Náðu í appið
Gagnrýni eftir:Sleepy Hollow
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Maestro Tim Burton snýr hér aftur og er komin í grátónuðu áferðina aftur eftir að hann skildi við hann þegar hann gerði Mars Attacks! árið 1996 og má segja að gamli góði stíllinn henti honum miklu betur. Áframhaldandi samstarf hans og hins fantagóða leikara Johnny Depp ber góðan ávöxt hér þar sem þeir eru báðir í essinu sínu. Leikmyndirnar er meiriháttar og allt er útfært eins og sönnum atvinnumönnum sæmir. Aukaleikararnir eru nánast allir þekktir og vel valdir inn í hlutverkin og má þá einna helst nefna hinn ofurfæra Ray Park (Darth Maul í Star Wars 1) sem hér leikur illmennið, hinn hauslausa hestamann, þ.e.a.s. þegar hann er ekki með höfuðið sem þá er leikinn af Christopher Walken sem er einkar ófrýnilegur. Hauslausi hestamaðurinn er eitt flottasta illmenni sem sést hefur lengi á tjaldinu og til að bæta glæsileika hans þá á hann það til að sveifla sverðinu sínu og alveg ÓTRÚLEGA svalan hátt áður en hann sneiðir af fórnarlömbum sínum toppstykkið. Myndin er í senn spennandi, fyndin, rómantísk og hreinlega bara besta skemmtun sem ég hef fengið í langan tíma. Ekki væri verra að fá eitthvað af svipuðum toga frá Burton einhvern tíman í nánustu framtíð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Insider
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Gífurlega sterk mynd sem heldur manni hugföngnum allan tímann þrátt fyrir að vera hæg. Ég verð að segja að eftir að ég sá Russell Crowe í LA Confidential þá leist ansi hreint vel á hann en nú er ég hreinlega farinn að halda upp á þennan stórbrotna leikara. Crowe túlkar hér aðalhlutverkið af þvílíkri snilld að ég átti varla til orð. Al Pacino er einfaldlega gulltrygging fyrir góðri frammistöðu og Christopher Plummer er feiknar góður sem fréttaskýrandi frækni Mike Wallace. Michael Mann leikstjóri sem áður hefur gert Síðasta móhíkanann og Heat lýsir hér vel djúpstæðum persónum og nær vel að halda myndinni við efnið í söguþræði sem auðvelt er að missa úr greipum sér. The Insider er týpisk mynd til að hljóta margar óskarstilnefningar en fá síðan ekki einn einasta óskar. Svipað dæmi og með Shawshank Redemption hér um árið. Þetta er ekki réttlátt.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Lock Stock and Two Smoking Barrels
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mynd sem að bíður Hollywood-soranum algjörlega byrginn og ber sigur hvað varðar leik, söguþráð og bara kvikmyndagerð yfirleitt. Myndin fjallar um fjóra félaga sem hyggjast gerast ríkir með því að fara og spila með 100000£ í póker þar sem einn þeirra er mikill sérfræðingur í því spili. Hann fer og ekki bara tapar hann öllu heldur stendur hann uppi með 500000£ í skuld við einn versta krimma bæjarins sem hefur það á orðspori sínu að hafa lamið mann til óbóta með 15 sentímetra löngu, svörtu gúmmítyppi. Þeir bregða þá á það ráð að ræna maríújanaræktendur sem að vinna fyrir ekki skárri krimma en jamaískan eiturlyfjabarón sem að kveikir í köllum sem að leyfa honum ekki að glápa á fótboltann. Inn í þetta blandast svo nágrannar félaganna fjögurra sem ætla að gera það sama og þeir, að ræna maríjúana kallana, ólukkusamur stöðumælavörður, tvær verðmætar tvíhlaupa haglabyssur, feitu klunnarnir sem fengnir eru til að ræna þeim, Bren-hríðskotabyssa, harðhentur handrukkari Vinnie Jones frv. Wimbledon- leikmaður og sonur hans. Hrein skemmtun út í gegn, frábær kvikmyndagerð. Vel hægt að líkja víð Pulp Fiction.