Flottir "költ" titlar á Blu

Arrow Video gefur út flotta titla á Blu-ray í sumar og buddan hjá mörgum söfnurum mun vafalaust léttast aðeins.

Hryllingsmyndaunnendur geta farið að hlakka til því myndir eins og „Eaten Alive“, „Madman“, „Contamination“ og „Blood Rage“ fá kóngameðferð hjá Arrow. Um er að ræða algjöra myndræna yfirhalningu og magnið af aukaefni er sérlega rausnarlegt.

EATEN_ALIVE_2D_BD

„Eaten Alive“ (1977) er fyrsta myndin sem Tobe Hooper gerði eftir „The Texas Chain Saw Massacre“ (1974). Sú mynd hefur alltaf fallið í skuggann á „Texas“ og er í raun hálfgleymd. Ágætis DVD útgáfur komu út á sínum tíma en myndgæðin hafa alltaf verið í lakari kantinum þannig að væntanlega Arrow útgáfan er sérlega spennandi. Meðal aukaefnis á disknum er langt viðtal við Robert („Freddy Krueger“) Englund um viðburðarríkan feril sinn en hann er meðal leikara í „Eaten Alive. Einnig er nýr yfirlestur frá aðstandendum myndarinnar og fleira gott. Þessi kemur út 27. júlí.

MADMAN_2D_BD

„Madman“ (1982) er slægja sem gerist í óbyggðum og byggir hún á sömu flökkusögu og var innblásturinn að „The Burning“ (1981). Í grunninn er þetta sáraeinfalt en ungmenni í skógarferð verða fyrir barðinu á vitfirrtum bónda sem myrðir þau eitt af öðru. „Madman“ hefur þó alltaf verið hátt skrifuð hjá aðdáendum slægja og þykir hún búa yfir magnaðri stemningu sem og vel útfærðum dauðsföllum ungmenna í hefðbundnum „slægju-stíl“. Útgáfan hjá Arrow er sérlega flott en myndin fær svokallaða 4K yfirhalningu í myndgæðum, nýjan yfirlestur og 90 mínútna heimildarmynd um gerð myndarinnar ásamt fleiru. Þessi kemur út 3. ágúst.

Blood-Rage-BD

„Blood Rage“ (1987) er sérlega áhugaverð fyrir hryllingsmyndaunnendur en myndin var fullkláruð árið 1983 en kom ekki út fyrr en fjórum árum síðar. Hún kom og fór frekar hljóðlega en aðdáendur hafa alltaf vonast eftir góðri útgáfu en þurft að sætta sig við klipptar útgáfur á VHS og DVD og þeir einu sem gátu notið förðunarbrellnanna (sem þykja ansi góðar) voru þeir sem sáu hana í bíó á sínum tíma. Arrow veldur ekki vonbrigðum og hvorki meira né minna en þrjár útgáfur af myndinni koma út á disknum. Þær eru; „Blood Rage“, óklippta útgáfan af myndinni sem kemur út í fyrsta sinn eins og hún var sýnd í bíó; „Nightmare at Shadow Woods“, klippta útgáfan á VHS og DVD sem þó innihélt eitthvað myndefni sem sást ekki í upprunalegu útgáfunni og loks þriðja útgáfan sem inniheldur allt fáanlegt myndefni og setur saman í eina heildarútgáfu. Meðal aukaefnis er heimildarmynd um gerð myndarinnar og fleira sem á eftir að ljóstra upp. Þessi kemur út 25. ágúst.

Contamination

„Contamination“ (1980) eftir Luigi Cozzi er frábært dæmi um hvernig ítalir tóku hugmynd sem hafði reynst arðbær og gerðu svo sína eigin útgáfu. „Alien“ (1979) eftir Ridley Scott hafði umbylt hryllings- og vísindaskáldsagnageiranum svo ekki sé minnst á að raka inn seðlunum. Cozzi, sem aldrei gerði neitt sem teljast mætti frumlegt (sbr. „The Killer Must Kill Again“ (1975), „Starcrash (1978) og „Hercules“ (1983)), sauð saman þessa vitfirrtu ræmu um egg utan úr geimnum sem eru uppfull af banvænni sýru. Þessar ítölsku eftirlíkingar falla í þann hóp að teljast „vont“ sjónvarpsefni sem hægt er þó að hafa verulega gaman að. Alls staðar reynt að spara pening og það sést nánast í hverju atriði. Leikurinn er oftast mjög slakur en ódýrara var að hljóðsetja myndirnar eftir á og „dubbið“ lætur nú flesta líta illa út. En hvað um það; Arrow Video gefur „Contamination“ flotta útgáfu með nýjum yfirlestri, upptöku af samkomu Cozzi og aðalleikarans Ian McCulloch á ráðstefnu þar sem þeir sátu fyrir svörum um myndina og heimildarmynd um gerð myndarinnar. Einnig verður á disknum viðtal við Maurizio Guarini, hljómborðsleikara hljómsveitarinnar Goblin, um gerð tónlistarinnar fyrir myndina. Að lokum er svo spennandi aukaefni sem ber titilinn „Imitation is the sincerest form of flattery“ sem fjallar um þá hefð hjá mörgum ítölskum kvikmyndagerðarmönnum  að sækja efnivið sinn í stórmyndir frá Hollywood og reyna svo að búa til sínar eigin (og ódýrari) útgáfur af þeim.  Þessi kemur út 29. júní.

Cemetery

Að lokum má nefna myndina „Cemetery Without Crosses“ (1969) eftir Robert Hossein. Myndin var tileinkuð Sergio Leone en dollaraþríleikur hans var innblásturinn að þessum myrka og ofbeldisfulla vestra sem, að matri margra gagnrýnenda, er kominn tími á að endurmeta. Myndin hefur aldrei komið út á VHS eða DVD í Bandaríkjunum eða Bretlandi og því spennandi að sjá þessa á Blu-ray. Ítalski hryllingsmyndaleikstjórinn Dario Argento er skráður sem einn af handritshöfundum myndarinnar en Hossein fullyrðir að hann hafi ekki komið nálægt skrifunum. Einnig hefur Hossein sagt að sjálfur Sergio Leone hafi leikstýrt einu atriðanna í myndinni. Nýtt viðtal við Hossein er einmitt meðal aukaefna á diskinum en myndin kemur út 20. júlí.

Stikk: