Svissneski leikarinn Bruno Ganz, sem fór eftirminnilega með hlutverk Hitlers í kvikmyndinni Downfall, eða Der Untergang eins og myndin heitir á frummálinu, er látinn, 77 ára að aldri. Hann lést í Zurich í heimalandinu, eftir löng veikindi.
Ganz lék einnig engil í kvikmyndinni Wings of Desire, og var rödd dauðans í nýjustu kvikmynd Lars von Trier, The House that Jack Built. Þá lék hann í Óskarstilnefndri kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Börn náttúrunnar.
Til gamans má geta þess að hann lék íslenska þjóninn Fernando Girasole í ítölsku kvikmyndinni Pane e Tulipani frá árinu 2000.
Ganz var einn þekktasti leikari Evrópu, bæði í kvikmyndum og í leikhúsi, en best þekktur var hann fyrir framangreint hlutverk í kvikmyndinni Downfall, en myndin var á sínum tíma tilnefnd til Óskarsverðlauna.
Atriði í myndinni hefur einnig verið notað óspart á netinu, og gerðar hafa verið ótal grínútgáfur, sem finna má á YouTube m.a.
Ganz fæddist í Zurich 22. mars árið 1941. Faðir hans var svissneskur vélvirki og móðir hans fæddist á norður Ítalíu. Ganz fékk snemma leiklistarbakteríuna og ákvað að feta leiklistarbrautina um svipað leiti og hann hóf háskólanám, en hann byrjaði að leika á sviði í þjóðleikhúsinu í Bremen. Þá stofnaði hann tilraunaleikhúsið Schaubuehne í Berlín, en þar fengu margir þekktir leikarar sitt fyrsta tækifæri í leiklistinni.
Frammistaða Ganz í hlutverki Jakov Shalimov í Sommer Folk eftir Max Gorky, varð til þess að hann fékk hlutverk í sjónvarpsþáttum og þar með hófst ferill hans í sjónvarpi og kvikmyndum.
Wim Wenders réð hann í hlutverk ásamt Dennis Hopper í The American Friend árið 1977, og síðar lék hann engil sem kom til Jarðar í meistaraverkinu Wings of Desire frá árinu 1987. Þá lék hann í kvikmynd Werner Herzog, Nosferatu the Vampyre, árið 1979, þar sem Klaus Kinski fór með hlutverk vampírunnar. Uppfrá því vakti Ganz athygli utan landsteinana, og lék í fjölda mynda til viðbótar, m.a. myndum leikstjóranna Francis Ford Coppola, Stephen Daldry og Ridley Scott. Síðasta hlutverk hans fyrir andlátið var í Radegund eftir Terence Malick, sem er enn í framleiðslu.
Árið 2004 lék Ganz svo í mynd Oliver Hirschbiegel, Downfall, og var frammistaða hans lofuð víða, en myndin fjallaði um síðustu daga Adolfs Hitler nasistaforingja, í neðanjarðarbyrgi hans.
Best þekkta senan í kvikmyndinni er þegar Ganz upphefur mikinn reiðilestur þegar Hitler sér fram á að hann er að tapa stríðinu.
Atriðið hefur verið notað ótal sinnum, og því verið breytt á margvíslegan hátt, þannig að settur er nýr texti undir reiðilesturinn.