Ein óhugnanlegasta mynd heims

Þessa dagana stendur kvikmyndaklúbburinn Svartir sunnudagar í Bíó paradís fyrir kvikmyndahátíðinni Forboðinn febrúar, sem einbeitir sér að myndum sem hafa verið, eða eru enn bannaðar í sumum löndum. Næsta mynd á Forboðnum febrúar er hin ítalska Saló: O le 120 giornate di Sodoma eftir Pier Paolo Pasolini. Myndin er byggð á skáldsögunni 120 dagar í Sódómu eftir Marquis De Sade, sem uppi var á átjándu öld og fyrirbærið Sadismi, er kennt við.

Í Saló heimfærir Pasolini skáldsögu De Sade uppá seinni heimstyrjöldina á Ítalíu. Undir stríðslok höfðu fasistar hernumið svæði sem kallaðist Saló. Þar hegðuðu herforingjarnir sér eins og kóngar og eyddu dögunum í að pynta fólk og svala sínum lægstu fýsnum. Saló gerist að mestu í höll sem hertekin hefur verið af mönnum Mussolinis og segir frá fjórum hershöfðingjum sem sameinast í að upplifa hið fullkomna andlega gjaldþrot á kostnað saklausra ungmenna.

Svartir sunnudagar fá listamenn og hönnuði til að sérhanna plaköt fyrir allar bíómyndir sem sýndar eru í klúbbnum. Plakatið fyrir Saló hannaði listmálarinn Þrándur Þórarinsson en Ómar Hauksson sá um uppsetningu.

Umsögn af vef Bíó paradísar:  Saló er mjög ágeng kvikmynd og seint hægt að segja að hún sé hugguleg áhorfs. Hún er talin pólitískasta verk Pasolinis og má líta á hana sem uppgjör hans við ítalska fasismann, nokkuð sem ítalir áttu eftir að gera og hafa sumpart ekki gert enn.
Myndin var bönnuð víðast hvar í heiminum og er enn bönnuð t.a.m. í Ástralíu. Þegar teknir eru saman listar yfir óhugnanlegustu myndir sem gerðar hafa verið hefur Saló ávallt verið einhversstaðar á topp 10.
Hér er líklega um að ræða fyrsta skipti sem Saló eftir Pasolini er sýnd í íslensku kvikmyndahúsi.

 

Tegund og ár: Leikin mynd, 1975
Upprunalegt heiti: Salò o le 120 giornate di Sodoma
Lengd: 116 mín.
Land: Ítalía
Leikstjóri: Pier Paolo Pasolini
Aðalhlutverk: Paolo Bonacelli, Giorgio Cataldi, Umberto Paolo Quintavalle
Sýnd: 10. febrúar 2013