Foreldrum Catherine Zeta-Jones leist á sínum tíma ekkert á ákvörðun dóttur sinnar um að hætta í skóla 15 ára til að einbeita sér að leiklistinni.
Zeta-Jones vissi strax frá unga aldri að hún vildi verða leikkona og ákvað að leggja allt undir til að láta drauminn rætast.
„Þegar ég hætti í skóla 15 ára leist þeim eiginlega ekkert á blikuna og ég skil það vel,“ sagði welska leikkonan við tímaritið OK!.
„15 ára stúlka sem flytur til London til að leika. Þau voru áfram í Wales og hugsuðu um allar hætturnar og eiturlyfin. Ég þurfti að fylgja ákveðnum reglum en ég vissi að þetta vildi ég gera. Núna get ég ekki ímyndað mér ef ég þyrfti að horfa til baka og hugsa: „Ef ég hefði bara haft kjarkinn til að láta vaða þá hefði líf mitt getað orðið öðruvísi“,“ sagði hún.
Zeta-Jones sér væntanlega ekki eftir ákvörðun sinni því hún er ein þekktasta leikkona Hollywood og vann Óskarinn 2002 fyrir hlutverk sitt sem Velma Kelly í söngvamyndinni Chicago.
Hún leikur Dr. Victoria Siebert í sinni nýjustu mynd Side Effects sem fjallar um hætturnar í tengslum við lyfseðilsskyld lyf.