Evrópsk kvikmyndahátíð í Bíó Paradís

Stockfish – evrópsk kvikmyndahátíð í Reykjavík verður haldin í Bíó Paradís dagana 19. febrúar til 1. mars 2015. Á hátíðinni verða sýndar 30 kvikmyndir sem hlotið hafa mikla athygli á hátíðum víða um heim. Allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í fjölbreyttri dagskrá hátíðarinnar. Þetta segir í fréttatilkynningu frá hátíðinni.

Von er á þekktum verðlaunaleikstjórum og öðru alþjóðlegu kvikmyndagerðarfólki hingað til lands, auk þess sem boðið verður upp á ýmsa viðburði, fyrirlestra og vinnustofur fagfólks í tengslum við hátíðina.

Þetta er í fyrsta sinn sem Stockfish – evrópsk kvikmyndahátíð í Reykjavík er haldin en hún byggir á grunni Kvikmyndahátíðar í Reykjavík sem stofnuð var 1978. Hátíðinni er ætlað annars vegar að höfða til fólks í kvikmyndagreininni og hinsvegar allra sem hafa áhuga á grósku alþjóðlegrar kvikmyndagerðar.

Stockfish – evrópsk kvikmyndahátíð í Reykjavík kynnir með stolti fyrstu fimm verðlaunakvikmyndirnar sem verða sýndar á hátíðinni – en samtals verða um þrjátíu kvikmyndir á efnisskránni.

Verðlaunakvikmyndirnar fimm eru:

Wild Tales

Wild-tales

Kvikmyndin er tilnefnd til Óskarsverðlauna í ár sem besta erlenda myndin, en hún keppti einnig til aðalverðlauna kvikmyndahátíðarinnar í Cannes 2014. Hún samanstendur af sex sjálfstæðum sögum sem allar tengjast ákveðnu hefndarþema. Blekkingar í ástum, draugar fortíðar, harmleikir og ofbeldi er meðal þess sem tekið er fyrir í sögunum, sem eru í senn grátbroslegar, kaldhæðnar og svartar.

Party Girl

PARTYGIRL6

Myndin vann tvenn verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2014. Auk þess var hún opnunarmyndin í “Un Certain Regard” flokknum á sömu hátíð. Kvikmyndin er frumraun þriggja ungra franskra leikstjóra og segir frá Angelique sem er sextugur barþjónn. Henni býðst tækifæri að snúa baki við villtu líferni þegar fastakúnni biður hana um að giftast sér.

Black Coal Thin Ice

BlackCoalThinIce1

Black Coal, Thin Ice vann Gullna Björninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín 2014. Sagan gerist í litlu bæjarfélagi í Norður-Kína árin 1999-2004 og fjallar um atburðarás sem fer í gang eftir að lík finnast í bænum. Hér er um að ræða spennutrylli sem er sveipaður dulúð, spennu og ástríðum. Mynd sem engin ætti að láta fram hjá sér fara.

Goodbye to Language 3D

GoodbyeToLanguage3d

Goodbye to Language 3D er nýjasta kvikmynd meistarans Jean-Luc Godard sem kominn er á níræðisaldur. Þetta er hans fyrsta mynd í þrívídd en eins og honum einum er lagið notfærir hann sér það á hátt sem enginn hefur gert áður. Myndin vann dómnefndarverðlaunin í Cannes 2014.

The Kidnapping of Michel Houellebecq

KidnappingOfMicheleHouellebecq1

Stórkostleg gamanmynd um ólátabelgi sem taka upp á því að ræna franska rithöfundinum Michel Houellebecq (sem leikur sjálfan sig) en hann endar á að gera þeim lífið leitt. Myndin vann handritsverðlaunin á Tribeca kvikmyndahátíðinni 2014, auk þess sem hún var tilnefnd sem besta kvikmyndin á sömu hátíð, en myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín 2014.