Drottnari allra geimvera – Viðtal við Sigourney Weaver

Ef þú ert nýlent geimvera þá ráðleggjum við þér að halda þig fjarri Sigourney Weaver. Hún er nefnilega þekkt, og tilnefnd til Óskarsverðlauna, fyrir að drepa allt sem ekki er af hennar heimi í Alien-myndunum sem hin dáða Ripley. Svo endurtók hún leikinn í Galaxy Quest en þar barðist hún við máttaröfl geimherforingjans Sarris. Og nú munum við sjá hana í Paul, þar sem hún gerir sitt allra besta til að stúta aðalhetjunni, hinni vinalegu geimveru Paul.

Að því sögðu hlýtur maður að spyrja sig, hvað hefur Weaver á móti geimverum? „Ekkert, ég hef bara ekki hitt þá réttu ennþá!“ segir hún og hlær. „Ég held að við Paul höfum eitthvað verið að draga okkur saman áður en myndin hefst og hann hafi einfaldlega brugðist mér.“

Þegar Weaver var sem duglegust að slátra „facehuggers“ og drottningum af hinu illa Alien-kyni var hún ein af góðu gæjunum. Í Paul leikur hún hinsvegar persónu The Big Guy (Stóra Gaursins), sem er án nokkurs vafa illmennið í myndinni. The Big Guy verður best lýst sem óþolandi skrifstofublók sem þráir ekkert heitar en að sjá geimveruna sem slapp úr fangageymslum hennar fangaða og helst grillaða á teini. „Hún er hjartalaus tík,“ segir Weaver. „Ég held hún væri ánægð með þann titil.“

Hún segist hafa heillast af myndinni af tveimur ástæðum; „Hún er blanda af tveimur hlutum sem ég dýrka, annarsvegar vísindaskáldskap og hinsvegar gríni. Ég er mikill aðdáandi Simon Pegg og Nick Frost, og auðvitað Kristen Wiig og Jason Bateman líka. Svo má ekki gleyma Greg Mottola, sem ég er sannfærð um að getur gert hvað sem hann vill. Handritið var dásamlegt, ég var himinlifandi að fá að vera með í einhverju sem var svona þægilegt og dásamlegt og frumlegt að auki. Jafnvel þótt ég hefði ekki fengið að vera í fallegum kjól held ég að ég hefði slegið til!“

Talandi um kjólinn; hlutverk Weaver í gegnum myndina er þannig að hún sést aðeins í einu atriði í mynd, þar sem persóna hennar er kölluð beint úr stórbrotnum kvöldverði til að messa yfir Paul og vinum hans. Þannig að, eðlilega, skartar hún afar glæsilegum kjól. „Ég fékk sem sagt að vera í fallegum kjól,“ segir hún flissandi „og það er í raun það eina sem skiptir máli, nokkurn tíma!“

Fyrir utan umrædda senu er hlutverk hennar aðallega í kjaftinum á henni, það er að segja, hún birtist helst sem rödd á enda símalínunnar þar sem hún talar við persónu Bateman, Zoil. „Við æfðum okkur í gegnum síma, sem hjálpaði mér mikið til að byrja með. Svo reyndum við að leggja senurnar niður, svo Jason hefði eitthvað til að leika á. Hann var frábær.“

Til að byrja með var rullan hennar, The Big Guy, skrifuð með, tja, stóran gaur í huga. En þar sem Weaver er eitt af stærri nöfnunum í sci-fi heiminum (höfundarnir Pegg og Frost eru ekki lítið hrifnir) var lítið mál að breyta því. „Mér finnst gaman að því þegar persónur eru skrifaðar og það skiptir ekki máli hvort þær eru karlkyns eða kvenkyns,“ segir Weaver. „Þannig virkar bara heimurinn í dag.“

Nálægð Weaver er ekki bara í símanum og á tjaldinu heldur má sjá ýmislegt í handritinu öllu sem vísar í hennar fyrri myndir og vottar þeim, og henni, virðingu sína. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún er beðin um að vera í verki sem vitnar í hennar eldri verk, en þetta er í fyrsta sinn sem hún hefur sagt já. „Ég elska Alien-myndirnar. En Paul var gerð í samhengi sem mér fannst trúverðugt. Hún er uppfull af léttum tilvísunum, það eru virðingarvottar til alls konar meistaraverka sci-fi heimsins út um allt í henni, svo margar í raun að maður ætti að hafa skýringatexta með á DVD disknum! Ég held að ég hefði ekki verið með nema af því að Mottola, Pegg og Frost komu að myndinni. Ég vissi að þeir gætu gert þetta þannig að það rynni smurt.“

Geimverur og Sigourney Weaver hafa eldað grátt silfur um langa tíð, en á hún sér einhverjar uppáhalds geimverur? „Ég kann vel við „The Pod People“,“ segir hún og vitnar þar með í Invasion of the Body Snatchers. „Þessa útgáfu af sjálfum þér sem sefur undir rúminu þínu og á meðan þú burstar tennurnar yfirtekur hún líkama þinn á svo sannfærandi hátt að maki þinn fattar ekkert. Ég er hrifin af því konsepti,“ segir hún og hlær. Eða, við höldum allavega að þetta sé Sigourney Weaver…

Texti: Kolbrún Björt Sigfúsdóttir