullkomlega eðlilegt að kalla hann hinn nýja Spielberg. Signs er fyrir Shyamalan eins og Close Encounters var fyrir Spielberg; báðar myndir virðast á yfirborðinu vera myndir um yfirnáttúrulega atburði en undir niðri er í raun og veru eitthvað allt annað á ferðinni. Ég er mikill aðdáandi Shyamalans og hlakkaði mikið til að fá að sjá þessa mynd. Trailerinn er án efa einhver sá besti sem gerður hefur verið, og myndin sjálf svíkur ekki. Shyamalan er algjör fullkomunarsinni sem veit fyrirfram hvernig allt á að líta út, og þessi aðferð tryggir góða skemmtun. Mel Gibson er fínn í aðalhlutverkinu (þó Bruce Willis hefði sennilega passað betur), og Joaquin Phoenix er mjög góður í hlutverki bróður hans. Shyamalan sannar enn og aftur að enginn er betri í að leikstýra börnum, því Rory Culkin og Abigail Breslin eru hreint út sagt frábær í tveimur veigamestu hlutverkunum. Það væri ósanngjarnt að fara mikið út í söguþráðinn. Allir vita að myndin snýst um svokallað akrahringi (crop circles) sem reynast vera gerðir af geimverum. Þetta er í raun bara byrjunin á öllu saman, og líkt og Unbreakable og The Sixth Sense er stór spurning á bak við allt saman. Trúarbragðafræðingar geta eflaust haft gaman að því að ræða um tök myndarinnar á hinu svokallaða 'predestinatio' og það eru þessar mjög svo djúpu og áleitnu spurningar sem lyfta Signs upp í hæstu hæðir kvikmyndanna. Ég verð furðu lostinn ef þessi mynd hlýtur ekki einhverjar Óskarsverðlaunatilnefningar á næsta ári (handrit, tónlist, kvikmyndataka, o.s.frv.). Þó svo síðustu 15 mínúturnar gangi kannski aðeins of langt er Signs fyrsta flokks kvikmyndagerð frá leikstjóra sem á eftir að gera góðar bíómyndir áratugum saman.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Mr. Deeds
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Adam Sandler er hetja meðalmannsins í Ameríku. Undanfarið hefur hann líka verið konungur miðlungsmyndanna. Myndirnar sem hann hefur gert eftir The Wedding Singer (Big Daddy, The Waterboy) hafa gengið vel en ekki verið frumlegar á neinn hátt, og ein var svo slöpp (Little Nicky) að hann hvarf úr bíó í nær tvö ár. Mr. Deeds sver sig í ætt við forvera sína með því að ríghalda í meðalmennskuna og reyna ekki einu sinni að hífa sig upp fyrir þann þröskuld. Söguþráðurinn er sá sami og í Billy Madison, Happy Gilmore og The Waterboy: Góðhjartaði sakleysinginn lendir í óvæntum aðstæðum en sigrast að lokum á vondu köllunum og fer heim með gellunni. Hér er hann Longfellow Deeds, pítsusendill í New Hampshire sem erfir 40 milljarða og verður að fást við illgjarna aðstoðarmenn og gulu pressuna, auk þess sem hann verður ástfanginn af svikulum blaðamanni (Winona Ryder). Þetta er allt svona la-la. Mr. Deeds er svo föst í miðjumoðinu að ég hef hvorki neikvæða né jákvæða skoðun á henni. Hún bara er. Það er svosem ekkert slæmt í sjálfu sér, en Sandler ætti kannski að skoða hvort það er ekkert annað og betra fyrir hann að gera. Myndin fær plús fyrir John Turturro, sem er mjög fyndinn í sínu hlutverki (I am very very sneaky, sir), en hún fær jafnframt risastóran mínus fyrir að sverta mannorð hinnar stórkostlegu myndar Mr. Deeds Goes To Town eftir Frank Capra. Það er ófyrirgefanlegt.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Road to Perdition
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég skammast mín eiginlega fyrir að gefa Road to Perdition ekki meira en tvær og hálfa stjörnu. Þetta er mynd sem er framleidd til að fá góða dóma og endalausar Óskarsverðlaunatilnefningar. Það er ekkert undanskilið; leikhópurinn, leikstjórinn, kvikmyndatakan, tónlistin, sviðshönnun, viðfangsefnið... allt gargar þetta: Við eigum að fá Óskar! Málið er að það er ekki nóg að fylla myndir af einhverju sem er svona gott á yfirborðinu - það verður að vera innihald sem er jafngott og útlitið. Road to Perdition er byggð á teiknaðri skáldsögu (graphic novel) og er leikstýrt af Sam Mendes (American Beauty). Leikshópurinn er óneitanlega fyrsta flokks: Tom Hanks, Paul Newman, Jude Law, Jennifer Jason Leigh, Stanley Tucci. Kvikmyndatakan er gullfalleg, tónlistin áhrifamikil, og umgjörðin öll óaðfinnanleg. Mendes og félögum mistekst hins vegar að byggja upp innvið sem höfðar til áhorfenda og snertir þá. Þessi mynd er gífurlega sorgleg; það má jafnvel segja að það sé ekki ein mínúta af ómengaðri gleði. Samt sem áður var mér nokk sama um afdrif þessa fólks. Jafnvel sakleysinginn litli var ekki nógu vel skapaður í handritinu til að maður finni til með honum. Hanks passar engan veginn í hlutverk leigumorðingjans Michael Sullivan. Mendes segist hafa viljað hrista upp í fólki með valinu á Hanks, en það gengur ekki upp. Ég beið alltaf eftir að hann settist niður á bekk og byrjaði að maula konfekt. Paul Newman fær lítið sem ekkert að gera (hann er á tjaldinu í kannski 15 mínútur), Jennifer Jason Leigh fær enn minni tíma, og Jude Law nær engu sambandi við áhorfendur. Hann er eins og hugmynd sem er aldrei fyllilega frágengin. Mendes fær hrós frá mér fyrir mörg skot sem vísa beinlínis í teiknuðu söguna, og þau eru óneitanlega flott. En Road to Perdition er því miður ekki það sem maður vonaðist eftir. Hún fær eflaust slatta af verðlaunum þegar yfir lýkur, en það verður af skyldurækni frekar en gæðum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Austin Powers in Goldmember
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég er hiklaust á meðal stærri aðdáenda Austin Powers-myndanna og finnst þess vegna fullkomlega eðlilegt að búast við frábærri skemmtun þegar ný mynd birtist á hvíta tjaldinu. Austin Powers in Goldmember er þriðja ævintýri sígraða njósnarans, og fyrstu 10 mínúturnar eru eitthvað það alfyndnasta sem ég hef séð í bíó. Því miður tekst myndinni ekki að halda dampi og hún er á endanum slappasta Austin Powers-myndin. Mike Myers er náttúrulega snillingur. Það er engin spurning að Austin og sérstaklega Dr. Evil eru á meðal frumlegustu og fyndnustu karaktera kvikmyndasögunnar. Ég er ekki jafn hrifinn af Fat Bastard, og nýjasta persónan, Goldmember, er hreint út sagt ónýt uppfinning. Of miklum tíma er eytt í þennan hollenska viðbjóð, og það þýðir minni tíma fyrir Dr. Evil, Scott Evil, Nr. 2, og Frau Farbissina. Og hvað varð um Felicity Shagwell og Mustafa? Michael Caine er sóað í hlutverki Nigel Powers, pabba Austins, og Beyoncé Knowles er ekki mikil leikkona þó Foxxy Cleopatra sé ágætis karakter. Það er Mini-Me (Verne Troyer) sem slær eiginlega í gegn hér - hann fær mikið að gera og er bara þokkalega fyndinn einn sér. Ef þetta væri fyrsta Austin Powers-myndin væri ekki hægt að kvarta, en þar sem maður hefur tvær aðrar til samanburðar kemur þessi ekki vel út. Þetta er sennilega síðasta myndin um Austin og félaga (manni finnst eins og Myers sé að ganga frá lausum endum undir restina) og það er sennilega góð hugmynd. Ég vil heldur muna eftir þessu myndum sem frábærri snilld en 7-8 myndum sem héldu áfram löngu eftir síðasta söludag.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Eight Legged Freaks
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Á fyrstu árum kalda stríðsins var Hollywood með æði fyrir skrímslamyndum sem settu venjulegt fólk í óvenjulegar aðstæður og enduðu með sigri litla mannsins gegn stórum, hættulegum andstæðingi. Þessar myndir hétu nöfnum á borð við Them! og The Incredible Flying Mantis, og voru allar líkingar í baráttu vestrænna lýðræðisþjóða gegn kommúnistum Sovétríkjanna, og í samræmi við tíðarandann voru skrímslin yfirleitt skordýr sem höfðu komist í snertingu við kjarnorkuúrgang. Svona myndir hafa ekki verið gerðar í rúm 35 ár, en núna kemur fram á sjónarsviðið Eight Legged Freaks, sem gerir góðlátlegt grín að þessari kvikmyndahefð en skipar sér samt óhikað í flokk slíkra mynda. Ég man eki eftir neinni mynd sem hefur sameinað hrylling og grín svona vel síðan Tremors árið 1990. David Arquette leikur aðalhetjuna, ungan mann sem snýr aftur til heimabæjarins til að ganga frá lausum endum. Það líður ekki á löngu þar til risastórar köngulær byrja að éta bæjarbúa hvern á fætur öðrum, og þeir sem eftir standa taka saman höndum til að sigrast á skrímslunum. Eight Legged Freaks er miklu meiri gamanmynd en hryllingsmynd. Hún er full af óborganlega fyndnum atriðum (takið eftir tjaldinu og gamla manninum) og fer varlega með skrímslalætin. Myndin er gerð til að vera tveggja tíma heilalaus skemmtun og henni tekst ætlunarverkið fullkomlega. Hún tekur sjálfa sig ekki alvarlega á neinn hátt, og þess vegna gengur hún upp. Arquette er eins og hann er alltaf, en það er Rick Overton í hlutverki ógæfusams lögreglumanns sem stelur hverju atriði. Ódýr og skemmtilega hallærisleg mynd sem slær á réttu strengina við hvert tækifæri.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Reign of Fire
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Reign of Fire lofaði góðu frá því ég heyrði fyrst um hana og þar til ég settist niður til að sjá hana. Eftir það fór allt til fjandans. Það er ekki oft sem Hollywood býr til rándýrar drekamyndir; yfirleitt eru þær þá fjölskylduvænar ævintýramyndir eins og Dragonheart. Reign of Fire var öðruvísi. Loksins voru drekarnir vond skrímsli sem brenna allt sem á vegi þeirra verður og hafa lítinn áhuga á að spjalla við mannfólkið með rödd Sean Connery. Hugmyndin hljómaði vel, og ég var vægast sagt spenntur. Því miður varð ég fyrir gífurlegum vonbrigðum. Fyrir utan tæknibrellurnar (og eru þær ekki alltaf flottar þessa dagana?) er nákvæmlega ekkert gott við þessa mynd. Hún er fyrirsjáanleg, hallærisleg, illa leikin, illa skrifuð, og uppfull af fáránlegu, uppblásnu karlmennskuþvaðri sem gerir lítið annað en að pirra áhorfendur. Matthew McConaughey er svo illilega út úr kú hér að hann á skilið atvinnuleysi næstu árin. Christian Bale, sem ég hef hingað til litið á sem frekar hæfileikaríkan leikara, er engu skárri, og er eini Bretinn sem hefur hljómað eins og hann sé með óraunverulegan breskan hreim. Leikstjórinn Rob Bowman (The X-Files) ræður ekki við verkefnið og ætti að halda sig við sjónvarpið hér eftir. Það er sorglegt að hugsa um hversu betri myndin hefði verið með reyndara fólk á bak við myndavélina. Reign of Fire er hiklaust ein stærstu vonbrigði sumarsins, og það er miður og verr.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Men in Black II
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Men in Black II er MJÖG nálægt því að fá 3 stjörnur, en hún nær því ekki alveg. Það eru komin fimm ár síðan þeir Jay (Will Smith) og Kay (Tommy Lee Jones) stigu fyrst á hvíta tjaldið í baráttu sinni gegn geimverukvikindum af öllum tegundum. Fimm ár eru talsvert langur tími til að bíða eftir framhaldsmynd núorðið, og svona töf verður til þess að maður vonast eftir einhverju verulega bitastæðu. MIB II er fínasta sumarskemmtun með fyrsta flokks tæknibrellum, fínasta húmor, og vægast sagt óvæntum gestahlutverkum (sem sanna að sumt fólk á best heima nálægt geimverum og öðrum skrímslum). Það er samt eitthvað sem vantar upp á. Það er eins og aðstandendur hafi ekki reynt að gera sitt besta, bara rumpað af því fyrsta sem bauðst án þess að reyna að lappa mikið upp á framleiðsluna. Leikstjórinn Barry Sonnenfeld hefur svartari húmor en nokkur annar í Hollywood og það þjónar myndinni vel, en hann býður ekki upp á söguþráð sem er mikið öðruvísi en sá í fyrstu myndinni. Smith og Jones eru allt í lagi, greinilega ekkert of spenntir fyrir að endurtaka leikinn. Það er beinahrúgan Lara Flynn Boyle sem kemur einna mest á óvart sem ofurskrímslið Serleena; hún er eina manneskjan sem reynir að vera hið minnsta safarík og fersk. Johnny Knoxville er líka til staðar, meira til að nýta frægðina en nokkuð annað. Gamlir félagar úr fyrri myndinni hressa upp á allt saman, sérstaklega hundrakkinn Frank, sem stelur auðveldlega öllum sínum senum. Ég hefði eiginlega frekar kosið hann en Jones til að klára dæmið. MIB II er skammlaus færibandaskemmtun sem gerir allt sem framleiðendur hennar krefjast, og það var greinilega látið nægja að þessu sinni. Tónlist Danny Elfman skaðar heldur aldrei. En ég verð að kvarta yfir einu. Á undan myndinni var sýnd 7 mínútna auglýsingamynd frá símafyrirtæki sem greinilega borgaði stórfé fyrir, því auglýsingin var sýnd sem hluti af myndinni. Er gróðafíknin alveg að fara með fólk? Ég hef aldrei séð annað eins, og vonast til þess að svona lagað komi aldrei fyrir aftur. Og hananú.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
L.I.E.