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Small Soldiers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Væskilsleg ævintýramynd um leikfangafyrirtæki sem vill gera eitthvað til þess að ganga í augun á nýjum eiganda þess Denis Leary og hanna að hans ósk leikföng með gáfur og hreyfigetu. Útkoman eru hetjurnar í Úrvalssveitinni og vondu kallarnir Gorgonítarnir. Strákur í smábæ Gregory Smith kemst yfir seríu af báðum gerðum og kviknar þá á þeim. Þá kemur í ljós að leikföngin eru ekki eins og þeim er ætlað að vera. Úrvalssveitarmennirnir með Chip Hazard Tommy Lee Jones í fararbroddi, eru í raun morðóðir klikkhausar sem gera hvað sem er til þess að eyða Gorgonítunum sem eru rólegir og upplýstir pasifistar með Archer Frank Langella í fararbroddi. Í mannlegi þátturinn í þessari mynd er einkar illa heppnaður. Steindauðar og ómerkilegar persónur og slæmur leikur þar samfara. Denis Leary á reyndar smá syrpu í byrjun en svo hverfur hann á braut og sést ekki fyrr en í lokin þegar hann nær upp smá hláturshroku í áhorfendum en nær þó ekki að hjálpa umhverfinu. Dúkkurnar á annað borð eru einu spennandi persónurnar í myndinni. Þær eru algjörar andstæður við raunveruleikann þar sem hlutskipti þeirra áttu að vera víxluð og sama gildir þar um vinnubrögðin. Eftirlifandi leikarar The Dirty Dozen tala fyrir Úrvalssveitina og tjúllararnir úr This Is Spinal Tap tala fyrir Grogonítana. Sena þar sem Úrvalssveitin lífgar við einhvurjar BARBÍ- dúkkur er skemmtilega sjónrænt og vel gert svo og lokaatriðið þar sem þeir ráðast fram með risastóran her úr verksmiðjunni. Allt er þetta þó fyllt upp með væmni og klisjum hjá mannfólkinu. Hefði verið góð ef minni áhersla hefði verið lögð á fólkið.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Mask of Zorro
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mjög fín ævintýra-hasarmynd um mexíkósku frelsishetjuna Zorro sem leikinn er hér af þeim Anthony Hopkins og Antonio Banderas. Hopkins leikur aðalsmanninn Don Diego de la Vega sem bregður sér endrum og sinnum í svart dress til þess að koma alþýðunni til hjálpar. Einn góðan veðurdag kemst illmennið Don Rafael Montero að hinu sanna um de la Vega og handtekur jafnframt því að drepa eiginkonu hans og stela dóttur hans. 20 árum seinna sleppur hann út. Hann kynnist hinum unga Alejandro Murietta sem að honum finnst tilvalið að þjálfa sem Zorro. Myndin er einkar skrautleg og skemmtileg og sviðsmyndir eru frábærar. Hopkins fer fyrir góðum leikarahóp með mjög góðum leikurum og segir þeim sem halda að hann sé einungis dramtískur leikari ,,Sá hlær best sem síðast hlær'' því að hann er mjög kómískur og hlægilega kaldhæðnislegur. Antonio Banderas smellpassar inn í hlutverk Zorro hins unga og leikgleðin geislar af Catherine Zeta-Jones í hlutverki kvenhetjunnar. Utan um þetta allt saman heldur ný-sjálenski leikstjóri Martin Campbell sem síðast leikstýrði Bond-myndinni Goldeneye og er leikstjórnin í þessari mynd sjálfsörugg og gefur því myndinni betra tempó. Zorro '98 er hin besta skemmtun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
There's Something About Mary
