Django Unchained sýnd í Kína

Hingað til hafa kínverskir kvikmyndaunnendur ekki fengið að njóta kvikmynda Quentin Tarantino en nú virðast tímarnir breyttir því nýjasta mynd leikstjórans, Django Unchained, verður frumsýnd þar í landi þann 11. apríl næstkomandi. Þessu greindu Sony Pictures frá í dag.

Django Unchained hefur svo sannarlega slegið í gegn en hún vann til tvennra Óskarsverðlauna þar sem Tarantino fékk verðlaun fyrir besta handrit og Christoph Waltz fékk verðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki. Þá hefur myndin halað inn 402 milljónum Bandaríkjadala á heimsvísu en það er um 80 milljónum dollara meira en næst tekjuhæsta mynd Tarantino, Inglorious Basterds.