Die Hard 5 fær útgáfudag

20th Century Fox gaf út nýlega lista yfir útgáfudaga væntanlegra mynda næstu tvö árin, en þar mátti m.a. finna næstu Die Hard myndina; sem mun bera titilinn A Good Day to Die Hard og líklega Die Hard 5 hér í Evrópu, í stíl við forvera hennar.

Myndin mun koma út 14. febrúar árið 2013, en tilvist hennar var staðfest í maí á síðasta ári þegar að handritshöfundur Hitman myndarinnar og The A-Team, Skip Woods, var sagður vera í viðræðum um að skrifa handritið fyrir hana. Samkvæmt Bruce Willis, sem mun enn og aftur taka við hlutverki John McClane, var handritið klárað í október fyrir ári og munu tökur hefjast í janúar næstkomandi. Leikstjórinn verður John Moore, sem leikstýrði m.a. 2006 endurgerðinni af The Omen og Max Payne. Hvað varðar sögu myndarinnar, þá hefur verið staðfest að hún mun fjalla um tilraun Johns til að bjarga syni sínum, John McClane Jr., og er hann staddur í Rússlandi. Mary Elizabeth Winstead, sem lék dóttur Johns í fjórðu myndinni, hefur sagt að hún búist ekki við því að endurtaka hlutverk sitt í þessari.

Persónulega finnst mér að serían hefði mátt enda eftir fjórðu myndina þar sem að hún var alls ekki svo slæm, en til að bæta gráu ofan á svart hefur Willis áður sagt að hann vilji gera „eina loka-Die Hard mynd“; s.s. Die Hard 6.

Hinar myndirnar sem fengu útgáfudag: Taken 2, 5. október 2012; Of Men & Mavericks, 26. október 2012; Parental Guidance, 21. nóvember 2012; Percy Jackson: Sea of Monsters, 27. mars 2013; og að lokum kemur Walking with Dinosaurs 11. október 2013.