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stundum er nauðsynlegt fyrir geðheilsuna að skrúfa fyrir Hollywood og hlamma sér á sófann með haug af góðum indie-myndum sem maður komst aldrei til að sjá í bíó. Ég sá L.I.E. í einu svona kasti og sé ekki eftir því. Titillinn er skammstöfun á Long Island Expressway, sem er einhver leiðinlegasta og litlausasta hraðbraut Bandaríkjanna. Fyrir utan það að vera í nágrenni aðalpersónanna er titillinn tilvísun í leiðindin sem fylgja því að búa í úthverfum, sem eru andlegar auðnir nútímans. Þessi leiðindi leiða ungt fólk oft út í smáglæpi og önnur minni prakkarastrik, og það er einmitt það sem táningarnir hér gera. Þessi afglöp verða til þess að þeir kynnast eldri manni (Brian Cox, frábær að venju), sem reynist vera geðgóður og viðkunnanlegur barnaperri með smekk fyrir ungum drengjum. Þetta er síður en svo hversdagsleg saga, en leikstjórinn Michael Cuesta fer með viðfangsefnið á eins smekklegan máta og maður getur ímyndað sér. Það eru hins vegar leikararnir sem eiga mest hrós skilið. Eðalleikarinn Cox er aðdáunarverður í sínu hlutverki, og þeir Paul Franklin Dano og Billy Kay eru sérlega góðir í hlutverki vandræðaunglinganna. L.I.E. er alls ekki hvers manns smekkur, en þeir sem leggja í hana á annað borð ættu að vera sáttir þegar yfir lýkur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Bourne Identity
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sumarið 2002 verður hér eftir þekkt fyrir að hafa breytt þeim félögum Matt Damon og Ben Affleck í hasarmyndahetjur. Það hefði eflaust verið hægt að finna verri menn í þau hlutverk, en þessar hetjur hugsandi mannsins eru betri afþreying þessa dagana en vöðvabúnt á borð við Schwarzenegger og Stallone. Damon er hér í hlutverki Jason Bourne, sem er þekktasta afurð rithöfundarins Robert Ludlum. Bourne birtist minnislaus undan Frakklandsströndum og ratar óvart (eða hvað?) inn í atburðarás sem smám saman verður til þess að hann man sífellt meira úr fortíðinni. Hann leggur á flótta undan CIA og evrópskum leigumorðingjum með aðstoð ungrar konu (Franka Potente úr Run Lola Run) yfir hálfa Evrópu. Leikstjórinn Doug Liman (Swingers, Go) er ekki beint maðurinn sem manni dettur í hug til að leikstýra svona mynd, en frumlegheitin ganga upp. Liman gerir sitt besta til að forðast formúlur og það verður til þess að The Bourne Identity er mun skárri en flestar sambærilegar myndir undanfarinna ára. Það er líka orðið langt síðan maður fékk að sjá alvöru bílaeltingaleiki og þriller með kunnuglegri evrópskri stemmningu. Liman fær líka plús fyrir að velja fólk sem maður er óvanur að sjá í svona umhverfi. Fyrir utan Damon og Potente eru Chris Cooper, Julia Stiles, og Clive Owen í stórum hlutverkum. Myndin er óneitanlega afbragðs afþreying og gott gengi hennar tryggir það að framhaldið, The Bourne Supremacy, lítur dagsins ljós áður en langt um líður. Jason Bourne er skemmtilegur karakter og Damon leikur hann vel. Hollywood gæti gert margt verra en að hleypa honum aftur á hvíta tjaldið.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Minority Report
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með för Spielbergs inn í skuggaheimana, langt frá sólríkum, fjölskylduvænum ævintýramyndum níunda áratugarins. A.I. var aðdáunarverð tilraun til að gera yfirburða sci-fi mynd, en líkt og mörgum öðrum fannst mér ýmislegt vanta upp á. Minority Report er að mörgu leyti allt sem A.I. reyndi að vera en mistókst. Efniviðurinn er smásaga eftir einn þekktasta sci-fi höfund aldarinnar, Phillip K. Dick (Blade Runner), og það hefur litlu verið til sparað til að koma myndinni á tjaldið. Spielberg gerir mjög vel og forðast að drekkja myndinni í ópersónulegum tæknibrellum sem fæla mann frá. Stíll myndarinnar er ólíkur nokkru öðru sem hann hefur gert; hlýjir litir, mjúk kvikmyndataka og þægileg tónlist eru horfin á brott. Í staðinn er óvægin myndataka Janusz Kaminski og blágráir litir sem draga fram allar hrukkur og bletti í andlitum leikaranna. Tom Cruise hefur sennilega aldrei litið verr út, og sömuleiðis sjaldan verið betri. Colin Farrell, sem margir halda fram að sé næsta stórstjarna Hollywood, fær ekki mikið að gera hér en það er ekkert slæmt um hann að segja. Gamli karlinn Max von Sydow ber höfuð og herðar yfir flesta samleikara sína, og annar Svíi, Peter Stormare, lífgar upp á myndina sem frekar geðveill læknir. Það er hins vegar Samantha Morton sem sjándinn Agatha sem sýnir besta leikinn hér. Spielberg vísar mikið í film noir-myndir 4. áratugarins og þrátt fyrir að myndin gerist árið 2054 er margt sem minnir á fortíðina. Sjáendurnir heita m.a.s. Agatha, Dashiell, og Arthur í höfuðið á þekktum ráðgátuhöfundum. Það er jafnframt áhugavert að hugsa um söguþráðinn, þar sem gert er ráð fyrir að hægt sé að fangelsa fólk án dóms og laga og spurningar um dómkerfið og lagakróka eru mjög áleitar. Minority Report er sumarmynd í dulargervi, þar sem hún fær áhorfendur til að hugsa málið auk þess sem hún skemmtir. Fagmannlega gerð, framúrstefnuleg mynd sem engum ætti að leiðast.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Deep End
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Loksins kemur spennuþriller sem er spennandi og forðast formúlur eins og heitan eldinn. The Deep End er sérlega vel gerð mynd á allan hátt, allt frá kvikmyndatöku og tónlist til yfirburðagóðs leiks í helstu hlutverkum. Myndin segir frá Margaret Hall (Tilda Swinton), móður sem grunar son sinn um morð á elskhuga sínum og blandar sér umsvifalaust í málið með það í huga að vernda barnið sitt en án þess að hugsa ástandið út í gegn. Myndin er spennandi á lágu nótunum en samt sem áður auðveldlega ein af meira taugatrekkjandi myndum síðasta árs. Drifkrafturinn er ódrepanleg móðurást, og þar af leiðandi er myndin mun tilfinningaríkari en spennumyndir verða yfirleitt. Það er áhugavert að sjá Swinton í svona hlutverki þar sem hún er yfirleitt í litlum, stórundarlegum listrænum myndum sem enginn sér. Goran Visnjic (Dr. Luka í ER) kemur mjög á óvart í hlutverki sem er ólíkt lækninum góða, en það er sennilega hinn ungi Jonathan Tucker í hlutverki sonarins sem sýnir hvað óvæntustu taktana. The Deep End fékk örstutta sýningu á síðustu kvikmyndahátíð og fáir sáu hana þar. Það er skömm, því hún er með því betra sem hægt er að borga til að sjá þessa dagana. Þrátt fyrir sífelldar tilvísanir í vatn sem verða yfirborðskenndar eftir því sem á líður fær The Deep End óhikað góð meðmæli.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Waking Life
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hér er hún loksins, þessi margumtalaða mynd leikstjórans Richards Linklater (Slacker, Dazed & Confused). Margir höfðu það á orði að þessi mynd hefði átt að hljóta tilnefningu til Óskarsverðlauna sem besta teiknimyndin, og ég tek undir að hún á þann heiður frekar skilinn en annars flokks barnamynd á borð við Jimmy Neutron. Á hinn bóginn skil ég vel að myndin hafi verið sniðgengin þar sem hún er síður en svo mynd fyrir alla. Þetta eru 100 mínútur af heimspekilegri draumferð ungs manns sem er kannski dáinn (og kannski ekki) og hvernig hann spjallar við hverja manneskjuna á fætur annarri um stærstu spurningar tilverunnar og önnur mjög svo djúp málefni. Mér leið stundum eins og ég sæti á skólabekk og einhver ofurvitur prófessor væri að reyna að troða ofan í mig vitneskju. Waking Life er hægfara og erfið yfirferðar. En gildi hennar liggur í aðdáunarverðri og nýstárlegri framleiðslu. Linklater tók alla myndina upp á stafræna myndavél til að byrja með og fékk hóp listamanna til að teikna yfir myndina sjálfa, svo úr verða raunverulegar hreyfingar og umhverfi. Linklater á heiður skilinn fyrir að þora að vera öðruvísi. Áhugaverð mynd, vel þess virði að skoða, en hennar verður sjaldan minnst sem yfirburðar snilldar.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Scooby-Doo
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það játast fyrirfram að ég er mikill Scooby Doo-aðdáandi og stenst ekki að horfa á gömlu teiknimyndirnar ef ég rekst á þær á fjarstýringaflakki. Það er eitthvað svo yndislega nostalgískt og saklaust við þær, þrátt fyrir spurningar um kynlífssamband Freds og Daphne, kynhneigð Velmu, og af hverju þeir Shaggy og Scooby eru sísvangir og hálfsteiktir. Litlu krakkarnir sjá ekkert undarlegt við vinina fjóra og talandi hundinn sem leysa hvert málið á fætur öðru með sömu niðurstöðunni, en við sem eldri erum glottum út í annað yfir blómabarnaskilaboðunum sem Scooby sendir. Það hlaut að koma að því að þetta gengi endaði á stóra tjaldinu, og nú er loksins komið að því. Plottið er jafn þunnt og venjulega, en skiptir það máli í svona mynd? Myndin er óneitanlega fyndin, og Scooby er mun betur gerður en trailerinn gaf til kynna, og er þar af leiðandi mun viðkunnanlegri. Matthew Lillard er fullkominn sem hinn síringlaði Shaggy, og Linda Cardellini tekur Velmu með trompi. Sem Buffy-dýrkandi get ég ekkert ljótt sagt um Söruh Michelle Gellar, en að venju læt ég ekkert jákvætt eftir mér hafa um Freddie Prinze Jr. Hver heldur að maðurinn geti leikið? Hann er heldur ekkert svipaður Fred eins og hann var í teiknimyndunum. Myndin er yfir höfuð frekar vel heppnuð, bráðfyndin, og hæfilega lúmsk í tilvitnunum í kynlíf og eiturlyfjanotkun eins og maður vonaði, en því miður tók WB þá ákvörðun að gera myndina meira fyrir litlu börnin en eldri aðdáendur. Þar af leiðandi fengu margar umdeildar senur að fjúka (vonandi að þær endi á DVD-útgáfunni), og myndin þjáist fyrir það að mínu mati. Að lokum: Fyrir þá sem deila hatri mínu á fyrirbrigðinu Scrappy Doo, þá get ég tilkynnt að hann fær makleg málagjöld hér í óborganlegu atriði.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Undercover Brother
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Undercover Brother kemur hressilega á óvart og skýtur öðrum myndum ref fyrir rass sem fyndnasta mynd sumarsins hingað til. Eddie Griffin leikur hinn ofursvala bróður, sem er fastur í 8. áratugnum og gengur frá þorpurum og illmennum á sinn eigin hátt. Hann er dreginn inn í samtökin B.R.O.T.H.E.R.H.O.O.D. sem vinna gegn oki hvíta mannsins gagnvart svertingjum. Verkefnið snýst um að bjarga svörtum hershöfðingja (sem minnir vægast sagt verulega á Colin Powell) frá því að breytast í svarta stereótýpu eftir ill áhrif. Myndin er augljóslega algjört kjaftæði, og er bráðfyndin svo að segja út í gegn. Griffin er í toppformi í titilhlutverkinu, og ekki eru aukapersónurnar (t.d. Sistah Girl, Smart Brother og Conspiracy Brother) ófyndnari. Dave Chappelle og (ótrúlegt en satt) Denise Richards koma sterk inn í minni hlutverkum, og Chris Kattan (Saturday Night Live) er frábær sem illmennið Mr. Feather, sem getur ekki losnað undan áhrifum svertingjamenningarinnar. Undercover Brother er eins konar svartur Austin Powers, og er hreinræktuð skemmtun. Ómengað grín, bull og vitleysa, og meira að segja smá ádeila undir öllu saman. Vel gert.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Bad Company
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Bad Company er eins og skinkusneið. Hún er framleidd eftir nákvæmum reglum sem segja til um innihald, form, og útlit og hún er þar af leiðandi alveg eins og varan sam var framleidd á undan henni og sú sem kemur næst á eftir. Hér er formúlan afturhaldssamur hvítur maður + ofvirkur svertingi = voða fyndið. Þetta hefur maður séð milljón sinnum áður - 48 HRS, Beverly Hills Cop, og fleiri eru dæmi um það. Það er ágæt hugmynd grafin undir öllu Bruckheimer-draslinu hér, en hún hverfur undir ofurleikstjórn Joel Schumacher (eins og venjulega) og formúlutónlist/klippingu/kvikmyndatöku fólksins sem Bruckheimer notar yfirleitt. Ég veit ekki hvað Anthony Hopkins var að hugsa þegar hann samþykkti þetta handrit; hann hlýtur að hafa vantað pening. Chris Rock er eins og hann er alltaf - hávær og sífellt meira pirrandi því lengur sem hann er á skjánum. Söguþráðurinn er lapþunnur; enn ein útgáfan af týnda tvíburabróðurnum og svarta sauðinum. Að þessu sinni blandast í málið rússneskir bófar og kjarnorkuvopn, en ekkert af þessu virkar áhugavert eða spennandi. Það er hægt að glotta út í annað endrum og sinnum, en allar bestu senurnar eru sýndar í trailernum. Bad Company ber nafn með rentu og er ekki 800 króna virði - bíðið frekar eftir myndbandinu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Sum of All Fears
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Sum of All Fears kynnir aftur til leiks einn traustasta bíókarakter sem til er, CIA-manninn Jack Ryan. Þeir Alec Baldwin og Harrison Ford hafa báðir spreytt sig í hlutverkinu og gert vel (enda Ryan sprottinn úr huga Tom Clancy), en að þessu sinni er það hortitturinn Ben Affleck sem leikur Ryan. Í þessu leikaravali liggur stærsti galli myndarinnar. Persónulega þoli ég ekki Affleck og finnst hann sérlega lélegur leikari, en að láta mann halda að hann tali rússnesku, úkraínsku, sé sérfræðingur í rússneskri stjórnmálasögu, og góðkunningi yfirmanns CIA er hreinasti brandari. Maðurinn er 29 ára... halló!? Guði sé lof eru gæðaleikarar í öðrum hlutverkum, þar á meðal Morgan Freeman, James Cromwell, Philip Baker Hall, Liev Schreiber (sem leikur John Clark mjög vel) og Ron Rifkin. Allt eru þetta vel þekktir karakterleikarar sem taka Affleck í nefið í hverri einustu senu. Myndin sjálf er temmilega traustur þriller sem snertir óneitanlega taugar manns á þessum síðustu og verstu tímum. Allt sem fjallar um hryðjuverk í Bandaríkjunum er eðlilega ofarlega á blaði, og það útskýrir kannski vinsældir myndarinnar. Stundum leið mér þannig á myndinni að það væri ósmekklegt af Paramount að sýna hana yfir höfuð, en svo fannst mér fáránlegt að ásaka kvikmyndir um að notfæra sér ástand sem þeim kemur ekkert við. Myndin er fagmannlega gerð, spennandi, raunsæ, og heldur athygli manns auðveldlega allan tímann, og það er ekki erfitt að mæla með henni. Bara að auminginn Affleck væri ekki þarna efstur á blaði...