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það má með sanni segja að þessi er sú alfyndnasta grínmynd sem komið hefur og mun væntanlega koma í langan tíma. Myndin segir frá Ted Stroehman sem leitar uppi æskuástina og ræður í verkið einkaspæjarann Pat Healy sem hefur uppá henni enn fellur fyrir henni. Samblandan af rómantík og kol-brjáluðum húmor gengur alveg 100% upp í myndinni og með bráðsnjöllum leik verður myndin vægast sagt frábær. Cameron Diaz leikur Mary sem dregur að sér hvern karlmanninn á fætur öðrum sem að slást svo heiftarlega um að enginn verður óskaðaður, þ.á.m. Ted leikinn af Ben Stiller, Pat Healy leikinn af Matt Dillon, Dom einstaklega ólukkusamur vinur Teds leikinn af Chris Elliot, arkitektinn Tucker sem ekki er allur þar sem hann er séður leikinn af Lee Evans og einnig kemur við sögu hin sólbrúna Magda leikin af Lin Shaye sem er kostulegasta persónan í myndinni ásamt hundspottinu hennar. Lin Shaye lék einnig leigusala Woody Harrelson í Kingpin sem var meiriháttar kvenskass og endurtekur hún hér leikinn. Húmorinn í myndinni leitar oftar en ekki á grá svæði eins og t.d. allir brandararnir tengdir fötluðum og spasstískum og einnig er farið útí eitulyfjaneyslu, dýramisnotkun og svo ekki sé minnst á hárgel og jah…. aðra líkamsvessa. En með öllu þessu hristir myndin svo duglega upp í manni að maður hlær allt frá upphafi til enda. Góða skemmtun
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Saving Private Ryan
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er óhætt að segja að mynd Steven Spielberg, Saving Private Ryan sé mynd ársins. Hún er meistaraverk í alla staði og valinn maður í hverju rúmi við framleiðslu. Myndin fjallar um hóp hermanna sem sendir eru stuttu eftir árásina á Omaha-strönd að leita að James Ryan sem er fastur aftan víglínanna. Ryan þessi missti alla þrjá bræður sína á einni viku í stríðinu og er þessi leiðangur sendur í þeim tilgangi að móðir þeirra fái aftur einn þeirra. Fyrir leitarhópnum fer John Miller höfuðsmaður Tom Hanks sem þarf að útskýra fyrir mönnum sínum allan tímann gildi þessa verkefnis en menn hans eru harði naglar og bera engann hlýhug til óbreytts Ryans. Þegar þeir finna Ryan neitar hann að afsala sér skyldu til að vernda föðurlandið og ákveður Miller að vera einnig um kyrrt og hjálpa herflokki Ryans að berjast gegn ofureflinu. Þegar maður er rétt sestur í sætið sitt þá byrjar myndin á einu svakalegasta atriði sem kvikmyndasagan hefur kynnst. Maður er gjörsamlega negldur niður og losnar maður ekki úr fjötrunum fyrr en myndinni er lokið og endar hún einnig á rosalegu atriði. Tom Hanks sýnir enn einu sinni að hann er einn besti leikari sem getið hefur í kvikmyndasögunni og túlkar hann John Miller meistaralega. Tom Sizemore er að sýna bestu frammistöðu sína á ferlinum og Matt Damon sem þrátt fyrir að koma ekki fram fyrr en undir lokin sýnir að hann er einn sá efnilegasti í bransanum. Þarna eru fjölmargir leikarar að leika sín fyrstu stóru hlutverk. Þeirra reyndastur er Edward Burns sem lék í The Brothers McMullen og She´s the One og leikur hann frábærlega, Adam Goldberg og Giovanni Ribisi sem báðir hafa komið fram í Friends-þáttum leika hér frábærlega vel. Einnig má sjá þá Dennis Farina og Ted Danson í smærri hlutverkum. Steven Spielberg leikstýrir meistaralega og í samvinnu við Janusz Kaminski kvikmyndatökumann láta þeir myndina í heimildamyndastíl með frábærum árangri, og með sögu og handrit Roberts Rodat gera þeir eitt af mestu meistaraverkum kvikmyndanna.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei