Kvikmyndafyrirtækið Disney er búið að ákveða að frumsýna myndina Planes, eða Flugvélar, þann 9. ágúst 2013 í Bandaríkjunum, en myndin er hliðarmynd, e. „spin-off“, af teiknimyndunum vinsælu Cars, eða Bílar.
Það er DisneyToon Studios sem býr þessa mynd til en yfirmaður Pixar/Disney Animation, John Lasseter, framleiðir.
Í myndinni er fylgst með flota af flugvélum, og þá einkanlega flugvélinni Dusty.
Upphaflega átti Two and a Half Men leikarinn Jon Cryer að tala fyrir Dusty, en hann er hættur við, og Disney leitar nú að nýrri rödd.
Sjáðu stikluna hér að neðan:
Disney ætlaði upphaflega að gefa Planes út beint á vídeó, en hefur núna ákveðið að setja myndina í bíó, bæði í Bandaríkjunum og utan Bandaríkjanna.
Þessa frumsýningarhelgi í ágúst nk. þá mun Planes etja kappi við myndir eins og Elysium, sem er fyrsta mynd Neill Blomkamp eftir að hann gerði District 9. Þá er væntanleg þessa helgi einnig smygl-gamanmyndin We’re the Millers, með þeim Jason Sudeikis og Jennifer Aniston í aðalhlutverkum.
Samkeppnin verður hörð
Af öðrum teiknimyndum sem væntanlegar eru næsta sumar þá má nefna Smurfs 2, Monsters University, Despicable Me 2 og síðast en ekki síst Epic, mynd um unglingsstúlku sem lendir í bardaga í skógi. Þar er það engin önnur en söngdívan Beyonce Knowles sem talar fyrir stúlkuna.