Ferrell hættur við Reagan

ronald reaganVið sögðum frá því í gær að gamanleikarinn Will Ferrell myndi leika Ronald Reagan fyrrum Bandaríkjaforseta í nýrri gamanmynd sem er í bígerð.  Nú berast hinsvegar fréttir af því að Ferrell hafi hætt við þátttöku í myndinni, mögulega vegna óánægju fjölskyldu Reagans.

Myndin á að gerast við byrjun annars kjörtímabils forsetans, þar sem hann fer að þjást af vitglöpum ( Alzheimer ), og metnaðarfullur lærlingur í Hvíta húsinu fær það verkefni að sannfæra forsetann um að hann sé í raun leikari sem eigi að leika forsetann í bíómynd, en Reagan var frægur Hollywood leikari á yngri árum.

Ferrell, sem er 48 ára, staðfesti í dag föstudag, að hann hefði skoðað handritið og velt því fyrir sér að taka hlutverkið að sér og framleiða myndina, en hann hafi hinsvegar ákveðið að gera það ekki.

Fregnin af aðkomu Ferrell vakti mikla reiði hjá Reagan fjölskyldunni. Dóttir hans, Patti Davis, sagði við Page Six vefsíðuna: „Það er ekkert fyndið við Alzheimer. Það er hræðilegt fyrir fjölskyldur sem þjást vegna þess. [ … ] Þessi kvikmynd er illgjörn, ekki bara gagnvart föður mínum heldur milljónum manna sem hafa sjúkdóminn, og milljónum annarra sem annast þá sem þjást á hverjum degi.“

will ferrellHeimildarmaður Page Six sagði síðunni: „Þetta var ekki fullbúið verkefni af því að það var ekki búið að fjármagna það og enginn leikstjóri kominn um borð. Will hugsaði málið, en ákvað síðan að taka ekki þátt.“

Talsmenn leikarnas vildu ekki staðfesta að ákvörðun hans hefði verið vegna mótmæla fjölskyldunnar.

Ronald Regan dó árið 2004, 93 ára að aldri. Hann var forseti Bandaríkjanna frá árinu 1981 – 1089, og kom eins og frægt er orðið til Íslands í október árið 1986 og átti fund með leiðtoga Sovétríkjanna Mikhail Gorbachev, í Höfða.