Fellur fyrir vændiskonu – fyrsta stikla!

Fyrsta stiklan úr fyrstu mynd leikstjórans Peter Bogdanovich í 13 ár, She´s Funny That Way, er komin út, en myndin skartar stórum hópi þekktra leikara.

shes-funny-that-way-movie (1)

Í myndinni, sem fjallar um samskipti kynjanna, koma saman á ný þau Marley & Me leikararnir Owen Wilson og Jennifer Aniston, en auk þeirra leika í myndinni þau Imogen Poots, Kathryn Hahn, Will Forte og Rhys Ifans.

Wilson leikur kvæntan leikstjóra á Broadway sem verður ástfanginn af vændiskonu, sem Poots leikur, og hjálpar henni að ná frama sem leikkona.

Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í ágúst sl., en upphaflega var farið í gang með verkefnið á tíunda áratug síðustu aldar með John Ritter í aðalhluverkinu. Hætt var við verkefnið þegar Ritter dó langt fyrir aldur fram árið 2003. Bogdanovich skrifaði handritið sjálfur ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni Louise Stratten.

Myndin kemur í bíó 10. apríl nk.