Eftirminnilegustu senur ársins

Mér finnst oft ansi gaman að búa til svona „auka“ lista, sérstaklega þegar maður er búinn að telja upp verstu myndirnar á árinu sem bráðum fer að líða og áður en bestu myndirnar eru settar í forgrunn.

Það þarf svosem ekki að teygja þetta með einhverjum inngangi. Þetta lýsir sér nokkurn veginn sjálft. Listinn telur upp þær senur sem stóðu mest upp úr minninu og ætla ég ekkert að fela það að valið hallast rosalega að Hollywood-hliðinni. En auðvitað gæti ég skrifað langan lista og talið upp þau litlu (karakterdrifnu) atriði sem hittu í mark hjá mér eða fengu augun mín til að svitna talsvert. Ég læt samt slíka dýpt alveg í friði og miðast mikið við hið sjónræna núna. Vonandi mótmælir því enginn.

Kíkjum á…


.:10 EFTIRMINNILEGUSTU SENUR ÁRSINS 2011:.

(ekki endilega þær bestu, athugið það!)

Ég geri mitt besta til að passa mig á spoilerum – eða að minnsta kosti vara við.

 

10. Nauðgun með gaddavír – The Human Centipede 2: Full Sequence
(SPOILER? SKIPTIR ÞAÐ MÁLI??)

Mig langar helst ekki til að muna neitt eftir þessari mynd, og ég mun lengi hata Tom Six fyrir að gera mér það að sýna hvernig það liti út ef öftustu konunni í subbulegri halarófu yrði skyndilega nauðgað (og ekki á krúttlega mátann), og þá af skrímslafeitum geðsjúklingi sem vefur gaddavír utan um drjólann á sér. Ég er að vísu þakklátur fyrir það að Six hafi ekki gefið þetta kvikindi út í þrívídd. Það er ekki eins og hann sé ekki nógu mikið að nudda þessu mómenti í fésið á þér. Það versta er samt að nauðgunin er ekkert sýnd í klipptum bútum, heldur eðilegri lengd, og aldrei hef ég beðið eins óþreyjufullur eftir því að svona viðurstyggilegur karakter fengi fullnægingu bara svo senan myndi hætta sem allra fyrst.

Þegar ég kom heim eftir þetta bíó þurfti ég að skella Se7en í tækið til þess að hugga mig. Og samkvæmt leikstjóranum á sú þriðja að vera miklu, miklu verri! Sjaldan hefur ókomin bíómynd virkað jafn fráhrindandi og forvitnileg á sama tíma.
Við búum í ljótum heimi.

9. Taylor Lautner finnur ástina – Breaking Dawn: Part 1
(SPOILER!!)
Úfff…
Alveg sama hvað leikstjórinn reyndi (og við erum að tala um fagmann sem hefur verið tilnefndur til Óskars), þá tókst honum samt ekki að hindra það að „imprint“ senan margumtalaða yrði ein sú hlægilegasta á öllu árinu. Á blaði er hugmyndin auðvitað svo stórkostlega freðin að maður verður dálítið að virða Stephenie Meyer fyrir að þora að setja nafnið sitt á þessar bækur. Framvindan í Breaking Dawn-bókinni er heimsþekkt án þess að margir hafi lesið stakasta staf í bókinni. Myndin, eins og ég minntist á, gerir sitt besta til að tjúna niður hallærisleikann, en það heppnast misvel. Hátindinum er náð þegar Taylor „sjitt-hvað-ég-er-með-langan-háls“ Lautner fellur á hnén þegar hann finnur nýju ástina sína, sem er ekki bara nýfætt ungabarn heldur afkvæmi gellunnar sem hann hefur þráð frá upphafi sagnanna.
Greinilegt að einn muni setja sambandsstatus sinn á Facebook sem: It’s complicated.

8. Saga prinsins – Harry Potter and the Deathly Hallows: Part 2
(LÉTTUR SPOILER)

The Prince’s Tale er einn albesti kaflinn í Deathly Hallows-bókinni, enda sá kafli sem fær alla til þess að hugsa: „Ahh, nú skil ég! Æ, hvað hann er mikið yndi!“

Allir elskuðu Snape löngu áður en vitað var hvort hann væri vondur eða góður. Kvikmyndaunnendur elska Alan Rickman, og þess vegna áttu þeir sem elska bæði bíómyndir og Harry Potter von á ljúfum glaðningi þegar þessi umræddi kafli var kvikmyndaður.

Rickman er magnaður í þessari senu, og sundurtætta „montage“ klippingin gerir hana hér um bil framúrskarandi. Þessi upplýsingarorgía með meðfylgjandi táraflóði í lokin er næstum því hápunkturinn á allri seríunni, og þegar um er að ræða bíómyndaseríu sem spannar hvorki meira né minna en átta kvikmyndir, þá segir það ansi mikið. Ég elska þessa mynd, þú ættir að gera það líka.

7. Vöðvar gegn vöðvum – Fast Five

Þegar spennumynd býður upp á slagsmálasenu með Vin Diesel og Dwayne „The Rock“ Johnsson, þá ertu ekki að horfa á tvo menn lemja hvorn annan, heldur „Clash of the titans!“ Þessi sena stendur svo sannarlega undir Furious-nafninu og er með þeim harðari sem sáust á öllu árinu. Ef Fast Five var þinn tebolli, þá er ekki séns á öðru en að þú hafir notið þess í botn að sjá þessi tröll slást um það hvor er nýi Schwarzenegger.

The Rock er líka einn af fáum mönnum í heiminum sem lætur Diesel líta út eins og smástelpa í samanburði. Horfið samt næst á senuna með því hugarfari að Diesel er í raun og veru tvíkynhneigður (dagsatt!). Kannski maður skynji ýmsa dulda undirtóna þarna einhvers staðar.

6. Djarfur í Dubai – Mission: Impossible – Ghost Protocol

Af hverju hata svona margir Tom Cruise?? Mér er persónulega skítsama hvaða trú hann tilheyrir því ég er ekki að fara að passa börnin hans heldur horfa á frammistöðu hans í vinnunni sinni. Ef ég myndi hafa lágt álit á leikurum eða kvikmyndagerðarmönnum útaf persónulega lífi þeirra, þá væri ég t.d. aldrei búinn að sjá The Pianist eða Midnight in Paris.

Cruise er kannski stundum svolítið góður með sig, en djöfull kann hann að leika hasarhetju. Það hleypur enginn eins og þessi (miðaldra!!) maður og Dubai-senurnar í Mission: Impossible – Ghost Protocol voru ótrúlegar. Myndin toppar sig aldrei eftir atriðin þar sem hann klifrar upp hæstu byggingu heims eða tekur þátt í hraðskreiðum eltingarleik í miðjum sandstormi. Þessar tvær senur eru aðgangseyrisins virði ein og sér, og fullkomin leið fyrir Brad Bird til að undirstrika það að hann hefur hæfileikann til að búa til leikna hasarmynd. John Woo á ekki lengur séns í þennan Pixar-pró, a.m.k. hvað þessa seríu varðar.

5. Lestarslysið – Super 8

Super 8 hitti nú í mark hjá flestum, en það er umdeilt hversu mikið. Sumum fannst hún fín, öðrum stórkostleg og allt þar á milli. Ég var mjög ánægður með hana sjálfur en fyrir utan ákveðna dramatíska senu með Elle Fanning (þar sem hún grætur framan í kameru) var aðeins eitt atriði sem sló mig alveg í andlitið, og það er einhver besta lestaslyssena sem hefur verið kvikmynduð í bandarískri bíómynd síðustu árin.

J.J. Abrams virðist alltaf læra eitthvað nýtt með hverri mynd og hérna vissi hann alveg hvernig best væri að grípa áhorfandann í fyrsta þriðjungnum. Auðvitað er þetta allt mjög bíómyndalegt og óraunsætt, en skítt með það. Þetta er afþreyingarbíó með hliðarskammti af fjölskyldudrama! Ekta Spielberg-afrit.

4. Bygging að hrynja! – Transformers: Dark of the Moon

Það má vera að Michael Bay sé ofdekraður, hégómafullur og barnalegur smákrakki en hann veit svo sannarlega hvernig á að matreiða hávært og aðdáunarvert ofbeldi. Bay er stanslaust í pissukeppni við aðra í bransanum, og eins mikilfenglegt og tjónið var í Super 8, þá sleikir það ekki tærnar á Transformers 3.

