Endurræstur Chucky á hvíta tjaldið

Hryllingsdúkkur eru í tísku um þessar mundir, eins og sést glöggt á vinsældum Annabelle, djöfladúkkunnar úr The Conjuring myndaflokknum, sem er reyndar farinn að taka ýmis önnur hliðarspor, nú síðast með The Nun sem væntanleg er í bíó.

Þeir sem sáu Spielberg sýndarveruleikamyndina Ready Player One fyrr á árinu, muna kannski eftir einni frægustu hryllingsdúkku sögunnar, drápsdúkkunni Chucky, sem þar kom fram í gestahlutverki.

Og nú geta djöfladúkkuaðdéndur  brosað hringinn, því væntanleg er endurræsing á Chucky seríunni, eða Child´s Play.

Samkvæmt Collider vefsíðunni þá er framleiðslufyrirtækið MGM á bakvið málið, og framleiðendur trúðahrollsins It, David Katzenberg og Seth Grahame-Smith.

Í fréttinni er sagt frá því að handritið, sem ritað er af höfundi Kung Fury 2, Burton Smith, segi frá hópi unglinga sem á í höggi við mjög hátæknilega Chucky – dúkku. Leikstjóri ku vera Lars Klevberg.

Eitt er þó það sem gæti valdið þeim sem þekkja gömlu Child´s Play seríuna út og inn, og eru hreintrúarmenn í þeim efnum,  hugarangri, en það er að nýja myndin verður sú fyrsta sem ekki er samin af höfundinum sjálfum, Don Mancini, sem leikstýrði upphaflegu myndinni, sem og framhaldsmyndunum Seed of Chucky, Curse of Chucky og Cult of Chucky.

Án Mancini, og án Brad Dourif, sem hefur ljáð Chucky rödd sína í öllum fyrri myndum, þá virðist endurræsingin nú eiga greiða leið á hvíta tjaldið, en síðustu tvær myndir um þetta illræmda leikfang, hafa farið beint á VOD.

Þess ber að geta að MGM framleiddi upphaflegu Child´s Play frá árinu 1988, en allar framhaldsmyndirnar eftir það voru framleiddar af Universal.