Fjórða Jurassic Park-myndin á leiðinni?

Þetta er mín fyrsta frétt sem penni á Kvikmyndir.is, þannig að það er tilvalið að hún fjalli um verkefni sem tengist mínum uppáhaldsleikara.

Enn og aftur hefur farið af stað sá orðrómur um að í undirbúningi sé gerð fjórðu Jurassic Park-myndarinnar. Hann hefur poppað upp af og til síðustu átta og hálft ár eða svo, eða allt frá því Jurassic Park III kom út.

Nú hefur Joe Johnston, leikstjóri þriðju myndarinnar, enn og aftur kveikt eld í hjörtum risaeðlunörda veraldar með því að lýsa því yfir af miklu öryggi að fjórða myndin verði að veruleika, og það einhvern tíma á þessu árþúsundi, og ekki nóg með það, heldur sé jafnvel von á þremur myndum í viðbót, eða svo sagði hann í einu viðtalinu vegna nýjustu myndar sinnar, The Wolfman:

„Sko, Jurassic Park IV verður að veruleika. Og hún verður ólík öllu sem þið hafið séð. Hún brýtur sig frá fyrstu þremur myndunum – hún er í raun byrjunin í nýjum Jurassic Park-þríleik. Þetta verður gert á alveg nýjan hátt.“

Það er svosem allt gott og blessað, en pælingar um plott, tækninýjungar, risaeðlutegundir í nýju myndinni og allt slíkt getur beðið þar til búið er að svara einu spurningunni sem virkilega skiptir máli: Verður Sam Neill með?