Myndin er hávær og löng steypa, en ég kýs einnig að líta á hana sem stórskemmtilega steik sem er í senn bara leikin teiknimynd. Senan þar sem hundrað hæða bygging er tætt í sundur er nóg til þess að deyfa á þér kjálkann í nokkrar mínútur. Hún er ruddalega flott, rosalega „intense“ og mátulega brjáluð að öllu leyti. Bay hylur tilgangsleysi senunnar með ofsa fínum vinnubrögðum, og það böggaði mig ekkert að myndin missti engan veginn dampinn í keyrslu sinni eftir hana. Alvöru sumarbíó!

3. Bræðraslagur – Warrior
Sögur um lítilmagna (þ.e. svokallaðir underdogs) geta oft verið áhrifaríkar, og hérna höfum við tvo. Hvað gerist þá þegar tvær ótrúlega traustar og öflugar persónur eru settar saman í slagsmálahringinn? Áhorfandinn – allavega sá sem hefur sál og tilfinningar – étur af sér neglurnar af spenningi og dramakasti! Ofbeldið er grimmt, átakanlegt (eins mikið og PG-13 mynd leyfir) og finnur maður fyrir hverju einasta höggi eins og annar hvor aðilinn sé við það að missa hjartsláttinn.
Ef einhver hefur velt því fyrir sér hvað sumir eiga við þegar þeir tala um „powerhouse“ kvikmyndir, Warrior veitir þér svarið við því.

Þið sem vitið ekki enn hver Tom Hardy er skuluð djöflast til þess að horfa á þessa mynd og þá sést að næsta Batman-illmenni sé í fínum höndum (nema stúdíóbeljurnar rugli eitthvað í hljóðrásinni).

2. Marokkó-eltingarleikurinn – The Adventures of Tintin: The Secret of the Unicorn

Frumlegasta hasarsena ársins, ekki spurning! Sennilega er þetta líka ein af betri senum sem hefur sést í Spielberg-mynd. Eitt skot, 6 mínútur, stanslaust kaos, fullt af persónum og alltaf pláss fyrir húmor. Ekki bara sýnir þetta eina atriði hvers vegna Tinnamynd átti aldrei að vera annað en (tölvu)teiknuð, heldur er þetta besta leiðin til að sýna hluti sem hægt er að gera með Motion Capture-tækni sem venjulegar tökuvélar leyfa ekki. Svona liti frægasta senan í Children of Men út ef hún hefði verið litrík teiknimynd.

Eins gott að næsta Tinnamynd geri eitthvað álíka glæsilegt.

1. Ljúf stund í lyftu – Drive

Ég vil ekki segja frá því sem gerist, en það sem gerist er bæði fallegt og brútal – og, kaldhæðnislega, akkúrat í þeirri röð! Senan í lyftunni sýnir fullkomlega hvað Drive er óvenjuleg en samt svo kjörkuð kvikmynd, og ég gæti eflaust fyllt annan topp 10 lista með bara atriðum úr henni sem voru íkonísk. Í sterku öðru sæti kæmi öll opnunin. Ekki kreditlistinn (þó hann hafi í raun líka verið geggjaður!), heldur flóttinn á undan honum.
Og þessi tónlist… Jesús!! Skyndilega er maður þakklátari fyrir að vera með eyru.
Hversu margir hérna hafa keyrt að nóttu til (niður Laugarveginn, kannski?) með Nightcall í gangi og liðið eins og þeir séu ódauðlega svalir??

BÓNUS:
Kevin Bacon talar þýsku – X-Men: First Class

Hvað getur maður svosem sagt? Beikonið talar góða þýsku.
Er það skrítið? Já, mjög!
Stóð kallinn fyrir sínu? Algjörlega.
Gott illmenni. Frábær mynd líka sem er stútfull af góðum senum (Og já, Michael Fassbender er í þeim öllum!)

Aðrar sem komu til greina:

Attack the Block – Geimverurúst í slow-mo skoti
Captain America
The Star Spangled Man
Crazy, Stupid, Love. – allar persónur myndarinnar á einum stað
Melancholia – abstrakt opnunin
Sucker Punch – opnunarsenan (hún var reyndar ansi töff!)< Thor – allar senurnar með Heimdalli
Tree of Life – Lacrimosa-ópusinn

Hver vill svo segja sitt?