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Insomnia
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Insomnia er mjög óvenjuleg sumarmynd, þar sem hún brýtur eiginlega allar reglur slíkra mynda. Hún krefst þess að áhorfendur noti heilann, er allt annað en hressileg, og hana skortir hetjuna sem maður er vanur að geta haldið með. Leikstjórinn Christopher Nolan (Memento) skipar sér á bekk með áhugaverðustu kvikmyndagerðarmönnum samtímans með því að taka mynd sem hefði auðveldlega getað orðið formúluspennumynd og gera hana að stílfærðri, erfiðri ráðgátu jafnvel þó maður viti allan tímann hver morðinginn er. Al Pacino er í toppformi sem Will Dormer, lögga frá Los Angeles sem er sendur til Alaska til þess að rannsaka morð. Það dimmir ekki um sumarmánuðina þar (maður kannast nú við það) og þaðan kemur titill myndarinnar. Pacino leikur Dormer mjög vel; hann verður veiklyndari og ringlaðri því lengur sem hann festir ekki svefn. Nolan nær að tjóðra Robin Williams, sem fer ekki yfirum svona einu sinni og er þar af leiðandi verulega óhuggulegur og áhrifaríkur í sínu hlutverki. Hilary Swank kemur líka vel út í rullu sem hefði getað orðið veiki hlekkur myndarinnar. Nolan fær líka plús í minni bók fyrir að setja þrjá þekkta sjónvarpsleikara (Nicky Katt, Maura Tierney, Paul Dooley) í þrjú stærstu hlutverkin á móti þremur Óskarsverðlaunahöfum. Það hristir svolítið upp í manni. Eins og áður sagði er stíll Nolans áhrifaríkur og sérstæður. Maður finnur það strax að þetta er ekki mynd eftir Joel Schumacher eða Michael Bay. Nolan notar klipparann Dody Dorn og kvikmyndatökumanninn Wally Pfister eins og hann gerði í Memento, og útkoman er stórmynd með indie-stemmningu. Insomnia er kannski aðeins of löng, og það er stundum erfitt að halda með Dormer (sem er jafngölluð hetja og Leonard var í Memento), en þetta er þrátt fyrir það gæðamynd um mitt sumar, og það er ekkert nema gott um það að segja.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Spider-Man
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Stundum langar mann hreinlega að grenja af gleði í bíó. Spider-Man hefur alla tíð verið uppáhaldsofurhetjan mín og ég hef beðið eftir þessari mynd frá því ég var 12 ára, þegar fréttist að James Cameron ætlaði að gera hana. Guði sé lof féll hann frá því (hann hefði sennilega sett DiCaprio í aðalhlutverkið... oj) og þegar Sony keypti réttinn fyrir nokkrum árum var ég alsæll. Ekki var verra að Sam Raimi, frumlegur og sjálfstæður leikstjóri, var fenginn til að stjórna öllu saman. Núna er myndin komin og ég gæti ekki verið mikið ánægðari með útkomuna. Tobey Maguire smellpassar í hlutverkið; hann er trúanlegur bæði sem Peter Parker og Köngulóarmaðurinn. Kirsten Dunst nær að gera Mary Jane að hæfilega kynþokkafullri og bjargarlausri draumadís og Willem Dafoe er næstum því jafn svalur og Jack Nicholson var sem Joker um árið. Ég verð líka að minnast á J.K. Simmons í hlutverki J. Jonah Jameson; hann var nákvæmlega eins og ég hef alltaf ímyndað mér. Það er nánast ekkert að þessari mynd, ég sat hreinlega opinmynntur af gleði allan tímann. Ofurhetjumynd sem er mannleg, skemmtileg, fyndin, rómantísk, og forðast kjaftæðið sem Batman-myndirnar voru undir lokin. Tónlist Danny Elfman er óaðfinnanleg að vanda, tæknibrellurnar óhugsanlegar, húmorinn frábær (atriðið þar sem Peter notar vefinn fyrst er óborganlegt), og smá ættjarðarást í lokin var ekki nærri því jafn slepjuleg og hún hefði getað verið. Ef þetta er ekki algjörlega fullkomin byrjun á sumrinu þá veit ég ekki hvað. Fólk sem getur ekki skemmt sér yfir Spider-Man ætti hreinlega að hætta að fara í bíó. Og ég var svo heppinn að frábær trailer fyrir Hulk fylgdi með. Mmmm... ofurhetjuhimnaríki...
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Murder by Numbers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Viti menn, læðist ekki frambærilegur sálfræðiþriller fram á sjónarsviðið þótt komið sé fram á sumar. Og það frá Söndru Bullock, af öllum manneskjum. Ég hef alltaf haft gaman að Bullock og er eflaust hlutdrægur, en henni hefur tekist að koma á tjaldið alveg hreint skammlausri spennumynd. Hún nýtur hjálpar leikstjórans Barbet Schroeder, sem er vel kunnugur spennumyndum með kvenfólki í aðalhlutverkum eftir hina stórgóðu Single White Female. Sandra leikur löggu sem vinnur að morðmáli þar sem ekkert virðist ganga upp, enda ekki skrýtið þar sem tveir vel gefnir strákormar eru á bak við allt saman og reyna að gera löggunni grikk. Bullock er fín hér, er í sama gírnum og hún sýndi í Speed og The Net - sjálfstæð kona í óheppilegum aðstæðum. En það eru samt strákarnir tveir sem stela myndinni frá henni. Ryan Gosling (frábær í myndinni The Believer) og Michael Pitt (stóra ástin í Hedwig and the Angry Inch) eru stórgóðir sem óvenjulegir menntaskólanemar sem hafa ekkert betra að gera en að skipuleggja hið fullkomna morð. Murder by Numbers minnir stundum óþægilega á Columbine-morðin fyrir nokkrum árum og fær talsvert að láni frá Twin Peaks, bókum Patriciu Cornwell og jafnvel CSI, en hún er engu að síður mjög spennandi áhorfs og það er gaman að sjá samspil þeirra Gosling og Pitt. Kvikmyndatakan er líka þess verð að minnast á, spennumyndir leggja yfirleitt áherslu á aðra hluti. Góður þriller sem ætti ekki að svíkja þá sem borga sig inn.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Scorpion King
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Og þar með hófst sumarvertíðin 2002. Hvað kvikmyndaverin varðar er sumardagurinn fyrsti sífellt að færast fram um viku í einu, og hvað þýðir það annað en meiri gróða? Í fyrra var það The Mummy Returns, og nú er það The Scorpion King. Eins og alþjóð veit er þessi mynd eins konar framhald Mummy-myndanna en gerist fyrir þúsundum ára og segir sögu Sporðdrekakonungsins (Dwayne The Rock Johnson). Hann var vondi kallinn síðast en núna er hann góðmennskan uppmáluð, hetja alþýðunnar, og fljótur með grínið. Hvað skemmtun varðar er myndin alveg hreint ágæt. Dæmigerð sumarmynd, tæknibrellur, hasar, rómantík, og þar fram eftir götunum. En hvað er að því að gera aðeins meiri kröfur einstaka sinnum? Aðstandendur, þar á meðal leikstjórinn Chuck Russell (The Mask, Eraser) og handritshöfundurinn Stephen Sommers (báðar Mummy-myndirnar), eru hreinlega latir hér. Það er ekki vottur af frumleika heldur er hverri klisjunni á fætur annarri skellt framan í áhorfendur. Bróðirinn sem deyr, óvinurinn sem verður að vini, konan sem hatar hetjuna fyrst en skiptir um skoðun í miðri mynd, sæti krakkinn, fyndni ferðafélaginn... hvað er maður búinn að sjá þessa formúlu oft? Verst þykir mér að sjá glímukappanum mikla, The Rock, sóað í myndinni. Þeir sem hafa séð hann í Saturday Night Live og annars staðar vita að hann er sjarmerandi, fyndinn, og fjandi hæfileikaríkur. Þessir kostir eru allir vannýttir hér. Fyrri hluti myndarinnar er svo illa skrifaður og hallærislegur að fólk hreinlega hló að því. Seinni hlutinn er mun skárri, sem betur fer. The Scorpion King er ekki sérlega góð byrjun á sumrinu, en ég neita því ekki að maður getur samt haft gaman að henni. Eins gott að Spider-Man sé betri...
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Sweetest Thing
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég tek undir það að The Sweetest Thing er vel heppnuð gamanmynd og hún er ein af þessum myndum sem reynist vera allt annað en maður hélt í fyrstu. Hún er auglýst sem rómantísk gamanmynd, en hún er í raun í anda American Pie og annarra slíkra mynda sem eru óhræddar við að nota neðanbeltishúmor til að ná til áhorfenda. Það ætti kannski ekki að koma á óvart þegar tekið er tillit til þess að handritshöfundurinn Nancy Pimental hefur árum saman skrifað fyrir South Park og leikstjórinn Roger Kumble gerði illkvittnustu mynd síðari ára, Cruel Intentions. Cameron Diaz sýnir enn og sannar að hún er fædd til að vera á hvíta tjaldinu. Brosið eitt kemur í veg fyrir að maður geti gagnrýnt mynd sem hún er í. Hún er á útopnu hér í hlutverki partígellunnar Christinu, sem er lítið fyrir sambönd en finnur - kannski - þann eina rétta á röngum stað. Christina Applegate, sem hingað til hefur haldið sig í sjónvarpi (Married With Children, Jesse) eða slöppum B-myndum eins og Don't Tell Mom the Babysitter's Dead, stelur myndinni samt næstum því með því að vera jafnvel enn óhræddari en Diaz við að ganga of langt (atriðið í bílnum með mótorhjólagæjann sannar það). Aumingja Selma Blair þarf að gera lítið úr sér en það er gott fyrir áhorfendur því allt sem hún lendir í er gjörsamlega sprenghlægilegt. The Sweetest Thing er óvæntur vorglaðningur og áhættulaus bíóferð fyrir þá sem vilja hlæja duglega, og sjá af hverju stelpur fara í alvörunni alltaf saman á klósettið.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Cheers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Donnie Darko er ein af 5 bestu myndum ársins 2001 og það er hreinasta skömm að hún hafi ekki fengið að njóta almennra vinsælda og hlotið fleiri viðurkenningar. Leikstjórinn og handritshöfundurinn Richard Kelly skilar af sér mynd sem er á meðal þeirra frumlegri og áhugaverðari sem gerðar hafa verið langa lengi. Það er í raun ósanngjarnt að reyna að útskýra um hvað myndin er svo ég sleppi því, en hún fjallar um líf, tilveru, tíma, rúm, mörkin á milli heilbrigði og geðveiki, og erfið unglingsár. Jake Gyllenhaal (October Sky) er frábær í titilhlutverkinu. Hann gerir Donnie að heilsteyptum karakter þrátt fyrir margbrotinn bakgrunn hans og maður getur ekki annað en dregist að honum þó hann sé oft á tíðum langt frá því að vera eðlilegur. Aðrir leikarar (Mary McDonnell, Drew Barrymore, Patrick Swayze, Jena Malone, Noah Wyle) eru í aftursætinu en geta samt verið sáttir við framlagið. Það eru Kelly og Gyllenhaal sem eiga þessa mynd og þeir eiga allt lof skilið. Donnie Darko er alls ekki mynd sem allir verða sáttir við en þeir sem ná henni geta ekki annað en dást að öllu saman. Snilld.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Panic Room
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er sönn ánægja að fara í bíó og njóta þess að horfa á mynd gerða af fyrsta flokks fagfólki; fólki sem er frumlegt, hæfileikaríkt og öðruvísi. David Fincher er einn af mínum uppáhalds leikstjórum þessa dagana. Myndirnar hans eru nýjungagjarnar, óvæntar og sérlega vel stílfærðar og það er yfirleitt nautn að horfa á þær. Seven, Fight Club, The Game og Alien 3 eiga það allar sameiginlegt að vera sérstaklega óvenjulegar myndir, og flestar eru mjög góðar. Panic Room er enn ein myndin þar sem Fincher nær að útfæra sinn eigin stíl enn betur. Að þessu sinni fær hann óspart að láni frá meistara Alfred Hitchcock, og útkoman er óneitanlega aðdáunarverð. Fincher notar New York og það sem er sérstakt við borgina til að byggja upp spennu, og hann notar Hitchcock-hugmyndir til að skapa innilokunarkennd, ofsóknartilfinningu og atriði þar sem áhorfendur geta ekki annað en öskrað á tjaldið til að höggva á spennuhnútinn sem hann vefur út í gegn. Fincher notar snilldarlega gerða sviðsmynd til fullnustu og kvikmyndataka eftir Darius Khondji og Conrad Hall ásamt tónlist Howards Shore gera Panic Room að gífurlega traustum þriller. En ekki má gleyma leikurunum. Það er mjög ánægjulegt að sjá Jodie Foster aftur. Að mínu mati er hún ein besta leikkona allra tíma og í hlutverki sem hefði getað verið einhæft og klisjukennt slær hún enga feilnótu. Lokaatriðið í húsinu sýnir hana jafnframt í nýju ljósi og maður fær óneitanlega smá kikk út úr því að sjá hana sem nokkurs konar hasarhetju. Fyrir utan endi sem gæti verið frumlegri er Panic Room fyrsta flokks spennumynd og ætti ekki að valda neinum vonbrigðum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ghost World
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég ætla að byrja á því að skamma íslenska kvikmyndahúsaeigendur fyrir að sýna ekki þessu frábæru kvikmynd. Ég veit ekki hver ykkar ber ábyrgð á þessu en á meðan þið getið sýnt drasl eins og Snow Dogs þá hlýtur að vera pláss fyrir svona gullmola, þó ekki væri nema í litlu sölunum. Ghost World er byggð á samnefndri sígildri neðanjarðarmyndasögu eftir Daniel Clowes, og segir frá vinkonunum Enid (Thora Birch) og Rebeccu (Scarlett Johansson). Þær er nýskriðnar út úr menntó og eru að þreifa fyrir sér í lífinu og ákveða hvað þær vilja gera í málinu. Báðar eru frekar þroskaðar og með illkvittinn húmor, og þessi samblanda leiðir þær til kynna við nördinn Seymour (Steve Buscemi). Seymour safnar gamalli tónlist á vínylplötum og Enid fær áhuga á honum sem manneskju, ekki bara aumlegum manngarmi. Leikstjórinn Terry Zwigoff (sem gerði hina frábæru heimildarmynd Crumb) hefur gert mynd sem er frábærlega skemmtileg á að horfa og er full af vel skrifuðum samtölum. Thora Birch er hreint út sagt frábær sem Enid og færir sig upp í flokk alvöru leikkvenna líkt og Christina Ricci gerði með The Opposite of Sex. Johansson er góð sem hin alvörugefna Rebecca, og dópistinn Brad Renfro á góða spretti sem vinur þeirra (senurnar í búðinni þar sem hann vinnur eru frábærar). En það er Buscemi sem á þessa mynd. Hann hefur alltaf verið frábær en aldrei jafn góður og hér. Ég hreinlega skil ekki af hverju hann fékk ekki Óskarstilnefningu sem besti aukaleikari; hann var a.m.k. betri en Ethan Hawke!! Leikararnir og handritið eru stjörnurnar hér og hver sá sem þykist hafa gaman að virkilega góðum myndum hreinlega verður að sjá Ghost World. Tékkið líka á tónlistinni, hún svíkur engan.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hedwig and the Angry Inch
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hedwig and the Angry Inch er frábær mynd. Það er hressandi að sjá jafn heiðarlegan, ómengaðan og lífsglaðan hæfileikamann og John Cameron Mitchell, sem skrifar, leikstýrir, syngur, og leikur drottninguna Hedwig. Sagan af litla stelpustráknum frá Austur-Berlín sem var svikinn af örlagadísinni er einhver skemmtilegasta mynd sem ég hef lengi séð. Mitchell er óborganlegur í aðalhlutverkinu og maður getur ekki annað en hrifist með fólki eins og honum, sama hversu undarleg sagan kann að vera. Lífsgleðin svífur yfir vötnunum og húmorinn er bæði svartur og hvass. Ekki má gleyma tónlistinni, sem er nóg til þess að fá hvern sem er til að hrista á sér afturendann og gleyma amstri hversdagsins í smástund. Eins og fyrr sagði er Mitchell æðislegur, og það er synd að hann hafi ekki fengið fleiri verðlaun en raun ber vitni (halló, Óskarsverðlaun?!?!). Michael Pitt er líka fyrsta flokks í hlutverki Tommy Gnosis, sem er heilladís, innblástur, andagift, og stóra ást Hedwigs. Komið ykkur út á vídeóleigu og grípið Hedwig með ykkur heim. Það verður enginn svikinn af svona hreinræktaðri skemmtun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Blade II
