Eilíf Birta

Tvær nýjar og spennandi kvikmyndir koma í bíó í þessari viku, önnur þeirra íslensk en hin bandarísk. 

Það eru jafnan mikil og góð tíðindi þegar ný íslensk kvikmynd er frumsýnd, í þetta skiptið er það Birta, ný mynd leikstjóra Vítis í Vestmannaeyjum og fleiri frábærra fjölskyldumynda, Braga Þórs Hinrikssonar.  Handrit skrifar Bragi sjálfur ásamt sambýliskonu sinni Helgu Arnardóttur, en myndin er sannkölluð heimilisframleiðsla, því einnig leika í myndinni dóttir Helgu og stjúpdóttir Braga, Margrét Júlia, sem og móðir Helgu, Margrét Ákadóttir.

Það eru einnig tíðindi þegar ný Marvel ofurhetjumynd kemur í bíó, eins og nú á föstudaginn þegar Eternals lendir á hvíta tjaldinu, eða Hin Eilífu.

Glæsilegur hópur.

Eins og jafnan í Marvel myndum er myndin sneisafull af þekktum gæðaleikurum og nægir þar að nefna Angelinu Jolie og Salma Hayek sem og Gemma Chan og Game of Thrones leikarana Kit Harington og Richard Madden. 

Í myndinni er sögð saga hinna Eilífu, sem er kynþáttur ódauðlegra geimvera, sem lifað hafa í leyni á Jörðinni og mótað sögu hennar og menningu í þúsundir ára. Eftir atburðina í Avengers: Endgame, þá verður óvæntur harmleikur til þess að hin Eilífu þurfa að koma út úr myrkrinu og berjast ásamt mannkyninu við sameiginlegan óvin.

Mjög góð upplifun

Í samtali við Morgunblaðið um síðustu helgi sagði Kristín Erla Pétursdóttir, önnur aðalleikkona Birtu, að það hafi verið mjög góð upplifun að leika í myndinni og mjög gaman. Undir það tók Margrét Júlía Reynisdóttir, hin unga aðalleikkonan.  Þær leika systurnar Birtu og Kötu.

Myndin var tekin upp fyrir einu ári og tökurnar tóku tvær vikur. 

Þær Margrét og Kristín segja að Birta lendi í hremmingum í myndinni. „Við erum að reyna að safna pening fyrir mömmu okkar því Birta heyrir mömmu segja í símann að hún sé blönk,“ segir Margrét Júlía og segir móðurina áhyggjufulla að geta ekki haldið almennileg jól sökum peningaleysis. “Hún verður áhyggjufull og þá verður Birta líka mjög áhyggjufull og vill hjálpa mömmu sinni,“ segir Kristín Erla við Morgunblaðið. 

Hvar passar hún inn í sagnaheiminn?

Í grein í The Radio Times er fjallað um hvernig Eternals passar inn í Marvel sagnaheiminn. Þar segir að þó að í myndinni sé töluvert um endurlit í leiftursýn aftur í tímann, þá gerist kvikmyndin aðallega í nútímanum, eftir dauða Thanosar í Avengers: Endgame. Þetta megi sjá í samtölum milli persóna og þá hafi höfundar myndarinnar gefið í skyn að myndin gerist átta mánuðum eftir Endgame. 

Það þýðir samkvæmt því sem blaðamaður Radio Times segir að atburðir myndarinnar gerast eftir atburðina í sjónvarpsþáttunum WandaVision, The Falcon and the Winter Soldier og Shang-Chi and the Legend of the Ten Rings, en áður en Spider-Man: No Way Home, sem kemur í bíó í desember, gerist.