Finnskur Chewbacca í Star Wars

Ýmsir hafa velt því fyrir sér sem séð hafa Chewbacca leikarann Peter Mayhew við ýmis tækifæri síðan Star Wars: The Force Awakens var frumsýnd á dögunum, hvernig hann hafi farið að því að framkvæma ýmis áhættusöm atriði í myndinni.

chewbacca

Leikarinn, sem leikið hefur hina kafloðnu og hávöxnu persónu í myndinni í 5 af 7 Star Wars myndum, hefur átt við hnjámeiðsli að stríða í nokkur ár. Margir hafa leitt getum að því að annar leikari framkvæmdi öll erfiðustu atriðin í myndinni. Business Insider vefsíðan greinir nú frá því að Joonas Suotamo, 29 ára finnskur körfuboltaleikmaður, hafi farið í gervi Chewbacca, í öllum hasaratriðum þar sem Chewbacca kemur við sögu.

Suotomo lék körfubolta fyrir Penn State frá 2005 – 2008 og síðar með finnska liðinu Espoo. Hann lærði leiklist í Penn State og hafði dreymt um að leika, en hæðin var honum fjötur um fót.

Þeir félagarnir eru ekki alveg jafn stórir – Mayhew er 2,20 metrar á hæð en Suotomo 2,10.

Hér má lesa umfjöllun Business Insider um málið og lesa viðtal við Suotomo.