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég tek undir það að Blade II er betri en forverinn á flestan hátt. Wesley Snipes er mun svalari hér, handritið er traustara (enda þarf ekki að eyða klukkutíma í að kynna alla til sögunnar), brellurnar eru mjög flottar, og plottið er bæði meira spennandi og áhugaverðara. Leikstjórinn Guillermo del Toro er frægur fyrir að vera mikið fyrir áhrifamikil stílbrögð og það sést vel á leikmynd, klippingum og kvikmyndatöku hér. Ég er mjög sáttur við útkomuna, enda gæti ekki hver sem er skilað af sér framhaldsmynd í þessum gæðaflokki. Snipes hefur sannað að hann er góður leikari en hann festist í svona hasarmyndum, en Blade er sennilega hans besta hlutverk í þeim flokki. Ótrúlegt en satt, Blade þarf að sýna tilfinningar og Snipes kemur þeim vel til skila. Gamli kallinn Kris Kristofferson er vakinn til lífsins hér (dó hann ekki í fyrstu myndinni??!) og er svona kábboja-legur í gallabuxum og með byssu í sitt hvorri hendi. Vampírurnar eru flottari en djöfullinn (merkilegt hvað þær góðu þurfa ekkert að nærast á meðan myndinni stendur), og það er gott að sjá að eins og í fyrri myndinni er vampíruástandið notað sem vísun í eiturlyfjafíkn og sjúkdóma - það er eins og í myndasögunni sjálfri. Blade II er flott á að horfa, með geðveika hljóðrás, og fæstir ættu að geta skammast yfir útkomunni. Meinlaus (en svolítið ógeðfelld) skemmtun fyrir alla.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Resident Evil
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Best að byrja á því að segja að ég hef aldrei spilað Resident Evil leikinn og veit því lítið um hvað hann snýst. Ég er yfirleitt efins um myndir sem eru byggðar á tölvuleikjum (Mortal Kombat og Tomb Raider verða aldrei taldar á meðal góðra mynda) en margir hvöttu mig til að sjá hana þessa. Og viti menn, þetta er alls ekki svo slæm mynd. Leiðrétting: Þetta er ekki slæm tölvuleikjamynd, og ég lít á hana frá því sjónarmiði. Sem kvikmynd er þetta langt frá því að vera meistaraverk. Leikstjórinn Paul Anderson gerði Event Horizon, sem mér fannst mjög áhugaverð mynd, og Resident Evil gerir manni það ljóst að Anderson er mikið fyrir það að sletta blóði upp um alla veggi. Hann gerir líka vel í því að setja myndina upp eins og tölvuleik; maður getur t.d. alltaf fylgst með karakterunum á þrívíddarkorti. Stíllinn á myndinni er flottur. Upphafsatriðið er vægast sagt óþægilegt (5 manns gengu út á meðan því stóð) en því er ekki neitað að Anderson þrýstir á alla réttu sálfræðipunktana til að stressa mann. Hann notast reyndar of mikið við ódýr bregðu-atriði og stelur talsvert úr öðrum myndum (Cube, Day of the Dead, Tomb Raider, 2001, o.s.frv.) en það er ekkert of pirrandi. Það er of mikið að gerast til að maður geti fest hugann við eitthvað svoleiðis. Milla Jovovich og Michelle Rodriguez (Girlfight) eru fremstar í flokki harðsoðins hóps málaliða sem ræðst inn í neðanjarðarvirki til að takast á við vírusa, klikkaða tölvu, og uppvakninga með smekk fyrir mannakjöti. Myndin gengur aðeins of langt með síðustu skrímslunum en það er ekki hægt að segja annað en að hún keyri stanslaust á spennu og hryllingi út í gegn og stendur þ.a.l. við það sem hún lofar, og ekki má gleyma frábærri tónlist. Fyrir þá sem vilja fleiri svona myndir, hafið engar áhyggjur. Resident Evil 2 er augljóslega á leiðinni, og gæti m.a.s. orðið ansi góð ef hún heldur áfram þar sem frá var horfið. Óvænt og ógeðfelld skemmtun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ice Age
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það verður að segjast að ég bjóst við miklu af Ice Age eftir að hafa hlegið að sýnishorninu í tæpt ár. Mér til mikillar undrunar var myndin enn betri en ég bjóst við og 20th Century Fox skipar sér nú skammlaust við hlið Disney og DreamWorks sem framleiðandi gæðateiknimynda. Ice Age er einn stór brandari og það er endalaust hægt að hlæja að vitleysunni sem bægslast um á tjaldinu. Loðfíllinn Manfred, letidýrið Sid og sverðtígrisdýrið Diego sameina krafta sína til að skila týndu barni til mannfólksins, og ferðin er alveg hreint frábær. Raddirnar (Ray Romano, John Leguizamo, Denis Leary) eru fyrsta flokks og útlit myndarinnar er ótrúlegt. Dýrin eru einstaklega vel gerð og maður er oft opinmynntur af undrun við að sjá nákvæmnina. Húmorinn er endalaus og salurinn lá í kasti nærri því allan tímann. Ef ekki væri fyrir allt of mikla væmni undir lokin væri Ice Age nær fullkomin. Þrátt fyrir það er þetta frábær skemmtun fyrir hvern sem er. Og ef þú hlærð ekki að íkornaskrípinu sem skýtur upp kollinum endrum og sinnum er eitthvað mikið að þér.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Time Machine
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Time Machine hefur alla burði til að vera flott sci-fi ævintýramynd af fyrstu gráðu, en hún þjáist fyrir slappt handrit, áhugalausa leikstjórn, og miskunnarlausa klippingu kvikmyndavers sem vildi selja myndina yngri áhorfendum. Myndin er að sjálfsögðu byggð á klassískri sögu H.G. Wells um vísindamanninn Alexander Hartdegen (Guy Pearce) sem finnur upp tímavél. Upphaflega vill hann breyta fortíðinni en þegar hann uppgötvar að það er ekki hægt gefst hann upp og ferðast til framtíðarinnar. Hann stoppar árið 2030 og aftur 2037 en slysast svo til ársins 802,701 þegar tvær tegundir mannkyns berjast um völd. Hann dregst inn í þau átök og það er þá sem myndin fer til fjandans. Þetta var ágætt fram undir síðasta tímahoppið. Það sem gerist 2030 og 2037 er mun áhugaverðara en atburðirnir 800,000 árum seinna og það eru mistökin. Maður er alltaf að vona að hann snúi við til að redda málunum annars staðar. Í staðinn er hann að slást við ljót mann-skrímsli sem rymja og eru voða voða vond. Svo birtist Jeremy Irons undir 3 tonnum af hvítum farða og fer langt með það að eyðileggja ferilinn með fáránlegu hlutverkavali. Myndin er full af flottum tæknibrellum og maður getur ekki annað en dást að öllu saman. En leikstjórinn Simon Wells gengur aðeins of langt með þær og myndin verður stundum svolítið vélræn og laus við mannlega þáttinn þegar það er ekkert raunverulegt á tjaldinu. The Time Machine á góða spretti og er oft skemmtilegt, en nær aldrei að vera jafn spennandi og fersk og hún gæti verið.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
We Were Soldiers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

We Were Soldiers er enn ein stríðsmyndin frá Hollywood (Black Hawk Down, Behind Enemy Lines, o.s.frv.) og ég hélt nú að ég yrði orðinn leiður á þessu öllu saman. En það kemur á daginn að myndin er mjög vel gerð og fín áhorfs að öllu leyti. Ég hef ekki séð Víetnam-mynd sem er svona áhrifamikil síðan ég sá Platoon og er þá mikið sagt. Myndin segir frá fyrsta alvöru bardaga Víetnamstríðsins, þegar bandaríski herinn barðist fyrst við n-víetnamska herinn í Ia Drang-dalnum. Sagan er sögð frá sjónarhorni Harolds Moore (Mel Gibson), sem leiðir menn sína í þennan bardaga. Sagan er vel þekkt hér vestan hafs og myndin gerir þessari sorgarsögu góð skil. Gibson er alveg hreint ágætur í aðalhlutverkinu, en Sam Elliot stelur öllum sínum senum með frábærri frammistöðu. Greg Kinnear og Barry Pepper eru jafnframt skammlausir, en í guðanna bænum vill einhver sjá til þess að Chris Klein mengi ekki svona myndir með sama svipnum og hann notar í öllum myndum? Það er líka fyndið að sjá Madeleine Stowe með nýju kollagenvarirnar sínar... hún er eins og Penelope Cruz á sterum og næstum óþekkjanleg. We Were Soldiers er góð og áhrifarík mynd fyrir þá sem eru ekki enn búnir að fá nóg af amerískum stríðsmyndum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Queen of the Damned
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sem aðdáandi vampírubóka Anne Rice er ég eflaust talsvert hlutdrægur þegar kemur að ævintýrum Lestats og félaga. Ég hafði mjög gaman að Interview with the Vampire (þó hún hafi ekki elst sérlega vel) og ég las fyrstu fimm bækurnar, eða þangað til Anne kellingin var farin að rugla helst til mikið. Ég beið því lengi eftir því að bók nr. 2, The Vampire Lestat, birtist á hvíta tjaldinu. Mér til mikillar undrunar var það þriðja bókin, Queen of the Damned, sem Warner Bros. ákváðu að kvikmynda í staðinn. Það kemur ekki að sök þannig séð, einkum þar sem myndin tekur bækurnar tvær og skellir þeim saman í mjög útþynnta útgáfu. Stuart Townsend tekur við hlutverki Lestats, og hann er satt að segja mun betri en Tom Cruise í fyrstu myndinni. Hann er miklu meiri kynvera og nær betur að túlka Lestat eins og hann er skrifaður. Aaliyah heitin er hér í sínu síðasta hlutverki, og það er synd að hún skuli ekki vera á meðal vor lengur þar sem hún sýnir fjandi góða takta sem Akasha, sem er formóðir allra vampíra. Saman eru þessi tvö mjög flott, en það er nú þannig að auglýsingar geta platað mann. Aaliyah er í raun á skjánum í u.þ.b. 10 mínútur, og í staðinn eru þau Vincent Perez og Marguerite Moreau í stærstu hlutverkunum ásamt Townsend (já, þeir hjá WB eru að notfæra sér dauða leikkonunnar, sem er frekar ósmekklegt). Þeir sem hafa lesa bækurnar vita það fyrirfram og verða ekki hissa, en þeir gætu jafnframt verið ósáttir við það hversu stiklað er á stóru. Þeir sem eru ókunnugir bókunum gætu stundum klórað sér í hausnum þegar litlum tíma er eytt í að kynna karaktera til sögunnar. Myndin verður oft svolítið hallærisleg og það er hætta á að fólk eigi oft eftir að hlæja þegar það er ekki ætlunin. Tæknivinnan er flott, kvikmyndataka og klipping betri en maður býst við af svona B-mynd, og tónlistin (eftir Jonathan Davis úr Korn) er helvíti flott. Queen of the Damned rétt sleppur yfir meðallag, en það er sennilega bara vegna þess að ég elska bækurnar. Aðrir gætu átt erfiðara með að kyngja henni. Eins og gæinn fyrir aftan mig í salnum sagði í lokin: For a vampire movie, it didn't suck.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Rollerball
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er ekki mikið gott hægt að segja um Rollerball. Frummyndin frá 1975 með James Caan var framúrstefnuleg á sínum tíma og talsvert flott gerð á mælikvarða þess tíma. Það er alveg hreint með ólíkindum að John McTiernan hafi leikstýrt þessari endurgerð og mikil skömm fyrir mann sem hefur slatta af mjög góðum spennumyndum á ferilskránni. Hugmyndin er jafnframt úr sér gengin. Einhvers staðar undir öllum hávaðanum, rokktónlistinni, lélega leiknum, og asnalegum klippingum leynist ádeila á fjölmiðla og sífellt lágkúrulegri múgsefjunardagskrárgerð. Hér er málið að framleiða alltaf meira ofbeldi til að fá fleiri sjónvarpsáhorfendur. Með þætti eins og Spy TV, Survivor, Temptation Island og Fear Factor í sjónvarpinu þessa dagana fellur Rollerball flöt. Við búum nú þegar við svona hugsunarhátt og myndin er svo mikil veimiltíta að ádeilan gengi hvort sem er ekki upp. Chris Klein sannar að hann getur ekki leikið; hann er alltaf eins. Það er alltaf svolítið gaman að LL Cool J en hann verður aldrei talinn á meðal bestu leikara okkar. Hvað á það að þýða að fela Rebeccu Romijn-Stamos undir ljótri hárkollu og afmyndandi andlitslýti? Er ekki tilgangurinn með henni að hafa eitthvað til að horfa á? Og Jean Reno á að skammast sín fyrir að taka þátt í svona bulli. Rollerball er ekkert nema eitt langt tónlistarmyndband - sem gerist í Mið-Asíu af einhverjum ástæðum - og ætti að fara beint á myndband. Myndin hefur samt þá afsökun að hún var klippt talsvert til að yngri áhorfendur gætu borgað sig inn. Kannski hún skáni eitthvað þegar maður sér óklipptu útgáfuna síðar meir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Rear Window
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Alfred Hitchcock. Grace Kelly. James Stewart. Þessar þrjár manneskjur eru nóg til að tryggja góða kvikmynd, og Rear Window er svo sannarlega ein besta mynd allra tíma og langbesta mynd Hitchcocks að mínu mati. Ekki einu sinni Psycho jafnar þetta meistaraverk. Það er nákvæmlega ekkert sem hægt er að kvarta yfir. Sagan er skotheld og jafn spennandi í dag og hún var fyrir tæpum 50 árum. Stewart er frábær í hlutverki ferðaljósmyndarans farlama sem grunar nágranna sinn um græsku. Kelly er yndisleg sem kærasta hans, Raymond Burr (betur þekktur sem Perry Mason) klikkar ekki sem vondi kallinn, og Thelma Ritter hressir upp á myndina með smá kaldhæðni. Kvikmyndir gerast hreint út sagt ekki betri en Rear Window og hún er skylduáhorf fyrir hvern sem er. Fyrir utan það að vera tæknilegt meistaraverk síns tíma &8211; sviðsmynd, kvikmyndataka, lýsing, o.s.frv. voru einhver flóknustu tækniverk sem unnin höfðu verið &8211; er frásagnarstíll Hitchcocks í toppformi hér. Frábær mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
From Russia with Love
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég var búinn að steingleyma þessari mynd, enda orðin mörg ár síðan ég sá hana síðast. En þökk sé kraftaverkum kapalsjónvarpsins fékk ég að njóta hennar aftur, og er þakklátur fyrir. From Russia with Love er án efa ein besta Bond-myndin enda státar hún af svo mörgu góðu. Fyrst ber að telja Sean Connery, sem er að mínu mati eini maðurinn sem getur leikið Bond. SPECTRE skýtur upp kollinum, sem skiptir miklu fyrir sögu Bond-myndanna. Bond-daman Daniela Bianchi er gullfalleg að venju, og slagsmálaatriðið í lestinni er ótrúlega flott miðað við hversu gömul myndin er. Ég áttaði mig líka á því að Austin Powers stal sennilega einna mestu úr þessari mynd og það gerði hana bara ennþá betri. Eðaltraust Bond-klassík.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Kung Pow: Enter the Fist
