Frumsýning: Admission

Sena frumsýnir gamanmyndina Admission á föstudaginn næsta, þann 5. apríl í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói Akureyri.

Myndin fjallar um konu sem starfar við að samþykkja eða hafna umsóknum um nám við Princeton-háskólann en lendir í vanda þegar piltur sem hana grunar að sé hennar eigin sonur sækir um.

Sjáðu stikluna úr myndinni hér fyrir neðan:

Í tilkynningu frá Senu segir að Admission sé bráðskemmtileg mynd með þeim Tinu Fey og Paul Rudd í aðalhlutverkum, en leikstjóri er Paul Weitz sem á að baki myndir eins og American Pie, About a Boy, In Good Company og Being Flynn svo einhverjar séu nefndar af mörgum góðum.


Portia Nathan vinnur við að fara yfir og meta umsóknir þeirra sem árlega sækja um skólavist í Princeton-háskólanum, en þeir eru mun fleiri en mögulegt er að koma að. Starfið er því vandasamt í meira lagi og um leið og Portia þarf að sýna ítrustu fagmennsku við matið þarf hún að standast gríðarlega pressu frá umsækjendum, enda vilja allir komast að og sumir beita alls kyns brögðum til að hafa áhrif á hina endanlegu ákvörðun. Eitt af því sem Portia þarf að forðast er að hygla þeim sem hún er persónulega tengd eða láta tilfinningar sínar hafa áhrif á valið. Á þetta reynir hins vegar verulega þegar Portiu fer að gruna að einn umsækjendanna sé í raun hennar eigin sonur sem hún hafði gefið til ættleiðingar strax eftir fæðingu á sínum tíma …

 

Fróðleiksmoli til gamans: 

Admission er byggð á samnefndri bók eftir rithöfundinn Jean Hanff Korelitz sem sjálf starfaði við Princeton-háskólann á árum áður við að fara yfir umsóknir umsækjenda og meta hverjir kæmust að og hverjir ekki. Það er því óhætt að segja að hún gjörþekki efnið frá fyrstu hendi.
Leikstjóri: Paul Weitz
Handrit: Karen Croner og Jean Hanff Korelitz (skáldsaga).
Aðalhlutverk: Tina Fey, Paul Rudd og Nat Wolff.
Frumsýnd: 5. apríl.
Hvar: Smárabíó, Háskólabíó og Borgarbíó Akureyri.