Endurlit: The Incredibles

Engin Pixar-mynd er eins og The Incredibles. Flest allar kvikmyndir þeirra eru framleiddar sérstaklega fyrir yngri áhorfendurna og ná einnig til þeirra eldri með því að vera fáránlega vandaðar og mjög aðgengilegar. En The Incredibles virðist skrifuð og framsett með því hugarfari að hún sé aðallega ætluð eldri áhorfendum. Foreldrarnir eru settir í forgang og myndin leggur mikla áherslu á raunsæji, og þá sérstaklega persónutengt raunsæji. Myndin er frekar myrk undir yfirborðinu og hasarinn er hraður og hættulegur. Söguþráðurinn er þéttur og efnistökin eru klárlega í þyngri kantinum fyrir fjölskyldumynd.

Það er erfitt að lýsa hvað gerir The Incredibles verulega þroskaða án þess að spilla fyrir þeim sem hafa ekki séð hana, en tengt því tókst myndinni einnig að vekja upp mjög erfiða spurningu sem ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíman hugsað út í: „er myndin of þroskuð?“ Semsagt er hún að skjóta of hátt miðað við sögu fyrirtækisins og væntingar frá markaðsaðilum? Ég myndi segja “já”. En það er alls ekki slæmt, nema kannski fyrir þá yngri.

Ég man nefnilega eftir því þegar ég sá hana fyrst þá fannst mér frekar erfitt að melta hana með væntingar á bak við myndina í formi Little NemoA Bug’s Life, og Toy Story tvíleikinn. Jafnvel ef ég hefði verið með fyrrverandi verkefni Brad BirdThe Iron Giant, á bak við eyrað hefði ég samt ekki tekið henni sérstaklega hlýlega hvort eð er. Ég þekki ekki einu sinni til lítilla ættingja eða af afkvæma vina sem halda upp á The Incredibles- og hvað þá eins mikið og þeir fullorðnu.

Þannig ég myndi ekki kalla hana fjölskyldumynd eins og hina vanalegu sykursætu formúlumynd, heldur er þetta eins og fjölskyldumynd fyrir lengra komna. Alvarlegri fjölskyldumynd. Fyrir fjölskylduna sem langar í eitthvað meira bitstæðara og átakanlegra á persónulegu stigi til að horfa á og njóta saman. Myndin er lúmska lausnin við endurteknum og óáhugaverðum vídjókvöldum hjá fjölskyldum sem byrjaðar eru að fjarlægjast hvor öðru.

Líklegast gæti hún jafnvel komið sumum foreldrum á sama plan og börinn sín eða sett krakkana í skó foreldra sinna því myndin sínir ýmiss vandamál sem tengjast tilveru hvers og eins í trúverðugu ljósi. Hvort sem maður er fjölskyldufaðirinn, húsmóðirin, unglingurinn, eða litli íþróttaálfurinn. Kjarnafjölskyldan ætti allavega að fá ansi góða skemmtun úr The Incredibles og engin kvikmynd hefur tæklað ofurmennskuna eins og þessi- allavega ekki svona mannlega.

Persónurnar eru alveg yndislegar og þá sérstaklega hinar smærri þó aðalpersónurnar stela senunni í flestum tilfellum. Craig T. Nelson tekst að lifa sig vel í margskipt hlutverk Mr. Incredible og honum til móts er Holly Hunter (ég hélt fyrst að þetta væri Jodie Foster, án gríns)sem eignar sér skjáinn í hvert sinn sem hún stígur inn í rammann sem eiginkonan og móðirin Mrs. Incredible/Elastigirl. Yngri leikararnir sem fara með hlutverk afkvæma þeirra fá minni tíma til að vinna með en standa sig ansi vel.

Tvær persónur stela þó alltaf senunni og tekst þeim auðveldlega að vekja upp rétta stuðið á sekúndubroti. Ein þeirra er óþokkinn Syndrome, leikinn af Jason Lee, sem er orkumikill og sjálfmeðvitaður ofurhetjunörd en langar að toppa alla í kringum sig með stæl og baða sig í athyglinni. Hann fær frábærar línur og áhugaverða söguörk sem virðist örlítið innblásin af Hugo Strange úr Batman-heiminum, vel úthugsað og stórskemmtilegt illmenni. Seinni persónuna þarf varla að kynna, jafnvel ef þú hefur ekki séð myndina; Edna Mode, túlkuð æðislega af Brad Bird sjálfum. Klárlega ein skemmtilegasta og vanmetnasta persóna ofurhetjumyndaflokksins, æðisleg krufning á ofurhetjubúningum.

Það besta við The Incredibles er að hún hefði getað verið leikin kvikmynd en hún græðir heilmikið á að vera teiknimynd, eins og með hvernig augnlokin verða að hluta grímnanna til að gera svipbrygðin expressívari- elskaði það. Einnig hefði hasarinn ekki verið jafn hraðskreiður og flugbeittur hefði myndin verið gerð fyrir framan myndavélarnar, allavega ekki árið 2004.

Ekki fyrir fólk á öllum aldri, enda er myndin ekki að reyna höfða til allra. En hún er fyrir fjölskylduna sem innst inni vill fátt annað en að vera með hvort öðru. Tilvalið efni í náið fjölskyldugláp.

  (8/10)