Heimildir kvikmyndaritsins Variety herma að leikkonan, sem margir þekkja úr sjónvarpsþáttunum Felicity, sem sýndir voru við miklar vinsældir hér á Íslandi á sínum tíma, Keri Russell, sé um það bil að ganga til liðs við Star Wars: Episode IX, sem J.J. Abrams leikstýrir.
Russell og Abrams unnu síðast saman árið 2006 í myndinni Mission: Impossible III.
Sagt er að Star Wars hlutverkið krefjist þess af leikkonunni að hún muni þurfa að taka þátt í miklum hasarsenum. Russell er enginn nýgræðingur á því sviði, en hún hefur tekið þátt í háspennuatriðum í myndum eins og Mission: Impossible og Dawn of the Planet of the Apes sem og í sjónvarpsþáttunum The Americans, sem gerast á kaldastríðsárunum og fjalla um tvo sovéska leyniþjónustumenn sem búa í Bandaríkjunum undir fölsku flaggi.
Í Variety segir að Abrams og Lucasfilm hafi fundað með ýmsum leikkonum vegna hlutverksins á síðustu mánuðum, og ákveðið endanlega að ráða Russell í síðustu viku.
Abrams mun líklega bæta við sig tveimur leikurum til viðbótar áður en tökur myndarinnar hefjast í lok þessa mánaðar. Búist er við því að allir aðalleikararnir úr síðustu mynd, Daisy Ridley, John Boyega, Oscar Isaac og Adam Driver snúi aftur í hlutverkum sínum.
Abrams leikstýrði Star Wars: The Force Awakens,” og var beðinn um að snúa aftur til að leikstýra þessari nýju eftir að Jurassic World leikstjórinn Colin Trevorrow sagði sig frá verkefninu vegna listræns ágreinings við framleiðendur. Abrams kom í hans stað síðasta haust, og hefur síðan þá unnið að handritinu ásamt Chris Terrio.
Óvíst er að svo stöddu hvort að Russell verði í „góða“ eða „vonda“ liðinu, þ.e. liði uppreisnarmanna, eða með keisaradæminu illa.