Frumsýning: Þetta reddast

Íslenska gamanmyndin Þetta reddast verður frumsýnd á föstudaginn næsta, þann 1. mars, í Sambíóunum.

Í tilkynningu frá Sambíóunum segir að hér sé á ferðinni bráðfyndin mynd sem blandar dramatískri atburðarás við svartan húmor og sannar að þegar botninum er náð er alltaf hægt að sökkva aðeins neðar.

Sjáðu stikluna úr myndinni hér fyrir neðan:

Þetta reddast er eftir Börk Gunnarsson sem bæði skrifar handrit myndarinnar og leikstýrir. Í aðalhlutverkum eru þau Björn Thors, Guðrún Bjarnadóttir, Jón Páll Eyjólfsson, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Halldór Gylfason, Ingvar E. Sigurðsson, Edda Björgvinsdóttir og Katla María Þorgeirsdóttir.

Hér segir frá blaðamanninum Villa sem hefur spillt hressilega fyrir sér með óhóflegri drykkju og er af þeim sökum kominn á síðasta séns, bæði í starfi og í sambandi sínu við kærustuna.

Til að bjarga málunum ákveður Villi að bjóða unnustunni í rómantíska dekurferð á Búðir þar sem hann vonar að íslensk náttúrufegurð og kyrrð muni leggjast vel í hana og kynda undir neistann í sambandinu.

Svo óheppilega vill til að á sama tíma og Búðaferðin er áætluð eru Villa settir úrslitakostir af ritstjóra sínum sem krefst þess að hann haldi upp í Búrfellsvirkjun og skrifi grein um svæðið og aðstæður þar, ella verði hann rekinn.

Villi ákveður því að slá tvær flugur í einu höggi og breyta Búðaferðinni í ferð upp í Búrfellsvirkjun, en áttar sig ekki á því fyrr en það er orðið of seint að háspennusvæðið við virkjunina er ekki beint vel til þess fallið að tendra rómantískar tilfinningar …

Aðalhlutverk: Björn Thors, Guðrún Bjarnadóttir, Jón Páll Eyjólfsson, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Halldór Gylfason, Ingvar E. Sigurðsson, Edda Björgvinsdóttir og Katla María Þorgeirsdóttir

Leikstjórn: Börkur Gunnarsson

Bíó: Sambíóin Álfabakka,Kringlunni, Akureyri og Keflavík

Aldurstakmark: 10 ára