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég sá Kung Pow fyrir viku og ákvað að bíða með að tjá mig um hana til að sjá hvort hún batnaði í minninu eftir því sem frá leið. Hið öfuga gerðist, og ég hef enn minna álit á henni núna en ég gerði til að byrja með. Þetta er einhver sorglegasta kvikmynd sem ég hef á ævi minni séð og vonandi þarf ég aldrei að sitja undir svona aftur. Hugmyndin er ekkert slæm. Handritshöfundurinn og leikstjórinn Steve Oedekirk lætur sitja sig stafrænt inn í eldgamla kínverska hasarmynd og breytir söguþræðinum með því að tala yfir upprunalegu leikarana. Því miður er úrvinnslan hræðileg. Ég hef aldrei séð svona marga bíógesti ganga út úr salnum í miðri mynd. Ef Kung Pow verður ekki á lista yfir verstu myndir ársins 2002 þegar það verður gert upp má ég hundur heita. Hörmung!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Collateral Damage
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það eru komin nokkur ár síðan ég sá Arnold Schwarzenegger síðast í bíó, enda ekki verið mikið að sjá. Ég hefði betur beðið eftir Terminator 3 en að sjá þetta tæplega miðlungsgóða samansull sem á að kallast hasarmynd. Arnold kallinn var einu sinni það svalasta sem maður gat hugsað sér á skjánum, eins og Terminator og True Lies sanna. Því miður virðist hann vera á sömu leið (þ.e.a.s. niður) og Stallone. Þeir eru einfaldlega orðnir of gamlir til að vera trúanlegar hasarhetjur, og ég var langt frá því að vera eini maðurinn í bíó sem gat ekki annað en hlegið að bægslaganginum og hetjustælunum í þeim gamla. Maður bíður bara eftir að hann segi &8220;I&8217;m getting too old for this shit.&8221; Að þessu sinni er hann slökkviliðsmaður sem vill hefna eiginkonu og sonar sem dóu í sprengjutilræði kólumbísks hryðjuverkamanns. Voða hetjulegt allt saman. Leikstjórinn Andrew Davis (The Fugitive) hefur sýnt það og sannað að hann getur mun betur, og hann ætti að setjast aftur á leikstjóraskólabekk til að rifja upp hvernig þetta er gert. Eins og áður sagði má Arnold muna sinn fífil fegri, og mér finnst alltaf stórmerkilegt hvað hann er ófær um að mæla á enska tungu eftir að hafa verið hér í 30 ár eða svo. Jafnframt er það nokkurn veginn brjóstumkennanlegt að horfa á gæðaleikara eins og John Turturro, John Leguizamo og Francescu Neri í svona formúlubulli. Collateral Damage er sársaukafull klisjuræma í 90 mínútur en hún bætir sig aðeins með smá fléttum í lokin sem koma frekar á óvart. Best væri samt að sleppa þessari, gleyma henni fljótt, og bíða spenntur eftir þriðja ævintýri Tortímandans.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Mothman Prophecies
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er ekki oft sem ég fer í bíó án þess að hafa nokkuð góða hugmynd um hvað ég er að fara að sjá. The Mothman Prophecies læddist í bíó án þess að maður heyrði mikið um hana, og ég fór að sjá hana af þeirri ástæðu að ég þekki fólk sem segist hafa séð fyrirbærið sem myndin er um. Ekki legg ég mikinn trúnað á það en sagan er áhugaverð. Leikstjórinn Mark Pellington gerði hina stórgóðu Arlington Road fyrir 2-3 árum og hann á góða framtíð fyrir sér ef miðað er við afraksturinn hingað til. Stíll hans er einstakur, og ég held jafnvel að enginn nema David Fincher geti látið bíómynd líta svona flott út. Myndin er óaðfinnanleg á að horfa út frá stílsjónarmiði. Kvikmyndatakan er snilldarleg, tónlistin sömuleiðis, og tæknivinnan er aðdáunarverð fyrir mynd sem var tiltölulega ódýr í framleiðslu. Það besta við myndina er að Pellington fær mann til að vera skíthræddur allan tímann. Það er ekkert um skrímsli eða blóðslettur. Maður er allan tímann að drepast úr hræðslu yfir því hvað GÆTI gerst, og yfir því sem maður sér ekki. Richard Gere er óvenju þolanlegur hér, og mér finnst alltaf gaman að sjá Lauru Linney á tjaldinu. Debra Messing (úr Will & Grace), Will Patton og Alan gamli Bates eru jafnframt mjög traust, og einkum sýnir Messing á sér nýja hlið. Það væri illa gert að tala um söguþráðinn, hann er eiginlega óútskýranlegur. Sjón er sögu ríkari, og það ætti enginn að sjá eftir því að borga sig inn á The Mothman Prophecies. Óvænt perla.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Topaz
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Topaz er ein af síðustu myndum Hitchcocks og ber þess greinilega merki að meistarinn var farinn að eldast og tapa aðeins töfrunum sem hans bestu myndir búa yfir. Í fyrsta sinn tekst karlinn á við pólitískt viðfangsefni, þar sem Kúbudeilan og aðdragandi hennar eru notuð sem sögusvið. Topaz segir frá frönskum leyniþjónustumanni sem tekur að sér að njósna um samskipti Sovétmanna og Kúbverja fyrir hönd Bandaríkjamanna. Myndin þeysist um víða veröld, frá Kaupmannahöfn til Washington til Kúbu og svo Parísar, og mestum hluta myndarinnar er eytt í að fylgjast með Frakkanum vinna gegn stjórn Castros og uppræta spillingu innan franskra stjórnvalda. Þetta er fyrsta Hitchcock-myndin sem ég hef séð þar sem svo til engar stjörnur eru í aðalhlutverkum, og það má segja að sjarminn tapist aðeins við að hafa ekki Bergman, Kelly, Grant, Stewart og svoleiðis fólk innanborðs. Frederick nokkur Stafford leikur Frakkann og John Forsyth (betur þekktur úr Dynasty og Charlie's Angels) er í hlutverki amerísks samstarfsmanns. Flestir aðrir leikarar eru Evrópubúar sem lítið hefur heyrst um síðan. Myndin þjáist fyrir lengdina. Hún er u.þ.b. tveir og hálfur tími og stundum virðist manni sem ekkert hafi gerst lengi vel. Það vantar líka tónlist Bernards Herrmann (Maurice Jarre sér um tónlistina hér) og það er skortur á því sem kalla má Hitchcock-skot, þ.e.a.s. skot sem eru svo óvenjuleg og listræn að maður veit að enginn annar en Hitchcock sjálfur gæti staðið á bak við þau. Topaz er ekki slæm mynd á flesta mælikvarða en sem mynd eftir meistarann er hún án efa ein af þeim slökustu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Black Hawk Down
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Guði sé lof fyrir breska fagmanninn Ridley Scott. Án hans hefði Black Hawk Down eflaust fallið í þá algengu gildru að vera yfirgengilega amerísk vellumynd með fiðlutónlist og bandaríska fánann í hverju skoti. Sú staðreynd að Scott er leikstjóri verður hins vegar til þess að myndin nær mjög góðu jafnvægi og veður aldrei út í grát og gnístran tanna. Black Hawk Down er byggð á mjög góðri bók með sama nafni og segir frá raunverulegri för bandarískra hermanna til Sómalíu árið 1993 til að skrúfa fyrir starfsemi miskunnarlauss stríðsherra, Aideed að nafni. Eins og alheimur veit fór þessi aðgerð gjörsamlega út um þúfur og endaði með því að rúmlega 1000 Sómalir og 18 bandarískir hermenn lágu í valnum. Sómalía raðaði sér þar með við hlið Víetnam sem næstmesti ósigur Bandaríkjamanna í hernaði á síðustu öld. Myndin segir sögu fjölda hermanna sem voru með í þessari för, og frásagnaraðferðin er óvægin og á köflum hrottafengin, enda ekki skrýtið miðað hvað hvað gekk á. Aðalsöguhetjan, ef slíka mætti kalla, er Matt Eversmann (Josh Hartnett), ungur hermaður sem er að stjórna hópi hermanna í fyrsta sinn. Hartnett nær hér að skína almennilega í fyrsta sinn og stendur sig vel. Hann er umkringdur heilli herdeild af þekktum andlitum: Tom Sizemore, Ewan McGregor, Sam Shepard, Eric Bana og svo mætti lengi telja. Það er eins og annar hver ungur leikari í Hollywood sé mættur á staðinn. Scott stjórnar þessu öllu saman af miklu öryggi og skilar af sér mynd sem er jafn falleg áhorfs og hún er erfið. Það er mikið um grimmd og hatur í þessari mynd og það er verra að vita til þess að þetta gerðist í raun og veru. Kvikmyndatakan skiptist á milli þess að vera gullfalleg og hrá og miskunnarlaus. Hans Zimmer heldur aftur af sér í tónlistinni og hún kemur sérlega vel út. Í fyrsta sinn hefur Jerry Bruckheimer gert mynd sem ekki er hægt að kalla poppkornsmynd og það er stórt skref fram á við fyrir hann. Black Hawk Down er fyrsta flokks bíómynd um mikilvægan sögulegan atburð, og á góða möguleika þegar Óskarstilnefningar verða tilkynntar síðar á árinu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Vanilla Sky
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég er afskaplega ósáttur við þessa kvikmynd. Ég ber mikla virðingu fyrir Cameron Crowe sem kvikmyndagerðarmanni (þrátt fyrir Jerry Maguire) og hafði enga ástæðu til að óttast það að þessi mynd væri ekki a.m.k. miðlungsgóð. Svo var ekki. Vanilla Sky er lítið annað en póstmódernísk, existensíalísk þvæla um hégómagirnd, kynlíf, frægð, yfirborðskennda ást, og tækni sem fer úr böndunum. Ég hef ekki séð upprunalegu myndina, hina spænsku Abre los ojos, en mér skilst að hún sé litlu áhorfanlegri. Það er á hreinu að Crowe og Cruise eru að reyna að koma einhverju mjög djúpu á framfæri en það tekst engan veginn. Útkoman er allt of langur ruglingur sem ég gat ekki beðið eftir að losna út af. Ég gef lítið fyrir leikhæfileika Tom Cruise og hann fékk mig ekki til að skipta um skoðun í hlutverki David Aames, samviskulítils glaumgosa sem afmyndast í bílslysi. Penelope Cruz er hér eins og í öllum öðrum myndum - lítil, spænsk, hálfmælandi á enska tungu og ekki mikið meira en fallegar varirnar. Cameron Diaz er ljósi punkturinn hér. Hún er firnasterk í hlutverki konu sem býr yfir mikilli heift og hefndargirni, og ekki kæmi mér á óvart að sjá hana fá Óskarstilnefningu fyrir vikið. Myndin er líka óvenju Íslandsvæn. Minnst er á Björk tvisvar og Sigur Rós á þrjú lög í myndinni, eins og frægt er orðið. Crowe getur gert miklu betur og vonandi heldur hann sig við sínar eigin hugmyndir hér eftir. Diaz og tónlistin eru það eina góða við þessa mynd, en það er ekki nóg til að bjarga henni fyrir horn.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Notorious
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Notorious er hiklaust ein besta mynd Hitchcocks og er oft á tíðum hrein unun á að horfa. Það var ekki auðvelt fyrir RKO og meistarann að koma myndinni á tjaldið. FBI, ýmsir siðapostular, kvikmyndeftirlitið og fleiri gerðu endalausar athugasemdir við söguna, enda ekkert skrýtið. Aðalkvenhetjan, Alicia Huberman (Ingrid Bergman) er dóttir þýsks njósnara og auk þess sjálfstæð, óhrædd við að nota kynþokkann, og drykkfelld. Þetta voru eiginleikar sem kvenmenn þessa tíma máttu ekki vera orðaðir við. Hitchcock kom myndinni samt sem áður í gegn án þess að fórna dekkri hlið Aliciu. Cary Grant leikur svo Devlin, amerískan leyniþjónustumann sem fær stúlkuna til að fara til Ríó í þeim tilgangi að njósna um þýska skúrka sem hafa ekkert gott í hyggju. Notorious er full af því sem maður myndi kalla eðal-Hitchcock. Rómantíska hetjan, sterki kvenmaðurinn, vondi kallinn, o.s.frv. Oft á tíðum er myndin eins og gamaldags ævintýri með þorparanum ásamt vondu stjúpmóðurinni í kastala þar sem stúlkan er fönguð. Þar að auki er kvikmyndatakan eins og hún best verður í Hitchcock-mynd, klippingin er framúrstefnuleg, tónlistin passar einstaklega vel, handritið eftir Ben Hecht er fyrirmynd margra þrillera á seinni árum, og búningarnir sem Edith Head hannaði fyrir Bergman leggja áherslu á fegurð hennar, sem gerir gott betra. Algörlega ómissandi mynd á allan hátt, og á meðal albestu mynda meistarans, ekki spurning.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Royal Tenenbaums
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég er enn með glottið límt á varirnar eftir hana þessa. Wes Anderson er einn óvenjulegasti en jafnframt frumlegasti handritshöfundurinn og leikstjórinn í bransanum í dag. Hann skaust fram á sjónarsviðið með myndinni Bottle Rocket, sem kynnti umheiminn fyrir þeim bræðrum Luke og Owen Wilson, sem virðast vera í hverri einustu kvikmynd núorðið. Næsta mynd hans var hin frábæra Rushmore og nú er það The Royal Tenenbaums. Hver sem hefur séð trailerinn veit að myndin snýst um hina stórundarlegu Tenenbaum-fjölskyldu. Fjölskyldufaðirinn Royal (Gene Hackman) er búinn að tapa tengslunum við hina einfaldlega vegna þess að hann er algjör skíthæll. Eiginkonan Etheline (Anjelica Huston) er orðin afhuga honum og er þess í stað farin að beina athygli sinni að vonbiðlinum Henry Sherman (Danny Glover). Börnin þrjú, Margot (Gwyneth Paltrow), Richie (Luke Wilson), og Chas (Ben Stiller) eru hvert öðru undarlegra, og ekki eru eiginmaður Margot, Raleigh St. Clair (Bill Murray), og fjölskylduvinurinn Eli Chase (Owen Wilson) mikið skárri hvað andlegu hliðina varðar. Ekki má gleyma barnabörnunum Ari og Uzi, og þeirri staðreynd að Alec Baldwin er sögumaður myndarinnar. Myndin segir frá tilraun Royal til að verða aftur hluti af fjölskyldunni sem hann glataði frá sér og hvernig sú raunasaga gengur öll fyrir sig. Anderson er snillingur í að finna upp ógleymanlega karaktera og handritið er hreinasta snilld. Kaldhæðnin drýpur af hverju einasta orði og myndin skipar sér í sama flokk og Election; þ.e.a.s. hún er síður en svo allra en þeir sem ná henni geta ekki annað en glott yfir öllum asnaskapnum í þessu undarlega fólki. Leikararnir eru á útopnu og njóta þess greinilega að vera með í dæminu. Persónulega finnst mér þessi mynd bráðfyndin en hún er hreinræktuð elska hana/hata hana-mynd. Gefið henni séns.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
A Beautiful Mind
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég er ekki mikið fyrir að spreða fjögra-stjarna dóminum enda missir það merkingu sína ef önnur hver mynd er jafn ofboðslega frábær og margir vilja halda fram. En í þessu tilviki er engin ástæða til að halda aftur af sér. A Beautiful Mind er hreint út sagt yndisleg kvikmynd sem er öllum aðstandendum til mikils sóma. Handritshöfundurinn Akiva Goldsman ber ábyrgð á skelfingunni Batman & Robin og hefur því lengi dvalið á svörtum lista í mínum huga, en hann bætir hér fyrir allar fyrri misgjörðir með fyrsta flokks úrvinnslu á bók Sylviu Nasar um ævi stærðfræðingsins John Forbes Nash. Nash þessi glímdi við geðsjúkdóm mestan hluta ævinnar en hlaut þrátt fyrir það mikla, en seinunna, frægð fyrir kenningar sínar og þykir í dag ein mesta goðsögn Princeton-háskólans, þar sem hann bæði lærði og kenndi og er víst enn. Russell Crowe gæti alveg eins hirt Óskarinn annað árið í röð fyrir leik sinn. Hann er einstakur sem Nash og virðist hreinlega verða hann á tjaldinu. Það pirrar mig svolítið að dásama mann er víst svona leiðinlegur í raun og veru en það verður ekki frá honum tekið að hann er stórkostlegur leikari. Leikkonan Jennifer Connelly, sem gerði garðinn frægan með David Bowie í myndinni Labyrinth forðum daga en hefur lítið sem ekkert sést síðan, vinnur óvæntan leiksigur í hlutverki konu Nash. Það kæmi mér ekki á óvart að sjá hana hljóta Óskarstilnefningu fyrir aukahlutverk. Auk þeirra er gæðafólk á borð við Ed Harris og Christopher Plummer, ásamt Paul Bettany (A Knight's Tale), í aukahlutverkum. Leikstjórinn Ron Howard hlýtur hreinlega að hafa fengið svimakast eftir að snúa sér að þessari mynd eftir The Grinch árið áður. Hann er mun betri í drama en öðrum myndategundum og ætti að halda sig við það. Kannski hann fái loksins tilnefninguna sem hann hefur beðið svo lengi eftir þetta árið. Ég verð að lokum að minnast á tónlistina, sem hefur myndina á jafnvel enn hærra plan, og smellpassar við stemmningu hennar. Frábær mynd sem væri synd að láta fram hjá sér fara.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
North
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eftir að hafa séð þessa mynd einu sinni enn á Bíórásinni get ég enn ekki skilið af hverju hún var hökkuð niður af gagnrýnendum og sniðgengin af áhorfendum þegar hún var frumsýnd. Þvert á móti finnst mér North vera ein best heppnaða ádeila síðasta áratugar, þó svo hún gefist aðeins upp í lokin og veikir þar með gagnrýnina aðeins. Elijah Wood er heillandi sem ungpilturinn North. North er vel gefinn, hæfileikaríkur, kurteis, yfir höfuð fyrirmyndarbarn sem flestir foreldrar væru fegnir að eiga. En foreldrum piltsins (Julia Louis-Dreyfuss og Jason Alexander) virðist vera alveg sama um hann, og svo fer að North fær leyfi yfirvalda til að yfirgefa þau og hefja leit að nýjum foreldrum. Sú leit leiðir North um heim allan en aldrei er hann fyllilega ánægður, og á leiðinni vakir yfir honum nokkurs konar verndarengill (Bruce Willis) sem reynir að vísa honum rétta leið. Rob Reiner er kannski ekki að leikstýra sinni bestu mynd, en North er engu að síður fyndin, skörp og hjartnæm allt í senn. Ekki skaðar fjölbreyttur leikarahópur (Kathy Bates, Dan Aykroyd, Jon Lovitz, o.fl.). Þetta er hiklaust mynd sem á skilið annað tækifæri til að sanna sig.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ocean's Eleven
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þá veit maður hvað gerist þegar stórstjörnur vilja skemmta sér og búa til nokkurra milljóna einkabrandara. Endurgerðin á Ocean's Eleven var gæluverkefni Clooneys árum saman, og loksins þegar honum tókst að berja allt saman er hann svo svínheppinn að myndin gengur alveg sérlega vel upp. Upprunalega myndin var ekki beint vinsæl hjá gagnrýnendum eða áhorfendum, þrátt fyrir aðdráttarafl Sinatra, Dean Martin, Sammy Davis og fleiri stórstjarna. Nýja útgáfan er álíka stjörnum prýdd, en sem betur fer er búið að lappa aðeins upp á söguþráðinn, bæta við meiri spennu og gríni, og miklum fjármunum. Sagan af fyrrum fanganum Danny Ocean (Clooney) sem vill ræna þrjú spilavíti í Las Vegas á einu kvöldi rennur auðveldlega ofan í áhorfendur. Það er fjandi gaman að horfa á þetta fólk skemmta sér, því það skín í gegn að þau eru ekki beint að reyna að vinna Óskarinn. Brad Pitt er að skila einu besta hlutverkinu hingað til, Matt Damon leikur aðeins gegn týpu, Andy Garcia nýtur þess í botn að vera vondi kallinn, Julia Roberts er nokkurn veginn í fríi hér (ekki beint krefjandi hlutverk), og Casey Affleck og Scott Caan eru drephlægilegir sem mormónatvíburar. Gömlu kempurnar Elliott Gould og Carl Reiner eru engu síðri. Steven Soderbergh er ekki beint á sama háa planinu og hann var í Erin Brockovich og Traffic, og það sést að þessi mynd var á léttu nótunum á allan hátt. Leikararnir eru augljóslega að hafa það gott í mynd sem er best líkt við kampavín - létt, bragðgott og fljótt að hverfa ofan í mann. Eitt besta atriðið er í byrjun þegar Pitt er að nálgast botninn hvað framann varðar og er að kenna hóp af sjónvarpsstjörnum á unglingsaldri (sem leika sig sjálf og sanna að þau hafa húmor fyrir sjálfum sér) að spila alvöru póker. Algjör snilld. Þessi mynd er fínasta jólagjöf fyrir þá sem vilja slappa af yfir góðu og léttu bíói yfir hátíðarnar.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Behind Enemy Lines
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Enn á ný tekst Hollywood að eyðileggja annars fjandi góða mynd með því sem hrellir mig oftar en ég vil muna: Yfirgengileg föðurlandsást og væmni þar fram eftir götunum, en á þessum síðustu og verstu tímum er varla við öðru að búast. Í frumraun sinni skilar leikstjórinn John Moore af sér mynd sem er mjög auðveld áhorfs. Kvikmyndataka, tæknivinna, klippingar, og allt í þeirri deild er óhikað fyrsta flokks. Sagan er traust og í raun sú fyrsta sem ég hef séð sem tekst á við að segja sögu úr Júgóslavíustríðinu og notast við atburði sem eiga sér stoð í raunveruleikanum, ekki heilabúi einhvers handritshöfundar. Gene Hackman er náttúrulega snilldargóður leikari, og Owen Wilson er án efa með áhugaverðustu leikurum sinnar kynslóðar (það verður gaman að sjá þá tvo aftur í The Royal Tenenbaums). En því miður fer pólitíkin illa með þessa mynd. Sagan af herflugmanni sem er skotinn niður yfir Bosníu og verður að flýja undan gerspilltum og morðóðum Serbum er því miður notuð eins og áróðrarmaskína fyrir hægrisinnaða Repúblikana. NATO og Evrópubúar eru hér gerðir að aumingjum sem vilja ekkert annað en að friða vondu kallana með samningum og viðræðum. Ameríkanarnir eru hetjurnar sem eru til í að fórna eigin lífi og limum til að gera það sem rétt er. Ojbarasta. Ekki hjálpar tónlistin, sem er á köflum svo yfirgengilega viðurstyggileg að ég gat ekki annað en hlegið. Þetta er ein af þessum myndum (líkt og Crimson Tide og A Few Good Men) sem þarf að klippa til og laga að hugarheimi sem bleytir sig ekki við að sjá ameríska fánann. En þar sem líkurnar á því eru litlar sem engar vara ég íslenska áhorfendur við að þetta er mynd þar sem þið andvarpið í pirringi yfir lokaatriðinu. Don't say I didn't warn you...
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Shallow Hal
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er ekki oft sem myndir reynast vera sauðir í úlfagæru, en það á vel við um Shallow Hal. Úr smiðju Farrelly-bræðra býst maður við grínmynd sem skríður sjaldan eða aldrei fyrir ofan beltisstað, og ef það gerist er það yfirleitt ekki viljandi. Shallow Hal lítur út fyrir að vera slík mynd, en það er alrangt. Þegar yfir lýkur er Shallow Hal það sem vinkonur mínar myndu kalla sæt mynd, og að mínu mati á hún marga spretti sem eru á meðal þeirra mannlegustu sem ég hef séð í bíó á þessu ári. Sýnishornin gefa annað til kynna, svo ekki vera hissa ef þið ætlið að sjá myndina. Það var frábær hugmynd að fá Jack Black til að leika Hal. Hverjum öðrum myndi detta í hug að hann væri kjörinn til að leika á móti Gwyneth Paltrow í rómantískri gamanmynd? En sem sagt, Hal er grunnhygginn náungi sem vill ekkert nema módel þrátt fyrir að vera miður huggulegur sjálfur. Dag einn rekst hann á sjálfshjálpargúrú sem fær hann til að sjá ekkert nema innri fegurð. Stuttu seinna verður Hal ástfanginn af Rosemary (Paltrow), sem hann sér sem gullfallega ljósku en er í raun rúmlega 200 kíló. Það sem gerist er óvænt að því leyti að myndin er ástarsaga með móral og allt saman. Af einhverjum ástæðum fannst mér það ekki pirrandi. Ekki misskilja mig, það er enn slatti af týpískum Farrelly-bröndurum um fatlað, ljótt og feitt fólk. En mynd sem hefði getað orðið einn stór fitubrandari reynist vera eitthvað allt annað. Og það er bara hið besta mál.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Spy Game
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Áratug eftir að Robert Redford kom Brad Pitt á kortið í myndinni A River Runs Through It leiða þeir félagar hesta sína aftur saman með góðum árangri, þó gæðin nálgist ekki fyrri myndina. Spy Game er hin ágætasta spennumynd, mjög fagmannlega gerð (enda Tony Scott við stjórnvölinn) og afar slétt og felld í öllu yfirbragði. Redford leikur CIA-manninn Nathan Muir, sem er einn dag frá því að fara á eftirlaun (klisja, en það pirraði mig ekki hér). Hann fær fréttir af því að ungur félagi hans, Tom Bishop (Pitt), hafi verið handtekinn í Kína fyrir njósnir. Myndin gerist í raun öll á fundi í höfuðstöðvum CIA þar sem Muir segir yfirmönnunum allt um Bishop. Þetta gerir aðstandendum kleift að hoppa um í tíma og um allan heim... frá Víetnam til Austur-Þýskalands og svo til Beirút. Það er í þessum flashback-atriðum sem myndin á sína bestu spretti, og þau eru mjög vel leyst af hendi. Handritið heldur uppi spennu nær allan tímann og Redford og Pitt leika vel hvor á móti öðrum. Það er líka talsverður húmor í myndinni, einkum í því hvernig Muir fer með skrifræðisaumingjana hjá CIA. Spy Game er samt ekki gallalaus mynd. Catherine McCormack finnst mér passa illa í þriðja aðalhlutverkið, ástkonu Pitts sem leikur fleiri skjöldum en ég gat talið. Myndin gerist frá 1972 fram til 1991, og Pitt breytist ekkert allan tímann. M. A. s. í Þýskalandi á 8. áratugnum var hann klæddur í nær nútíma tískuföt og með nýjustu klippinguna á meðan allir aðrir gengu í ullarvestum og með hár niður fyrir augu. Tónlistin var ekki góð, og Scott notast við of mikið af gimmick-skotum, hröðuðum skotum, litaðri filmu, o. S. frv. Þegar maður tekur meira eftir tækninni en myndinni er of langt gengið. Þrátt fyrir þessa galla er Spy Game traustur þriller sem flestir ættu að geta verið sáttir við.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The One
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Æ, æ. Ég fór á þessa mynd með miklar vonir, enda gáfu sýnishorn og auglýsingar til kynna að hér væri á ferðinni nokkuð frumleg og flott gerð mynd um þá þreyttu hugmynd, góður tvífari gegn vondum tvífara. Þar að auki leikur Jet Li aðalhlutverkið, og ég hef alltaf gaman að því að sjá hann leika listir sínar í bardagaatriðunum. Því miður er lítið annað en einmitt þau atriði sem hægt er að horfa á í þessari mynd, en samt er ekki jafn mikið um þau og ég hefði kosið. Söguþráðurinn skiptir minnstu máli, hann er bara til staðar til þess að leyfa tæknibrellumeisturum og Li sjálfum að búa til flott slagsmál þar sem Kínverjinn knái berst við sjálfan sig. Það er gaman að þessum atriðum, það er ekki spursmál. En því miður eru öll atriði án slagsmála alveg hreint grútleiðinleg, og í hvert skipti sem einhver opnar munninn veltur út eldgömul og margtuggin klisja sem veldur því að maður ranghvolfir augunum hvað eftir annað. Eftir stendur það sem einhver gagnrýnandinn hér kallaði Matrix fátæka mannsins. Það er ekki beint hrós og ekki beint hörð gagnrýni heldur. The One hefði getað orðið hörkumynd, en svo fór sem fór. Sem betur fer bætti Not Another Teen Movie trailerinn skapið.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Monsters, Inc.
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Monsters, Inc. er fyrirtaks teiknimynd, sem hefði yfirleitt auðveldlega stolið titlinum besta teiknimynd ársins. Árið 2001 fær hins vegar grænt tröll að nafni Shrek þá nafnbót. Þrátt fyrir það er ekki hægt að þræta fyrir það að Monsters, Inc. er mjög góð mynd á nær allan hátt. Hugmyndin ein er nóg til að tryggja góða skemmtun: Öll skrímsli heims búa í stórborginni Monstropolis, þar sem þau lifa venjulegu lífi eins og ég og þú. Þeir framleiða orku með því að hræða lítil börn í okkar heimi og nýta öskrin sem þau framleiða. Þeir eru bestu skinn, og eru sjálfir dauðhræddir við börnin þar sem þeim hefur verið sagt að þau séu baneitruð. James P. Sullivan og Mike Wazowski (eineygt, grænt fyrirbæri - frábær hugmynd!) vinna við þessa orkuframleiðslu. Sá fyrrnefndi er besti hræðari fyrirtækisins, og Mike er aðstoðarmaður hans. John Goodman og Billy Crystal tala fyrir þá félaga og ég man satt að segja ekki eftir betri röddum í Disneymynd. Þeir eru vægast sagt ótrúlega fyndnir, og fá að vaða um víðan völl með vitleysunni sem veltur upp úr þeim. Steve Buscemi, sá trausti eðalleikari, talar fyrir aðalkeppinaut Sulleys, James Coburn talar fyrir yfirmanninn Waternoose, og Jennifer Tilly ljær kærustu Mikes rödd sína. Myndin nær að halda athygli þeirra smæstu sem og okkar sem eldri erum með því að halda uppi gríni sem aðeins þeir eldri skilja. Að sjálfsögðu er myndin óaðfinnanleg í útliti og enn einu sinni koma tækniundrin manni á óvart. Monsters, Inc. hirðir auðveldlega nafnbótina NÆSTbesta teiknimynd ársins.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Harry Potter and the Philosopher's Stone
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Já, já, já!!! Sem gallharður Harry Potter-aðdáandi gæti ég eiginlega ekki verið sáttari við kvikmyndaútgáfuna, sem er strax á góðri leið með það að verða ein tekjuhæsta bíómynd allra tíma. Bækur J. K. Rowling eru eitthvað það besta sem ég hef lesið undanfarin ár, sem útskýrir af hverju ég las allar 4 bækurnar á 5 dögum. Ég varð stressaður þegar ég frétti að Chris Columbus hefði lent í leikstjórastólnum þar sem hann er þekktur fyrir að bæta stórum sykurskammti í flestar sínar myndir (Mrs. Doubtfire, o. S. frv.) en sem betur fer fékk frú Rowling að halda fast í hann og stjórna flestu. Útkoman er í einu orði sagt yndisleg. Allt frá fyrstu atriðunum hjá Dursley-fjölskyldunni þar sem veslings Harry þarf að búa í kústaskápnum fram til lokaatriðisins á lestarstöðinni við Hogwarts er eins fullkomið og hefði getað orðið. Hinn ungi Daniel Radcliffe smellpassar í hlutverk Harrys, en bestur fannst mér rauðhausinn Rupert Grint í hlutverki Rons. Aðstandendur hefðu ekki getað fundið leikara sem fyllir jafn vel út í það sem Rowling skrifaði. Fyrir utan þessa tvo er myndin stútfull af bestu leikurum Breta, sem ljá myndinni enn meiri virðuleika: Richard Harris, Maggie Smith, Robbie Coltrane, Zoe Wanamaker, John Hurt, Ian Hart, Fiona Shaw, Richard Griffiths, Emma Watson sem Hermione, og ekki síst Alan Rickman, sem er fullkominn sem hinn ógeðfelldi Snape. Þetta er einhver besta bíóreynsla sem ég hef upplifað, og 153 mínútur hafa aldrei liðið jafn hratt. Þessa verða allir að sjá, þó ekki væri nema til að upplifa töfra kvikmyndanna, sem hefur vantað í bíó í ansi langan tíma. Eins og Ron segir: Brilliant!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Thir13en Ghosts
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er gaman að sjá að Warner Bros. hefur ákveðið að halda aðeins í hefðina og halda áfram að endurvinna gömlu B-hrollvekjurnar eftir William Castle frá 6. og 7. áratugnum. Fyrir tveimur árum fékk House on Haunted Hill endurvinnsluna með misgóðum árangri, en þar sem Robert Zemeckis og Joel Silver standa að baki nýja Dark Castle framleiðslufyrirtækinu hefur verið gerð önnur tilraun. Í þetta sinn er myndin 13 Ghosts, sem Castle gerði 1960, valin til uppfærslu. Sagan segir frá nær gjaldþrota ekkjumanni með tvö börn og barnapíu sem fær einn daginn þær fréttir að gamall sérvitur frændi hans hafi dáið, og í kjölfarið eigi hann að erfa allar hans eigur. Það kemur í ljós að frændinn átti risastórt hús úr gleri, og þar geymdi hann alla þá muni sem hann sankaði að sér um ævina. Verst var að honum þótti einna skemmtilegast að safna að sér draugum og fanga þá. Þegar fjölskyldan mætir á staðinn ásamt verulega undarlegum draugasafnara (Matthew Lillard) fer allt til fjandans þar sem þau leysa draugana úr prísund sinni, og þeir eru allt annað en ánægðir með gang mála. Myndin er verulega hrollvekjandi og manni bregður oft mjög óþægilega. Það er væntanlega ætlunin svo það telst vera af hinu góða. Tæknibrellurnar eru mjög vel gerðar og það var greinilega engu til sparað þar. Leikmyndin er líka alveg einstök. Húsið er algjört listaverk, og ef ekki væri fyrir snobbið hjá akademíunni myndi ég persónulega vilja sjá Óskarstilnefningu fyrir þá vinnu. Leikurinn er ekki beint aðalmálið í svona mynd. Lillard er bráðfyndinn að venju og hann stelur myndinni. F. Murray Abraham ofleikur eins og hann eigi lífið að leysa, og það gengur ágætlega upp. Shannon Elizabeth og Tony Shalhoub gera lítið annað en að vera hrædd og hlaupa um, og rapparinn Rah Digga er snilld sem barnfóstran Maggie. Það er hálfundarlegt að sjá manneskju eins og Embeth Davidtz, sem hóf ferilinn í Schindler's List, í svona mynd. 13 Ghosts er í heildina séð óvenju flott gerð B-mynd, fyndin og hrollvekjandi til skiptis. Fínasta afþreying á köldu, dimmu vetrarkvöldi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
K-PAX
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það gerist æ sjaldnar þessa dagana að maður gengur út úr bíósalnum og hugsar með sér: Djöfull var þetta góð mynd! Þetta var nákvæmlega það sem ég hugsaði eftir að hafa séð K-PAX, eina langbestu mynd ársins hingað til. Það er ekki síst að þakka Kevin Spacey, sem er að mínu mati snillingur sem getur ekki slegið feilnótu. Hann er hreint út sagt stórkostlegur í þessari mynd, og getur farið að búa sig undir Óskarstilnefningu í febrúar næstkomandi, hvort sem það verður fyrir þessa mynd eða The Shipping News. Hann leikur Prot, sem er sendur á geðsjúkrahús eftir að hann segist vera geimvera frá K-PAX. Hann er sendur til geðlæknis (Jeff Bridges) í meðferð, en smám saman kemur í ljós að Prot gæti meira en vel verið sá sem hann segist vera. Hann sér útfjólublátt ljós, getur útskýrt hreyfingar fjarlægra pláneta, og virðist geta breytt lífi fólks í kringum sig án þess að lyfta litla fingri. Hann hefur jákvæð áhrif á alla sem hann kemur nálægt, og læknirinn sjálfur er síður en svo undantekning þar. Hann fær Prot á heilann, og verður að komast til botns í málinu áður en sjúklingurinn fer aftur til K-PAX. Ekki beint flóknasti söguþráður allra tíma, en þessi mynd er alveg einstaklega vel gerð. Hún verður aldrei væmin og heldur manni við efnið allan tímann. Það spillir ekki fyrir að gamla góða Ísland kemur aðeins við sögu. Eins og áður sagði er Spacey ótrúlegur, sem fyrr. Þessi maður getur tekið hvaða hlutverk sem er og fengið einhvers konar verðlaun fyrir það. Bridges gæti vel átt von á tilnefningu sjálfur. Hann er að skila sínu besta í mörg ár hér, og er ekki ókunnur þessum efnivið eftir að hann lék í Starman (1984). Leikstjórinn Iain Softley (Backbeat, Wings of the Dove) þarf lítið að gera með svona gæðaleikara. Tónlistin eftir Edward Shearmur er mjög óvenjuleg fyrir svona mynd, og er satt að segja frábær. Þessi mynd fær mann til að trúa að Hollywood geti enn gert góðar myndir. Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir það ekki máli hvort Prot er geimvera frá K-PAX eða bara óvenjulegur geðsjúklingur; á hvorn veginn sem er gerir hann það sem hann þarf að gera. Ef ekki væri fyrir endi sem ég er ekki 100% sáttur við fengi þessi mynd fullt hús.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Training Day
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég er með það á hreinu að ég er í minnihlutahópi hér, en ég var alls ekki jafn yfirgengilega ánægður með þessa mynd og margir hafa verið. Fólk hérna vestan hafs hefur reyndar verið á skiptri skoðun með þessa mynd. Margir segja hana vera það besta sem sést hefur hingað til á árinu, á meðan aðrir sjá bara svona la-la spennu-ádeilu með misjöfnum árangri. Það er óneitanlega margt gott við myndina. Sagan er traust og handrit David Ayer á hrós skilið. Leikstjórinn Antoine Fuqua (The Replacement Killers) skilar af sér mynd sem er ábúðarmikil á að horfa. Kvikmyndataka og tónlist eru mjög áhrifamikil og gera margt gott fyrir myndina. Ádeilan er líka tímabær, enda hefur lögreglan í Los Angeles sætt gífurlegri gagnrýni undanfarið fyrir mikla spillingu. Ethan Hawke, sem hefur ekki verið mikið á hvíta tjaldinu undanfarin ár, fer á kostum í hlutverki nýliðans sem veit ekki hvort hann á að fljóta með spilltri löggunni sem hefur framtíð hans í hendi sér eða fylgja eigin sannfæringu og láta yfirvöld vita af framferði félaga síns. So far so good, eins og þar segir. Það sem dregur myndina niður er enginn annar en Denzel Washington, að mínu mati. Ég hef lengi verið aðdáandi Denzels, enda er hann óneitanlega einn besti leikari samtímans. Undanfarið hefur hins vegar borið á einhvers konar sjálfumgleði hjá honum, sem tengist endalausri krossferð hans til að eignast eitt stykki Óskarsverðlaun fyrir bestan karlleik í aðahlutverki. Hann á eina styttu heima hjá sér, fyrir aukahlutverk í Glory (1989). En það hefur ekki farið fram hjá neinum undanfarin ár að Denzel vill fá stóru styttuna, hvað sem það kostar. Hann hefur valið hlutverk sem gulltryggja honum tilnefningu (t. D. The Hurricane). Hann er hættur að leika MEÐ öðrum leikurum og er farinn að leika YFIR þeim. Í Training Day gerir hann þetta einu sinni enn, núna með því að leika gegn týpu (hann hefur aldrei verið vondi kallinn áður), sem er traust uppskrift að tilnefningu. Þetta er farið að pirra mig vægast sagt, og ég tók hann aldrei trúanlegan sem siðblinda löggu vegna þess að hver einasta sena er sniðin fyrir hann til að sýna akademíunni. Ég var líka ósáttur við það hvernig myndin endaði, og það truflaði mig líka hvernig Fuqua tróð söngvurum og röppurum í annað hvert hlutverk (Macy Gray, Snoop Dogg, Dr. Dre). En eins og ég segi, ég er örugglega í minnihluta, og það verður bara að hafa það. Njóti aðrir vel.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
From Hell
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

From Hell er ein best gerða mynd ársins hingað til. Þar sem árið hefur verið afburða slakt hvað varðar góðar kvikmyndir hingað til er það gott fyrir sálina að sjá bíómynd sem er vitsmunaleg þrátt fyrir efniviðinn, vel leikin, óvenjuvel skrifuð, og leikstýrt af miklum móð af þeim Hughes-bræðrum, Allen og Albert. Þeir félagar hafa hingað til haldið sig við svokallaðar svertingjamyndir; eftir þá sitja Menace II Society og Dead Presidents. Margir gætu haldið að það væri undarlegt fyrir þá að gera allt í einu mynd sem gerist í London á tímum Viktoríu drottningar (1888, nánar tiltekið), en þeir sem þekkja til sögu þessa tíma geta séð margt líkt með honum og fátækrahverfum bandarískra stórborga á síðasta áratug. Sagan af Jack the Ripper er mjög gott dæmi um félagsleg vandamál þessa tíma. Lengi vel trúði því enginn að menntaður maður gæti staðið að morðunum. Ýmsir voru á þeirri skoðun að fyrst hann dræpi bara hórur skipti engu máli að finna hann. Og enn aðrir vildu kenna gyðingum, sem voru tiltölulega nýkomnir til Englands í stórum stíl, um hörmungarnar. Aðstandendum til mikils hróss tekst þeim mikið til að halda í þessar sögulegu staðreyndir. Allar persónurnar í myndinni voru í rauninni til, þó svo þeim sé breytt aðeins til að gera myndina aðgengilegri. Johnny Depp leikur lögreglumanninn Abberline, sem er nokkurn veginn Ichabod Crane (persóna hans í Sleepy Hollow) á dópi. Honum er falið að rannsaka morðin frægu, og hann lendir upp á kant við yfirmenn sína, jafnt sem frímúrara og konungsfjölskylduna; þeir hópar hafa lengi vel verið bendlaðir við morðin. Hann kynnist Mary Kelly (Heather Graham með furðugóðan breskan hreim), portkonu með gullhjarta, og samband þeirra verður rauði þráður myndarinnar. Gæðaleikararnir Robbie Coltrane og Ian Holm eru einnig í stórum hlutverkum. Hughes-bræður gera vel hér. Sviðsmyndin er mjög vel heppnuð, og tónlistin er jafnframt óaðfinnanleg. Myndin er mjög hrottafengin og blóðug á köflum, enda var Kobbi kallinn ekki beint snyrtilegasti morðingi allra tíma. Pottþétt mynd, bæði fyrir spennumyndafíkla og áhugamenn um söguna af Kobba kviðristu.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Corky Romano
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eins og Chandler Bing myndi segja: Can you say piece of shit? Ég vil fá endurgreitt!! Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum á þetta sorp.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Last Castle
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Munið þið eftir lokaatriðunum í A Few Good Men og Crimson Tide? Þar sem aðalhetjurnar snúa sér við í lokin og heilsa að hermannasið meðan fiðlurnar eru á fullu undir, og allir sem ekki eru Ameríkanar blindaðir af föðurlandsást teygja sig í ælupokann og láta vaða? Ímyndið ykkur að þessar senur séu teygðar út í rúmlega tvo tíma og þá er uppskriftin að The Last Castle komin. Ég þarf varla að taka fram að ég er ekki einn af þeim sem kunna að meta svona kvikmyndir, og í fyrsta sinn á ævinni íhugaði ég alvarlega að standa upp og ganga út í miðri mynd. Það er alltaf vont að lenda á svona myndum, og enn verra þegar maður býst ekki við því. Hvernig í ósköpunum stendur á því að Robert Redford og James Gandolfini, tveir stórgóðir leikarar, láta hafa sig út í svona skelfingu? Lesa svona menn ekki handritin fyrirfram? Hugmyndin er að upplagi góð, en myndin er gerð formúlukennd, einfeldningsleg og væmin til að skammta henni betur ofan í ameríska áhorfendur. Redford leikur herforingja sem er sendur í fangelsi eftir að hann óhlýðnast skipun. Gandolfini stjórnar fangelsinu með harðri hendi og ber enga virðingu fyrir lífi eða limum fanganna. Við vitum að hann er vondi kallinn af því hann hlustar á Salieri en ekki Mozart, notar gleraugu sem eru ekki tísku og er með dökkt hár. Við vitum að Redford er góður af því hann er ljós yfirlitum, hann talar hægt og rólega og er góður við lítilmagnann. Lítilmagninn er gerður að málhöltum aumingja svo við vitum að hann er örugglega lítilmagninn, ef það skyldi fara fram hjá okkur. Það hefði verið hægt að byggja upp mjög áhugaverða sálfræðibaráttu á milli mannanna tveggja, en aðstandendur gera meira úr því að blása upp heiður, föðurland og þar fram eftir götunum. Úr verður ekkert nema algjört klúður. Hæfileikum Redford og einkum Gandolfini er sóað, og Mark Ruffalo (snilldargóður í You Can Count On Me) og Delroy Lindo hafa lítið að gera. Stjörnuna fá Clifton Collins (Traffic) fyrir mjög góða frammistöðu í hlutverki lítilmagnans Aguilar og kvikmyndatökumaðurinn, sem fyllir myndina með flottum skotum og sjónarhornum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Joy Ride
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Enn einu sinni borgaði það sig að gera sér litlar sem engar væntingar áður en ég fór í bíó. Joy Ride er mynd sem hefur safnað ryki í rúmt ár hjá 20th Century Fox. Fyrst fékk hún hinn stórundarlega titil Squelch en eftir að hún var endurskírð Joy Ride er hún búin að missa af a. M. k. 3 áætluðum frumsýningardögum. Yfirleitt er svona ferill ekki góðs vísa, svo það var af góðum ástæðum sem ég bjóst ekki við miklu. En þessi litla mynd kom mér skemmtilega á óvart. Leikstjórinn John Dahl er í nokkru uppáhaldi hjá mér, enda gerði hann gæðamyndirnar Red Rock West og The Last Seduction. Hann tekur handrit sem er í raun mjög einfalt og gerir úr því spennuþriller sem tekst að bregða manni mjög oft, og ekki bara með ódýrum brellum sem eiga lítið skylt við söguþráðinn. Joy Ride segir frá tveimur bræðrum (Paul Walker og Steve Zahn) sem gera grín að vörubílstjóra í gegnum talstöð. Grínið snýst upp í alvöru þegar bílstjórinn drepur saklausan mann og ákveður að hefna sín á bræðrunum fyrir grikkinn. Inn í málið blandast vinkona þeirra (Leelee Sobieski) og saman leggja þau á flótta undan brjálæðingnum. Ekki beint frumlegasta plott allra tíma, en Dahl gerir þetta vel. Orðið sem lýsir myndinni best er creepy. Myndin er mjög mjög mjög creepy. Manni líður hálfóþægilega allan tímann. Það er talsvert afrek núorðið. Ég hef lítið álit á Paul Walker, en þetta er sennilega hans skásta frammistaða. Sobieski er ekki beint skutlan sem hún á að vera, og ég þoli ekki röddina, en hún fellur ekki í þá gryfju að gera stelpuna að aumingja sem getur ekkert án strákanna. Zahn er einn áhugaverðasti leikari ungu kynslóðarinnar og hann er stórskemmtilegur hér að venju. Hann stelur myndinni auðveldlega. Joy Ride er óvænt skemmtun, og það er hið besta mál. Þetta er mynd sem maður þarf að sjá í fullum sal með öskrandi fólki. Hún er enn betri þannig.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Zoolander
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ben Stiller er misskilinn snillingur. Hann þjáðist meirihluta síðasta áratugar út af þessum misskilningi, þar sem fólk náði eiginlega ekki húmornum í The Ben Stiller Show (snilld sem hann gerði fyrir MTV 1992, held ég), Reality Bites, The Cable Guy og Mystery Men. En svo gerðist það að bíógestir urðu aðeins gáfaðri og fólk fór að skilja Stiller-húmorinn. Af þeim ástæðum fékk Stiller að gera þessa mynd, sem er eiginlega litla barnið hans. Stiller fann upp Derek Zoolander fyrir VH1 Fashion Awards árið 1996 og hann hefur komið fram í stuttmyndum þar á hverju ári síðan. Zoolander hefur nú fengið sína eigin mynd, og Stiller notar tækifærið til að fara á kostum. Derek er frægasta karlkyns fyrirsæta heim. Því miður er hann er líka mesti hálfviti sem fæðst hefur á þessari jörð. Hann er elskaður, dáður og dýrkaður en svo fer að stjarna hans fer að síga. Nýliðinn Hansel (Owen Wilson) fer að skyggja á hann og Derek lendir í tilvistarkreppu. Einmitt þá rænir tískuhönnuðurinn Jacobin Mugatu (Will Ferrell... alltaf helvíti fyndinn) honum og heilaþvær til að myrða forsætisráðherra Malasíu, sem vill hækka lágmarkslaun barna og þar með setja tískuiðnaðinn á hausinn. Þessi beinagrind er allt plottið en það þarf ekki meira, því Stiller fyllir inn í með frábærri frammistöðu. Hann var fæddur til að leika Derek Zoolander. Röddin, svipirnir, og heimskupörin eru alveg hreint óborganleg. Hann ræður ríkjum hér sem sést á því að eiginkonan Christine Taylor og pabbi gamli, Jerry Stiller, eru í öðrum aðalhlutverkum. Stiller á greinilega nógu marga vini í bransanum til að þeir skjóti upp kollinum í gríni. Þar á meðal eru Winona Ryder, David Duchovny, David Bowie, Milla Jovovich, Billy Zane, Natalie Portman, Cuba Gooding Jr, Christian Slater, Jon Voight, Vince Vaughn og svo mætti lengi telja. Zoolander er 100% vitleysa út í gegn, og þessa dagana er mjög gott að sjá eitthvað sem fær mann til að hlæja. Þrátt fyrir að hafa séð myndina í minnsta og versta bíósal allra tíma gekk ég sáttur út. Stiller og Wilson eru frábærir sem Derek og Hansel - tískukeppnin ein er miðans virði. Ekki búast við neinu gáfulegu hér, farið bara og hlæjið.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Joe Dirt
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég verð því miður að vera ósammála honum Þórmundi, mínum gamla góða vini, og gefa Joe Dirt hálfa stjörnu. Ég veit ekki; ég hef ágætis aulahúmor. Mér fannst Scary Movie frábær og Scary Movie 2 fannst mér m. a. s. allt í lagi. En þetta er botninn, það er ekki spurning. Ég er talsverður David Spade-aðdáandi og varð fyrir miklum vonbrigðum. Hann finnur ekki upp á neinu nýju hér fyrir utan hárkollu og viðbjóðslega skeggdruslu. Það er næstum því sársaukafullt að sjá hinn kaldhæðna Dennis Miller og snillinginn Christopher Walken þjást í þessu drasli. Það er alveg merkilegt að það fáist enn peningur í Hollywood til að búa til svona drasl. Það hefði verið hægt að fæða mikið af hungruðu fólki með fjármununum sem fóru í þetta sorp. Sparið peninginn þar til þetta kemur út á myndbandi og setjið frekar 800-kall í Rauða kross-söfnunarbauk eða eitthvað.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
North by Northwest
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er alltaf góð hugmynd að hlamma sér í sófann til að horfa á gamla, góða Hitchcock-mynd. Eftir að kvikmyndaverin fóru að gefa þær út á DVD er jafnvel enn betra að horfa á þessar gömlu perlur. Diskarnir eru fullir af fróðlegum heimildamyndum um gerð myndarinnar, viðtölum við leikara og aðstandendur, og m. A. s. bráðfyndin sýnishorn (trailers) þar sem Hitchcock sjálfur spjallar við áhorfendur í gríntón og segir þeim frá nýjustu myndinni sinni. North by Northwest er ein af þekktustu myndum meistarans, enda engin furða þar sem hún nálgast fullkomnun. Myndin er gerð eftir handriti snillingsins Ernest Lehman og blandar fagmannlega saman öllum hinum klassísku viðfangsefnum Hitchcocks - spennu, húmor, rómantík, nýjungum í kvikmyndagerð, hversdagslegri karlhetju og dularfullri kvenhetju. Að þessu sinni er sagt frá Roger Thornhill, manni sem dags daglega vinnur í auglýsingabransanum en lendir í því að fúlmenni nokkur halda að hann sé leyniþjónustumaður á hælum þeirra. Eftir að þeir klína á hann morði í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York hefst eltingaleikur yfir landið þvert og endilangt; til Chicago og S-Dakota. Cary Grant leikur Thornhill og sjarminn lekur af honum sem endranær. James Stewart hefði sennilega passað betur í hlutverkið, en Grant stendur sig með prýði. Kynþokki hinnar gullfallegu Evu Marie Saint (Hitchcock var víst veikur fyrir sætum ljóskum) gæti brætt hvern sem er og hún fer frábærlega með hlutverk hörkutólsins Evu Kendall. Hinn einstaki James Mason fer með hlutverk illmennisins af miklum móð, og röddin er nóg til að fylla mann hrolli. Martin Landau er jafnframt í einu hlutverkanna og það er gaman að sjá hann ungan og sprækan í hlutverki sem maður er óvanur að sjá hann í. Tónlist Bernards Herrmann gefur myndinni óhuggulegan blæ, og tæknivinnan sem er notuð bæði í flugvélaatriðinu ódauðlega jafnt sem á Mt. Rushmore er löngu á undan sinni samtíð. Sérlega góð mynd og óneitanlega ein af 5 bestu myndum Hitchcocks. Skylda fyrir alla sem þykjast hafa gaman að góðu bíói.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
A.I. Artificial Intelligence
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það eru liðnir rúmlega tveir mánuðir síðan ég sá A. I. og ég er enn ekki viss um hvað ég sá, hvað mér finnst um myndina, og hvort ég geti tjáð mig almennilega um það sem gerðist á skjánum. Myndin er nokkurn veginn samstarfsverkefni tveggja manna sem er óumdeilanlega á meðal stórkostlegustu kvikmyndagerðarmanna allra tíma, þeirra Spielbergs og Kubricks. Leikhópurinn inniheldur nokkra af bestu leikurum samtímans (Jude Law, Haley Joel Osment, Anthony Hopkins, William Hurt), og hugmyndin er án efa meðal þeirra frumlegustu sem hafa sést á hvíta tjaldinu. Útkoman er samt sem áður ekki alveg á þeim nótum sem ég bjóst við, að mínu mati. Skoðanir um myndina eru jafn margar og þær eru ólíkar, og ég fell nokkurn veginn í miðjuna. Mér finnst hún ekki vera meistaraverk eins og sumir segja, en ég þvertek jafnframt alfarið fyrir að hún sé ein stór mistök eins og aðrir halda fram. Fyrri hluti myndarinnar er sennilega það besta sem var á skjánum í sumar. Sagan af David, litla vélmenninu sem er alinn upp sem mannvera, er einstaklega mannleg og snertir mann gífurlega, eins og ætlunin var. Atriðið þar sem móðir Davids tekur ákvörðunina afdrifaríku er hreint út sagt ótrúlega átakanlegt. Leit Davids að bláu álfkonunni í föruneyti ástarvélmennisins Gigolo Joe er áhugaverð, og ádeilan kemst vel í gegn í atriðinu á íþróttavangnum. En síðustu 20-25 mínúturnar gerðu mig hér um bil brjálaðan. Ég veit ekki enn hvað í fjandanum þær áttu að þýða, og að mínu mati eyðilagði endirinn myndina. Spielberg er eflaust að reyna að koma einhverju gífurlega djúpu á framfæri, en ég næ engan veginn sambandi við hvað það á að vera. Það eina sem ég upplifði var pirringur og vonbrigði. Það var jafnframt ódýr truflun um miðbik myndar að láta Robin Williams blaðra sem teiknimyndafígúra sem spilar stórt hlutverk í leit Davids. Spielberg og Kubrick eru snillingar, en þeir eru mjög ólíkir leikstjórar. Stíll hvors manns passar ekki mjög vel við hinn, og því er eins og myndin sé tvær sögur úr sitthvorri átt. En ég verð að segja að Teddy er einstök uppfinning og einn frábærasti kvikmyndakarakter sem ég man eftir. Frances O'Connor er líka góð sem móðirin; hún nær að sýna allar þær tilfinningar sem hlutverkið gerir kröfur til. Þrátt fyrir allar skiptar skoðanir er A. I. kvikmynd sem allir ættu að sjá, bara til að upplifa ólíkegustu bíóreynslu undanfarinna áratuga.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
You Can Count on Me
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Enn einu sinni sannast það að bestu kvikmyndirnar sem koma frá Hollywood eru gerðar af leikstjórum sem leggja meiri áherslu á handrit en tæknibrellur, eru framleiddar af litlu óháðu kvikmyndaverunum, og eiga minnstan möguleika á því að slá í gegn á almennum markaði. You Can Count On Me uppfyllir öll þessi skilyrði, og er jafnframt ein af betri myndum ársins 2000. Leikstjórinn og handritshöfundurinn Kenneth Lonergan hlaut Óskarsverðlaunatilnefningu fyrir þessa lágstemmdu, ljúfsáru og mannlegu mynd og átti hana vel skilið. Sagan er í sjálfu sér einföld: Einstæð móðir í smábæ í New York-fylki tekst á við erfiðan bróður og dagleg vandræði í vinnunni. Sem betur fer er frásagnaraðferðin til fyrirmyndar, og maður hrífst óvænt með atburðarásinni. Óvænt flestum myndum sem maður sér þá finnur maður til með þessum karakterum og vill sjá hvað verður um þau. Það er eitt besta hrós sem kvikmynd getur fengið. Ekki er hægt að kvarta yfir leikurunum. Laura Linney, sem einnig fékk Óskarstilnefningu, er hreint út sagt frábær í hlutverki Sammy. Í fullkomnum heimi hefði hún gefið Juliu Roberts spark í rassinn á hátíðinni sjálfri. Mark Ruffalo, sem sló í gegn í þessari mynd, er jafnframt fyrsta flokks. Þrátt fyrir að leika karakter sem er gífurlega fráhrindandi og ósympatískur tekst honum að gera hann mannlegan og viðkvæman. Matthew Broderick, sem er aldrei betri en í svona litlum myndum (sbr. Election), er bæði bráðfyndinn og brjóstumkennanlegur um leið í hlutverki bankastjóra sem hefur óvænt áhrif á líf Sammy. Enn eitt Culkin-systkinið, Rory, gerir betur en eldri bræður hans með því að slá réttan tón í hlutverki sonar Sammy. You Can Count On Me er róleg og laus við öll verstu Hollywood-einkennin, og mun þar af leiðandi eiga erfitt með að rata í bíó á Íslandi. En þeir sem njóta þess að sjá vel skrifaðar og leiknar myndir sem þora að vera öðruvísi ættu að leita þessa uppi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Jay and Silent Bob Strike Back
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jay (Jason Mewes) og Silent Bob (Kevin Smith) eru ólíklegustu hetjur hvíta tjaldsins í langa tíð. Tveir aumingjar sem áhorfendur sáu fyrst í svart-hvítu snilldinni Clerks sem aukakaraktera eru nú búnir að eignast nógu marga áhangendur til þess að eiga sína eigin mynd. Þeir hafa skotið upp kollinum í fjölda mynda síðan Clerks, þ.á m. Chasing Amy, Dogma og Scream 3. Þeir eru afurð þeirra tíma þegar bíómyndir fóru að vísa meira í raunveruleika Hollywood og í aðrar bíómyndir, og eru sem slíkir hetjur bíónördanna sem halda uppi óteljandi bíósíðum á Internetinu... ekki að það sé eitthvað að því :) Því fór sem fór, og Kevin Smith (sem ég veit ekki hvort er búinn að selja sig Hollywood eða er enn beittur háðsádeiluhöfundur) hefur ákveðið að loka New Jersey-seríunni sinni (Clerks, Mallrats, Chasing Amy, Dogma) með lokaheimsókn til þessara tveggja aulabárða jafnt sem nær allra þeirra karaktera sem Smith hefur skapað í fyrri myndum sínum. Hugmyndin er einföld: Hollywood, nánar tiltekið Miramax, hefur keypt kvikmyndaréttinn að teiknimyndasögunni Bluntman & Chronic (sem skaut upp kollinum í Chasing Amy), og Jay og Bob eru vægast sagt ósáttir, enda eru þeir fyrirmyndirnar. Og ekki er betra að einhverjir litlir Internetaular eru að tæta þá félaga í sig á bíósíðunum. Það eina sem dugar: Fara til Hollywood og stoppa myndina. Á leiðinni treður Smith inn fleiri leikurum en sést hafa í bíómynd í fjöldamörg ár: Mark Hamill, Carrie Fisher, George Carlin, Shannen Doherty, Jason Biggs, James Van Der Beek, Chris Rock, Shannon Elizabeth, Eliza Dushku, Ben Affleck, Matt Damon, Jason Lee, Jamie Kennedy, Seann William Scott, Will Ferrell, Judd Nelson, Gus Van Sant, Wes Craven, genginu úr Scooby Doo, órangútan og þeim félögum úr Clerks. Þetta er mynd sem er óhrædd við að vísa í aðrar myndir, enda er hún afsprengi allra þeirra Kevin Smith-mynda sem til eru. Það er mjög gaman að sumum atriðunum, sérstaklega þegar Matt Damon og Ben Affleck ræða feril hvors annars á meðan þeir eru að leika í Good Will Hunting II og þegar Jay og Bob spjalla við Jason Biggs og James Van Der Beek sem leika þá félaga í Bluntman & Chronic-myndinni. Fleiri atriði ganga vel upp en Smith á ekki sínar fínustu stundir hér. Hann treystir of mikið á barnalegan og yfirgengilegan húmor sem á betur heima í Dude, Where's My Car? Hann hefur sýnt að hann getur skrifað gífurlega góð og beitt handrit (sjáið bara Dogma) og þ. A. l. finnst manni oft að hann sé að höfða til lægstu hvata bíógesta til þess að græða almennilega á mynd í fyrsta skipti. Það er hálf niðurdrepandi að sjá hann bregða fyrir sig prump-bröndurum enn og aftur. Jay and Silent Bob Strike Back er vel fyrir ofan meðallag sem gamanmynd, og góð leið til að kveðja þessa karaktera. En sem Kevin Smith-mynd stenst þessi mynd ekki þær kröfur sem maður gerði til hennar.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Rat Race
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jerry Zucker er loksins búinn að snúa sér aftur að því sem hann gerir best: Heilalausum gamanmyndum. Snillingurinn að baki Airplane! og Naked Gun-myndunum ruglaðist aðeins í ríminu um miðjan 10. áratuginn og gerði undarlegar myndir eins og First Knight, sem er ein tilgangslausasta mynd síðari ára. Að þessu sinni tekur hann grunnhugmyndina úr klassíkinni It's a Mad Mad Mad Mad World og snýr upp í enn vitlausari hópgrínmynd þar sem lítið annað skiptir máli en að fá áhorfendur til að hlæja. Að því leyti er hún ómengaðasta gamanmynd sumarsins, sem er ferskur blær í sjálfu sér. En sem sagt, sagan er sú að léttklikkaður eigandi spilavítis í Las Vegas velur sex manns af handahófi til að taka þátt í keppni frá Las Vegas til Nýju Mexíkó þar sem vinningshafinn hlýtur 2 milljónir dala fyrir. Og þá hefst gamanið. Handritið er ekki mjög sterkt í sjálfu sér en Zucker má þakka fyrir óvenju heilsteyptan og viðkunnanlegan leikhóp, sem bjargar nær öllum bröndurum fyrir horn. Þar eru fremst í flokki Mr. Bean sjálfur, Rowan Atkinson, ásamt Whoopi Goldberg, Jon Lovitz, Seth Green, Vince Vieluf (brjálæðislega fyndinn sem hálfmálhaltur lúði), Breckin Meyer, Amy Smart, Cuba Gooding Jr., Wayne Knight, Kathy Najimy og John Cleese. Þetta fólk gerir myndinni mjög gott, því þau fá mann til að hlæja að nær hverju atriði. Það ganga ekki allir brandararnir upp (lokaatriðið rétt sleppur fyrir horn), en það skiptir ekki of miklu máli því það er nóg fyndið að gerast á tjaldinu. Sjálfur hló ég mest að atriði sem viðkemur Benz-bifreið Hitlers og gömlum hermönnum; það var eina atriðið sem komst með tærnar þar sem Naked Gun og Airplane! hafa hælana. En Rat Race er góð endurkoma frá Zucker og það er vonandi að hann haldi áfram á sömu braut. Er ekki kominn tími á Airplane 3?
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei