Mara í lyfjamóki

Óskarsverðlaunaleikstjórinn Steven Soderbergh er enn að senda frá sér nýjar kvikmyndir, þó svo að hann hafi lýst því yfir fyrir ekki svo löngu síðan, að hann ætlaði að hætta kvikmyndagerð og snúa sér að myndlist.

Nýjasta mynd hans heitir Side Effects og er sálfræðitryllir þar sem Rooney Mara leikur konu sem dregst inn í hættulegan leik með lækni sínum, sem leikinn er af Jude Law, og eiginmanni, sem leikinn er af Channing Tatum.

Komin er fyrsta stiklan úr myndinni, og má skoða hana hér að neðan.

Söguþráðurinn í myndinni liggur ekki alveg ljós fyrir, en í stórum dráttum fjallar myndin um Emily sem á í vandræðum með sjálfa sig, en líf hennar er að fara úr böndunum, og hún leitar til geðlæknis. Svo virðist sem vandamálin tengist eiginmanni hennar sem er laus úr fangelsi á skilorði, en lyfin sem Law lætur Emily fá hafa, eins og titill myndarinnar gefur til kynna, undarlegar aukaverkanir.

Myndin er væntanleg í bíó 15. mars  á næsta ári.