Fremja rán á Met Gala

Fyrsta plakatið fyrir þjófamyndina Ocean’s 8 var opinberað í gærkvöldi. Mikil eftirvænting er eftir myndinni en hún verður frumsýnd sumarið 2018.

Kvikmyndin er lausleg endurgerð á Steven Soderbergh-myndinni Ocean’s Eleven en er með leikkonum í öllum aðalhlutverkunum sem áður voru leikin af karlkyns leikurum. Þar fór George Clooney með hlutverk Danny Ocean, sem var leiðtogi hóps þjófa og svikahrappa, sem reyndu sig við stórt rán í Las Vegas.

Leikkonan Sandra Bullock bregður sér í hlutverk Debbie Ocean í þessari endurgerð en hún er systir hins þjófótta Danny. Myndin gerist í New York og fjallar um skipulagt rán sem konurnar átta ætla að fremja á Met Gala-samkomunni. Á þessari samkomu fer árlega fram fjáröflun og tískusýning. Þar má einnig sjá skærustu stjörnur heims ganga rauða dregilinn í sínu fínasta pússi.

Með hin sjö hlutverkin fara Cate Blanchett, Anne Hathaway, Mindy Kaling, Sarah Paulson, Awkwafina, Rihanna og Helena Bonham Carter.

Hér að ofan má sjá plakatið en þar sjást leikkonunar allar með sólgleraugu og greinilega tilbúnar í slaginn. Hægt er að stækka plakatið með því að ýta á það.