Foreldrakynlíf og Týndar stelpur

tyndu-stelpurSöfnun er hafin á Karolinafund fyrir eftirvinnslu á nýrri íslenskri bíómynd; Týndu Stelpurnar.

Sagan fjallar um tvær 14 ára gamlar stelpur sem verða vitni að morði. Þær byrja að rannsaka það upp á eigin spýtur og flækjast þannig inn í atburðarás sem þær ráða ekki við.

Leikstjóri myndarinnar er Lovísa Lára Halldórsdóttir en þetta er hennar fyrsta bíómynd í fullri lengd.

Týndu stelpurnar eru leiknar af Kolfinnu Þorgrímsdóttur og Sonju Rut Valdin, tveimur upprennandi leikkonum.  Kolfinna hefur vakið athygli sem fyrirsæta hjá Eskimo og tók einnig þátt í Ungfrú Ísland en þetta er fyrsta kvikmyndahlutverkið hennar. Sonja er vinsæll Snapchat-persónuleiki og heldur úti Snapchat reikningnum Sonjastory. Þetta er einnig hennar fyrsta kvikmyndahlutverk en hún hefur þó verið að leika síðan hún var í lítil.

Hér má skoða myndina á Facebook.

Tvenn verðlaun til Reykjavík Porno

Albert Halldórsson, aðalleikari kvikmyndarinnar A Reykjavik Porno eftir Graeme Maley, hlaut verðlaun sem besti leikari á Nordic International Film Festival kvikmyndahátíðinni í New York á dögunum.

porno-2

Arnar Þórisson hlaut aðalverðlaun fyrir kvikmyndatöku á sömu mynd.

Graeme Maley skrifaði handritið og leikstýrði og með önnur hlutverk fara Ylfa Edelstein og Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Íslenska framleiðslufyrtækið Vintage Pictures framleiddi ásamt Makar Productions í Skotlandi.

A Reykjavik Porno fjallar um ungan mann sem forvitnin leiðir í ógöngur sem hafa alvarlegar og óafturkræfar afleiðingar. Myndin gerist um miðjan vetur og myrkrið liggur yfir borginni þar sem Ingvar (Albert Halldórsson) leigir herbergi hjá konu sem munað hefur fífil sinn fegurri (Ylfa Edelstein). Hún hefur þróað með sér þráhyggju og áfengissýki og höndlar illa samverustundir Ingvars og kærustu hans, Ödu (Þuríði Blævi Jóhannsdóttir) upp í herberginu. Ada sýnir Ingvari vefsíðu í símanum sem gengur út á að foreldrar eru sýndir í kynlífsathöfnum, óafvitandi af upptökunum. Hann fyllist forvitni og byrjar að snuðra, en sá áhugi leiðir af sér keðju af slæmum atburðum sem soga hann stöðugt dýpra niður.

Myndin var valin inn á Kvikmyndahátíðina í Edinborg sl. sumar og Kvikmyndahátíðina í Gent í Belgíu en hún verður sýnd á Íslandi í vetur.

Nánari upplýsingar á vefsíðu myndarinnar. 

A Reykjavik Porno – the trailer from Eddie Dick on Vimeo.