Framtíð Terminator seríunnar hefur í dágóðan tíma verið óljós en eftir að fjórða myndin kom út var áætluð önnur trílogía. Það gekk hins vegar ekki út af allskonar eignarréttarlögsóknum og svo hjálpaði ekki að fyrirtækið sem framleiddi fjórðu myndina lýsti yfir gjaldþroti stuttu síðar. Eignarréttur seríunnar lá þá í lausu lofti í tvö ár og var m.a. planað á tímabili að framleiða teiknað óbeint-framhald að nafni Terminator 3000. Fyrr á þessu ári eignaðist hún Megan Ellison og fyrirtækið hennar Annapurna Films eignarréttinn að seríunni, í von um að gera tvær myndir í viðbót, með engum öðrum en Arnold Schwarzenegger í eftirdragi og leikstjóra þriggja (bráðum fjögurra) Fast and the Furious-mynda, Justin Lin.
Planað var að hefja framleiðslu seint árið 2012 en nú virðist sem að fimmta myndin annaðhvort tefjist eða fái nýjan leikstjóra. Það vill nefninlega svo til að Justin Lin stendur í augnablikinu í því ferli að leikstýra sjöttu Fast and the Furious myndinni og þarf því að segja sig frá Terminator myndunum tímabundið. Hann sagði þó, til að kvóta Tortímandann, að hann „myndi snúa aftur“, ef þau Ellison og Schwarzenegger nenna að bíða það er að segja. Vandinn er sá að það eru ein skilyrði í eignarréttar-samningnum: Eftir 35 ár mun allur réttur snúa aftur til upprunalega leikstjóra seríunnar, James Cameron, en það mun gerast árið 2018. Síðan til að bæta gráu ofan á svart er Ellison hvorki með handrit né handritshöfund eða jafnvel staðfest stúdíó til að bakka myndina upp, þó að nokkur hafa áhuga.
Satt að segja þá vona ég að a.m.k. ein mynd fái að sjá dagsins ljós, sérstaklega með Schwarzenegger í fararbroddi, enda þrátt fyrir að ekkert handrit er til staðar að svo stöddu, hefur hann dregið góðvin sinn Cameron inn á nokkra ‘brainstorming’ fundi.