Faðir Star Lord fundinn

Mowieweb vefsíðan greinir frá því að Kurt Russell ætli að funda með Marvel Studios, til að ræða mögulegt hlutverk í næstu Guardians of the Galaxy mynd. Um er að ræða hlutverk föður Star Lord, aðalpersónu myndarinnar.

star lord

Tökur á Guardians of the Galaxy Vol. 2 hefjast innan skamms en auk leikaranna í fyrri myndinni, þeirra Chris Pratt (Star-Lord), Gamora (Zoe Saldana), Dave Bautista (Drax the Destroyer), Bradley Cooper (Rocket Raccoon) og Vin Diesel (Groot), þá hefur bæst við aðeins einn nýr aðalleikari Pom Klementieff, sem sagt er að muni leika hlutverk Mantis.

Eins og sagði hér á undan gæti Russell orðið næsti nýi leikari til að fá hlutverk í myndinni, en í vel heppnaðri fyrstu myndinni, sem þénaði næstum 800 milljónir Bandaríkjadala í bíó um allan heim, var sagt frá því þegar faðir Peter bað sjóræningjaforingjann Yondu að ná í Peter og afhenda sér, en Yondu sveik það samkomulag, og ól Peter upp sjálfur ásamt ræningjagengi sínu, en Yondu sagði að faðir Peter sé skíthæll.

Leikstjórinn James Gunn hefur áður staðfest að faðir Peter muni koma fram í Guardians of the Galaxy 2, en að hann verði ekki sá sami og er í Marvel teiknimyndasögunum, J´son.

Myndin verður frumsýnd 5. maí, 2017.